Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Gimsteinar í mannsorpinu

Ég horfði á heimildarmynd um Ghengis Khan í gærkvöldi og það kom hugsunum mínum á flug. Ég fór að velta fyrir mér lífinu almennt og fólki sem maður hefur hitt, umgengist og unnið með á lífsferli sínum. Þá mundi ég eftir vísukorni eftir Bólu-Hjálmar sáluga, en ég hef alltaf haft miklar mætur á honum. Vísustúfurinn fangaði í raun allar mínar hugsanir í gærkvöldi.

 

Víða til þess vott ég fann

Þó venjist oftar hinu

Að Guð á margan gimstein þann

Er glóir í mannsorpinu

 

Hann synti á móti straumnum á sínum tíma og ég held að við öll upplifum eitthvað í líkingu við það einhverntímann á ævinni.


Skýið - Þriðji hluti

Ferðalagið var hafið og það átti í upphafi að vera tímalaust, eða eins tímalaust og hægt er miðað við þann tíma sem okkur er gefinn hér á jörð. Annað kom þó á daginn eins og gefur að skilja af þessari frásögn. Líklega hefði hún ekki orðið til nema tímaleysið heðfi skyndilega endað.

Allt saman fór vel af stað og langflestir, sem á vegi okkar urðu tóku vel við okkur. Allavega í heildina litið, með einhverjum undantekningum þó, svona eins og gengur og gerist. Smátt og smátt dró úr spennunni, sem byggst hafði upp fyrir upphaf ferðar og maður náði að meta umfang hlutanna og hemja ákefðina. Leiksvið ferðalagsins var mér síður en svo ókunnugt og því kunni ég ákaflega vel. Ég hafði að vísu bætt við mig skýinu mínu og svo fleiri nákomnum, er studdu mig vel í gegnum alla byrjunarörðugleikana er litu dagsins ljós.

Maður er alltaf partur af einhverri heild sem síðan er hluti stærra samhengis og svo fram eftir götunum. Ég áttaði mig á þessu, ótrúlegt en satt og tók nýju umhverfi okkar sem ákveðinni áskorun, sem þyrfti bæði að sigrast á og vinna með. Mér var það fyllilega ljóst að ég þyrfti einmitt að gera báða þessa hluti, sigrast á og vinna með. Það var minn mikli styrkur í upphafi sem og í ferðalaginu öllu.

Ég var nú búinn að fóta mig í nýju umhverfinu og það gekk mjög vel, þökk sé kunnáttu minni á hlutunum fyrirfram. Þá þurfti ég einungis (manni er svo tamt að tala um stóru hlutina í lífinu sem litla með því að gefa þeim minna vægi í orðum manns í frásögnum en það er í sjálfu sér seinni tíma pæling) að setja stefnuna og ákveða hvað yrði gert. Það var nú það.

Raddirnar sögðu mér að halda áfram.


Skýið - Annar hluti

Ferðalagið hófst í raun eftir þónokkra bið og maður var farinn að hálförvænta á tímabili hvort af henni yrði eða ekki. Undirbúningurinn var þó búinn að standa yfir í mörg herrans ár og búið að stefna leynt og ljóst að henni allan þann tíma.

Ég hafði nefnilega verið áhorfandi í fjarlægð að svipaðri ferð áður og hafði þá einsett mér, án þess að vita af því fyrr en nokkru seinna, að fara þessa ferð. Tækifærið gafst skyndilega en ég hafði samt búist við því þannig að ekki var erfitt að sækja að henni.

Síðan tók við það versta. Biðin. Biðin eftir að ganga frá öllum lausum endum, sem þurfti að ganga frá áður en farið yrði af stað. Það tók langan tíma, lengri en ég hafði ímyndað mér fyrirfram. Horfurnar voru jafnvel þannig á tímabili að loksins þegar maður sá fram á að allt væri að verða klárt, myndu hlutirnir æxlast þannig að maður yrði af ferðinni með skýinu. Svo fór sem betur fer þó ekki og eftir þessa löngu bið á lokasprettinum, þegar allur undirbúningur var í rauninni frá og ég orðinn tilbúinn, þá kom loksins að því. Ég og skýið festum okkur og vorum tilbúin að leggja í hann.

Og þá sagði ég eins og snigillinn sem fékk far með skjaldbökunni, vííííí.


Væntanlegt

Mínum dyggu lesendum tilkynni ég það hér með að nýr kafli smásögunnar "Skýið" er væntanlegur á síðuna einhverntímann á morgun. Ég er núna að leggja lokahönd á hugfræðilega sýn kaflans og mun henda mér í að setja hann í letur þegar þær systur leyfa á morgun, eins og áður sagði.

Það þýðir ekkert fyrir ykkur að spyrjast neitt fyrir um þessa smásögu fyrr en lokakafli hennar hefur verið birtur hér á síðunni. Þið verðið bara að hafa hemil á forvitninni þangað til. Ef þetta plagar ykkur eitthvað get ég alveg boðið ykkur hendina mína í skipti. Þetta á sérstaklega við um þig Bryndís.


Skýið - Fyrsti hluti

Svo fór þá eftir allt saman. Löngum hefur verið "þannig fór um sjóferð þá" þegar einhverju er lokið og hefur líklegast verið dæmt á þá lund að ekki hafi tekist jafn vel til um ætlast var til í upphafi. Þetta felur eiginlega í sér dóm í þá veru en um leið felst í þessu vel falin hughreysting. Þó svo að svona hafi hlutir farið nú þarf ekki að örvænta heldur halda áfram. Já það er einhvers konar örlagatrú falin í þessum orðum þannig að maður gefst ekki upp heldur rís úr öskunni eða sænum og mannar sig í að líta til nýrra hluta í framhaldinu.

Ég stíg út á skýið fullur eldmóði og sé fyrir mér vítt og vel, enda er það eðli skýja eins og allir vita að vera á himni þannig að vel þau sjá til jarðar. Nákvæmlega eins og ég vil hafa það, hugsaði ég og í þann mund hófum við vegferð okkar. Ég og skýið. Ég vissi hvert við ætluðum saman og það sem mest var um vert, skýið og allir þess fylgihlutir vissu það einnig.

Við erum komin af stað leyfði ég mér að kalla út í loftið, en auðvitað þannig að enginn heyrði nema við. Þetta er gaman hugsaði ég en áttaði mig jafnframt á því að þetta var léttasti parturinn. Allt sem á eftir kæmi yrði einhvernveginn ekki eins létt fyrir okkur. Ég áttaði mig á því að ég gat ekki leyft mér að liggja aðgerðalaus á skýinu og fylgjast með öllu líða hjá. Ó nei, ég þyrfti að vinna fyrir farinu mínu ef þannig mætti að orði komast. Um það var þegjandi samkomulag okkar, sem að ferðinni stóðu.


Einn léttur

Ég rakst á einn gamlan og góðan brandara núna rétt um daginn þegar ég var að rýna í gömlu gulu brandarabókina úr ÍKÍ. Miðað við það sem hefur gengið á í vetur finnst mér hann eiga alveg jafn vel við nú eins og þá.

 Hver skildi vera munurinn á Vestmannaeyingum og Húnvetningum ???

Jú, Húnvetningum myndi aldrei detta í hug að kjósa Hallbjörn Hjartar. á Alþingi  W00t

 

Ætli þessu verði nokkuð tekið illa?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband