Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Áhugaverður fundur

Nú í morgun sat ég, í aðdraganda flokksþings okkar framsóknarmanna, morgunverðarfund LFK um greiningardeild og leyniþjónustu sem bar yfirskriftina "er leyniþjónusta æskileg á Íslandi?". Erindi fluttu Sigríður Björk Guðjónsdóttir, aðstoðarríkislögreglustjóri og Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra og lögfræðingur.

Sigríður fór vel yfir málið í sínu erindi og skýrði vel greinimörk leyniþjónustu og greiningardeildar og hver væri alþjóðleg staða Íslands varðandi þessi málefni. Jónína fór síðan yfir ýmis lögformleg atriði sem og pólitísk.

Eftir að hafa hlýtt á erindi þeirra og umræður í framhaldinu verð ég að segja að ég tel það rétt sem Jónína hafði meðal annars fram að færa að það þarf að fara fram pólitísk umræða um hvaða stefnu Íslendingar eigi að taka í þessum málum. Pólitísk umræða sem á að miða að því að breið sátt náist um útfærslu þessara hluta til að staða okkar í alþjóðlegu samstarfi sé trygg.

Ég held það.


Ég líka

Kemur ekkert sérstaklega á óvart svo sem, hvorki frávísunarkrafan né niðurstaða þessarar skoðanakönnunar. Ég veit allavega að við höfum ákveðið að hætta viðskiptum við okkar olíufélag og færa þau viðskipti til til Orkunnar. Samt sem áður er það nú ekkert einfalt mál þar sem um 65km eru í næstu afgreiðslustöð þeirra frá okkur. Og síðan þarf maður að láta smyrja bílinn og svona og þá skiptir maður óbeint við einhver þessara þriggja félaga. Bara að það væri hægt að gera það að raunverulegum valkosti að hætta viðskiptum við þá sem haga sér á þennan hátt ..... og komast síðan upp með það.

 


mbl.is Mikil óánægja með frávísun í máli forstjóra olíufélaganna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmisaga dagsins

Tveir veiðimenn eru úti í skógi þegar annar þeirra hnígur niður. Hann virðist hættur að anda og augun í honum eru gljáandi. Hinn maðurinn tekur fram farsímann sinn og hringir í neyðarlínuna. Hann segir óðamála: "Vinur minn er dáinn! Hvað á ég að gera?" Starfsmaður neyðarlínunnar svarar: "Vertu rólegur, ég get hjálpað þér. Fyrst verðum við að vera vissir um að hann sé dáinn." Það er þögn um stund, síðan heyrist byssuskot. Veiðimaðurinn kemur aftur í símann og segir: "Ókei. Hvað svo?"

Þessi saga segir okkur það að við megum ekki segja hvað sem er hvenær sem er. Orðum fylgja ábyrgð og ef fólk ætlar að tjá sig hér í athugasemdir á síðuna mína verður það að hafa slíkt í huga. Ég vek athygli á því að ég eyði út athugasemdum sem ég tel ekki vera birtingarhæfar vegna orðræðu þeirra.

En höfum samt gaman af brandaranum hér að ofan, eftir því sem ég best veit þá er hann fyndnasti brandari í heimi samkvæmt breskum vísindamönnum.Smile


Merkilegt

Þetta eru fréttir í sjálfu sér , ég verð að segja það. Miðað við aðferðafræði þá sem liggur að baki þessarar skoðanakönnunar og þann fjölda sem þátt tók í henni sýnist manni að hún sýni sterka vísbendingu hvernig fylgisstaðan er í febrúar. Maður hefur samt í huga að tæplega 40% úrtaksins eru ekki með í útreikningum fylgisins.

Það hljóta að teljast þónokkur tíðindi að hinn stóri jafnaðarmannaflokkur, sem Samfylkingin var ætlað að vera við stofnun hennar hefur látið í minni pokann fyrir hinum minni sósíalíska VG flokki. Munurinn er ekki mikill en viriðist þó vera til staðar. Þarna er þá komin staðan í stjórnmálunum frá síðustu öld þegar Alþýðubandalagið var löngum stærra en Alþýðuflokkurinn.

Ég tel þetta vera nokkuð raunhæfa stöðu flokkanna í febrúar eins og áður sagði en það er langt í land og góður tími til kosninga fyrir þá sem rétta vilja sinn hlut, þar á meðal minn flokkur. Þó held ég að neikvæð áhrif landsfundar VG, sem ég hef rætt um hér áður á síðunni, séu ekki inni í þessari könnun og því tel ég óraunhæft að VG geti stólað á þetta fylgi í kosningunum í vor. Annað eins hefur nú gerst í stjórnmálunum á síðustu áratugum að þeir sem eru að fljúga ótrúlega hátt miðað við fyrri árangur missa dampinn á lokasprettinum og fá ekki nálægt eins góða kosningu og kannanir gáfu tilefni til að halda. Þarna getur maður til dæmis vísað í Alþýðuflokkinn í aðdraganda kosninga ´87 að mig minnir og eins kannanir sem Borgaraflokkurinn sálugi hafði fengið í sínum fyrstu kosningum en útkoman varð ekki eins góð þó að góð væri. Þá verður líka að horfa til þess að tæp 40% eins og áður sagði, eru ekki með í fylgisútreikningnum.

Þetta er raunhæf könnun sem gefur nokkuð raunhæfa mynd af fylgi flokkanna í febrúar að mínu mati þrátt fyrir alla varnagla sem maður slær við mat á könnunum og VG eru sigurvegarar hennar. Aðrir flokkar verða að teljast vera taparar hennar þó svo að fylgið virðist síga hægt upp á við hjá Framsóknarflokknum.

Margt á enn eftir að gerast, sjáum til. 


mbl.is VG með meira fylgi en Samfylking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningur við vísinda- og þekkingarsamfélag

Ég hef áður lýst ánægju minni með ýmis konar styrkveitingar og geri það enn varðandi þessa styrkveitingu. Styrkveitingar af þessu tagi eru að mínu mati grundvöllur að því að meiri árangur náist á sviði vísinda og mennta. Við Íslendingar erum komnir á þá braut núna að það er að verða algengara að fyrirtæki veiti fjármagni inn í þennan geira í formi styrkja. Eins hefur það aukist á síðustu misserum að fyrirtæki kosti ákveðnar stöður innan skóla og er það liður að sama marki.

Betur má þó ef duga skal finnst mér. Stórfyrirtæki eiga að sýna samfélagslega ábyrgð á þann hátt að veita meira fjármagni inn í metnaðarfull verkefni á sviði vísinda, hvaða vísinda sem er.

Þó ég sé að endurtaka sjálfan mig þá verð ég að segja að þetta er til fyrirmyndar.


mbl.is Fjórtán doktorsnemar hljóta styrki úr Háskólasjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fornleifar og skráning þeirra

Það er nú þannig að um allt land eru fornleifar og minjar, sumt þess vert að skoða nánar, skrá og jafnvel varðveita. Það er allt saman hið besta mál því það er skylda okkar að umgangast sögu okkar af skynsemi og virðingu. Það hjálpar okkur til að skilja hver við erum og hvar uppruni okkar liggur.

Það sem er hins vegar ljóður á núverandi skipulagi málanna er kostnaðurinn sem er í þessu og er mikið til velt á sveitarfélög, sem hafa nú nóg fyrir. Það getur hlaupið á miljónum, jafnvel tugum miljóna fyrir sveitarfélag að skrá fornleifar í því. Dæmi eru til um að komið hafi verið niður á fornleifar við framkvæmdir og þá hafi snarlega verið mokað aftur yfir til að þurfa ekki að bera kostnaðinn af öllu umstanginu. Það sýnir okkur að núverandi skipulag nær ekki að uppfylla það sem við viljum.

Mér finnst eðlilegt að kostnaður við skráningu og umsýslu fornleifa sé hjá Fornleifastofnun Íslands sem og ábyrgð þess að skráning fornleifa fari fram í landinu. Ef menn ætla að hafa þessi mál í góðu horfi þá þarf þetta til.


mbl.is Ætla má að um 20% af fornleifum í landinu hafi verið skráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styrkjum varið vel

Úthlutun þessara styrkja er til eftirbreytni. Það eina sem maður hefði viljað sjá öðruvísi er að þeir hefðu verið hærri hver og einn. Við Íslendingar erum svona frekar vanþróuð þjóð hvað varðar styrkjakerfi til náms, þó hefur þátttaka okkarí Evrópusamstarfi heldur komið okkur fram veginn hvað það varðar. Þar erum við frekar þyggjendur en gefendur ef eitthvað er reyndar.

Það er gott og blessað að styrkja þá sem standa sig vel á einkunnaskalanum en að mínu viti má einnig gera mun betur í þessum efnum við þá einstaklinga sem höllum fæti standa fjárhagslega en sýna baráttu til náms.

Vel gert, en meira svona lagað og hærri upphæðir í hvern styrk.


mbl.is Verkakonur, einstæðar mæður og ungmenni af erlendum uppruna hljóta hvatingarstyrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Netlöggan og fleira hjá VG

Ekki ætla ég mér að setja hér neitt fram varðandi þær ályktanir, sem voru samþykktar á landsfundi VG um helgina, sem og orð Steingríms J. í Egilssilfrinu í framhaldi þess. Þetta hefur allt saman fengið ákaflega mikla umfjöllun hér á blogginu og sjálfsagt víðar. Ég ætla hins vegar að reyna að lesa í áhrif alls þessa og kannski hvert framhaldið verður í framhaldinu.

Eftir að hafa farið víða um bloggið seinustu daga og séð heilmikið af þessari umfjöllun dettur mér í hug gömul saga síðan á níunda áratugnum og er annað hvort úr kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar ´83 eða ´87 (´87 held ég, fletti því upp seinna og set í athugasemdir). Söguna er að hafa frá Steingrími Hermannssyni fyrrverandi forsætisráðherra og er af Sighvati Björgvinssyni við annan mann. Þeir halda í kosningaferðalag um gamla Vestfjarðakjördæmi og hefja leikinn á bæ einum og stansa lengi og rökræða við bónda sem hafði ákaflega gaman af. Bær þessi var svo þegar upp var staðið ekki einu sinni í kjördæminu heldur byrjaði það ekki fyrr en á næsta bæ. Steingrímur sagðist iðulega hafa sagt þessa sögu á kosningafundum í framhaldinu og Sighvatur hefði alltaf eytt miklum tíma í að útskýra málin.

Mér þykir þessi VG umræða svipa til þessa. Ákveðnir hlutir voru settir fram og sagðir og það verður að segjast eins og er að þeir voru nú til þess fallnir að vera teknir fyrir og slegið fram á þann hátt sem gert hefur verið af mörgum andstæðingum VG. Þá logar allt af hálfu VG liða (næstum eins og rauðliðiWink) og ákaflega mikið púður fer í að útskýra hvað átt var við og hvernig hlutirnir eigi að virka. Mikið er skrifað um málin og maður les frekar mikinn pirring út úr hlutunum víða, ekki alls staðar, en víða. Í því sambandi bendi ég til dæmis á þetta.

Þegar svo upp er staðið þá er skaðinn orðinn að veruleika við þetta í heild sinni. Andstæðingum VG hefur tekist að búa til andrúmsloft þar sem VG þurfti að spila vörn, alvöru vörn, í fyrsta sinn næstum því í sögu flokksins. Og það munar um það. Ég held að kjósendur, sem voru á báðum áttum og voru virkilega óákveðnir fyrir komandi kosningar, hafi við allt þetta fár snúist upp í það að VG sé ekki kostur fyrir þá.

Ég held það.


Fáum smá líf í hlutina!

Það á aldeilis að hleypa lífi í hlutina. Ætli áhorfið og áhuginn á þessu öllu saman hafi farið eitthvað niður undanfarið og eigi að "poppa" þetta aðeins upp.

Bráðsniðugt, þó það sé það í raun ekki.


mbl.is Davíð Oddsson kann að verða kallaður til vitnis í Baugsmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að setja markmiðin ....

Og þá er bara eftir að finna leiðir til að ná markmiðunum. Þetta er svipað og í þjálfun íþrótta. Fyrrst þarf að setja sér raunhæf en metnaðarfull markmið og síðan er að finna og útfæra leiðir til að ná þessum sömu markmiðum. Þá geta komið til greina að fara ýmsar leiðir að sama markmiðinu og einnig gildir það að eftir því sem staðan er betri þá skipta smávægilegu hlutirnir meira máli þegar upp er staðið.

Markmiðin og stefnumörkunin til framtíðar varðandi losun gróðurhúsalofttegundir eru nýverið sett og virðast vera skýr. Ég á þó eftir að kynna mér það nákvæmar en ég hef haft tíma til, verð ég að játa. Einnig er búið að leggja grunndrög að því hvaða leiðir á að fara að til að ná þessum markmiðum og er það vel.

Það er ánægjulegt að heyra Stavros Dimas lýsa ánægju með nýja stefnu Íslands í loftlagsmálum og framkvæmd Kyoto bókunarinnar sem og að hann leggi áherslu á frumkvæði Íslendinga varðandi nýtingu jarðhita og vilja til að sú tækniþekking sem þar liggi að baki verði nýtt á heimsmælikvarða.

Það sem er framundan í þessum efnum er að leggja meiri kraft og metnað í að útfæra leiðirnar að markmiðunum og ná þannig viðunandi árangri í þessum efnum. Þar verða allir að leggjast á eitt, stjórnvöld, bæði ríkisvald og sveitarfélög, almenningur og vinnumarkaðurinn, þ.e.a.s. fyrirtækin í landinu. Tæknileg geta, kunnátta og þróun er lykillinn að því að við náum markmiðunum og þar getum við Íslendingar og eigum að vera í fararbroddi.


mbl.is Umhverfisráðherra ESB ánægður með árangur Íslands í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband