Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Sjóræningjafærsla!

Síðan Anitu er læst í bili með lykilorðinu.... Hvað hét nú aftur yngri kötturinn okkar? Hmmm

Jahérnahér

Það er ekki á hverjum degi sem maður lendir í því að hjóla næstum því á dádýr.

Sem betur fer eru þetta eldsnögg kvikindi sem er meira en hægt er að segja um mig á hjóli.


Genginn öðlingur

Nú er maður staddur í Skagafirði í huganum, það verður að vera í huganum því allt of langt er maður í burtu þaðan akkúrat núna.

Það er héraðshátíð Framsóknarmanna og það er sko nóg af þeim í Skagafirðinum því betur. En það sem mér finnst vera best við hæfi á þessari skemmtun í kvöld að það er sérstaklega minnst gengins öðlings í sveit vaskra Skagfirðinga síðustu aldar, Guttorm Óskarsson. Hann vann ómetanlegt starf fyrir Framsóknarflokkinn, Kaupfélagið og ekki síður héraðið á sinni löngu starfsævi. Maður sem treystandi var á, þeir mættu vera fleiri í dag eins og Guttormur. Það var ekki sérstaklega hugsað um sig sjálfan heldur heildina.

Ég man eftir Guttormi í Kaupfélagskontórnum í mörgum ferðum, bæði með föður mínum og einn en alltaf var Guttormur boðinn og búinn í starfi sínu. Ein ferðin er sérstaklega minnisstæð. Þá fór ég með pabba að taka út pening á kontórnum á eftri hæð Gránu. Ég fékk að halda á seðlunum út úr húsi og af rjálni taldi ég þá. Það kom fát á mig því það stemmdi ekki við það sem átti að vera og við fórum aftur upp. Jú það var rétt að það vantaði en úr því var leyst strax án vandkvæða en leiður var Guttormur yfir hlutunum.

En öðlingssemin gengur í ættir veit ég fyrir víst því dóttir Guttorms er gift inn í ættina og þar er sama sagan uppi á teningnum og áfram reyndar. Alveg til fyrirmyndar.

Það er við hæfi að minnast þeirra sem skara fram úr þó þeir séu ekki alltaf sýnilegastir. Þess vegna er ég sérstaklega ánægður með héraðshátið Framsóknarmanna í Skagafirði í kvöld.

Svo skemmir það aldrei að hafa Álftagerðisbræður og Geirmund.


Spurning um að láta tívolíin og skemmtigarðana vera

Það líður ekki sá dagur núna hérna í Danmörku öðru vísi en það séu fréttir af skemmtigarða- og tívólíslysum. En auðvitað datt þetta í keppni og Svíarnir slógu Dönunum við í gær með fjölda.

Annars virðist þetta vera alls staðar, Tivoli Friheden, Djurs sommerland, Farup sommerland. Það er reyndar af nógu að taka hérna, skemmtigarðar út um allt og maður virðist helst fá að vita nöfnin á þeim í fréttunum því það er ný slysafrétt daglega.

Við látum þetta vera og klöppum bara ljónunum og fílunum í dýragörðunum í staðinn, það er öruggara.

ps. Gleymdi því auðvitað að það er ekki hægt að klappa fílunum. Þeir eru nýbúnir að slíta barnavagn af konu einni í einu sumarlandinu hérna. ÚFF, það eru bara ljónin sem eru hættulaus.


Skammt stórra högga á milli

Nú er skammt stórra högga á milli hjá Birkifellsfjölskyldunni. Eftir stækkun fjölskyldunnar skal haldið til Danaveldis til tímabundinnar dvalar (eitt ár). Þetta er búið að vera í bígerð en hefur haft sínar sveigjur og beygjur eins og svo margt annað.

Við erum sem sagt að flytja til Danmerkur eftir hálfan mánuð en búslóðin fer af stað nú á eftir, þar með talin tölvubúnaður þannig að stopult verður skrifað hér næstu tvær vikur.

Síðan verður tekið til af krafti þegar til Danaveldis kemur og skrifað og skrafað um stjórnmál, amerísk og dönsk en ætli maður dragi sig ekki til hlés í þeim íslensku að sinni.

Snáðinn verður síðan skírður þann 13. júní næstkomandi í Þorgeirskirkju, svona rétt í tíma áður en út er farið.

Það held ég.


Systkinamynd

Ágæt mynd hér af þeim þremur.

Mynd001

Annars var jaxlinn sendur með hraði í hjartaómskoðun seinnipart föstudags, heil hrúga af blóðprufum teknar og lagður inn á barnadeild. Þess vegna eru systur í sloppum, rétt svo fengu að heimsækja hann.

Allt í góðu var svo niðurstaðan því betur.


Nýjasti Framsóknarmaðurinn!

Alveg glænýr, síðan klukkan tíu mínútur í tíu í morgun.

Mynd004

Og önnur

Mynd000

Stór og stæðilegur, 58cm og 4890 gr.

Heilsast vel, báðum.


Áratuga óheppni

Nú náði ég að baka mér áratuga óheppni í gær með gáleysi og flumbrugangi. Á ferð minni um bílskúrinn, sem er reyndar ákaflega vandfarinn vegna fjölmargra velraðaðra nytjahluta, varð mér það á að brjóta eins og eina fimm spegla að minnsta kosti.

Ætli maður nái ekki að eiga ein fimm góð ár eftir að ógæfan rennur út.

Nema þá hún sé eitthvað afturvirk. Húnhefur svo sem ekki leikið við mann heppnin undanfarin ár sem Liverpool- og Boston C mann að maður tali nú ekki um Framsókn og sitthvað fleira.

Ef afturvirkni er samþykkt í speglamálum er ég búinn að sitja af mér nokkur það er alveg á hreinu.


Gullkorn dagsins

Ég vildi að  heimurinn væri öðruvísi en hann er sagði Salbjörg í kvöld rétt áður en hún fór að sofa. Alveg er ég sammála henni en það kom í ljós að það var ekki á sömu forsendum.

Ég vildi að börn gætu eldað þann mat sem þau vildu og konur gætu eldað þann mat sem þær vildu.

Það var nefnilega það. Ég var með eitthvað annað í huga og svo fannst henni ég ekkert þurfa á því að halda að elda mat sem ég vildi.

Hún á einhvern tímann eftir að vera með djúpar pælingar í framtíðinni.


Alveg eins og í teiknimyndunum

Það er frost hér fyrir norðan, verulegt frost reyndar. Úti að labba með stelpunum og komið að gamalli dráttarvél. Eyhildur vill setjast upp í og fær það auðvitað. Svo er rétt litið af henni. Hún sleikir auðvitað stýrið, það er úr járni, það er verulegt frost.

Hún losnaði nú áður en það þurfti að fara inn og þýða hana frá tækinu. Hún gerir þetta ekki aftur í bráð.

Það held ég.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband