Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eru þeir undrandi greyin?

Það getur vel verið að Sjálfstæðismenn séu hálfundrandi á því að það sé gengið á eftir því við þá að þeir uppfylli stjórnarsáttmálann, ég ætla ekkert að rengja það. Þeim er einnig alveg fyllilega frjálst að hafa smá kurr í sínum hópi út í Magnús félagsmálaráðherra vegna hækkunar lánshlutfalls hjá Íbúðalánasjóðs. Ég græt það ekkert, sú aðgerð var í samræmi við téðan stjórnarsáttmála. Tímasetning umtals um stjórnarskrárbindingu aðlindaákvæðisins er eðlileg miðað við hvernig málið hefur unnist í stjórnarskrárnefnd, flóknara er það nú ekki. Síðan ræða Framsóknarmenn þetta á sínu flokksþingi, sem líka er í hæsta mála eðlilegt og þá segja menn hvað þeim finnst um málið. Nú er komið að því hjá Sjálfstæðisflokknum að standa við stjórnarsáttmálann, einfalt.

Svo mega þeir hoppa og húrra og kurra að vild ...... og standa við sitt.

Það held ég.


mbl.is Núningur og kurr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefandi hópastarf

Nú hefur maður lokið hópavinnu á flokksþinginu eftir langa og stranga vinnu. Eins og venjulega átti ég ákaflega erfitt með að velja mig inn í hóp þar sem ég hef auðvitað áhuga á öllu og skoðanir á öllu mögulegu. En það er önnur saga svo sem.

Ég valdi mér að starfa í hóp, sem fjallaði um utanríkis- og umhverfismál. Kom sjálfum mér auðvitað svolítið á óvart með þessu vali og að hafa ekki valið mér hóp atvinnu-,mennta- og byggðamála. Ekki það að bekkurinn þar var ágætlega skipaður þó ég væri ekki til staðar.

Þetta er eitt það skemmtilegasta við þátttöku í pólitísku starfi að því að mér finnst. Að sitja og fara yfir sviðið, hlusta á hugmyndir annarra um leiðir og útfærslur hluta. Rökræða og setja fram sínar skoðanir og allt saman á jafnréttisgrundvelli. Ákaflega gefandi og skemmtilegt og ég ætla að leyfa mér að halda því fram að mörgum hljóti að finnast það sama, hvaða flokki sem þeir eru í.

Við gáfum okkur góðan tíma til umfjöllunar þessara mála, eins og vera ber og leystum úr læðingi afurð í formi góðra ályktana, sem nú fá umfjöllun flokksþingsins í heild sinni. Margt áhugavert var til umfjöllunar eins og gefur að skilja en ég mun á næstunni tína hér inn í rólegheitunum svona helstu ályktanirnar að mínu mati.

Það held ég.

 


Ég hef bara alveg sloppið!

Ég er bara ekki búinn að fá að heyra neinn Ragga Bjarna brandara í dag, hverju ætli það sæti eiginlega? Ég ætti kannski að lauma mér með þeim í sönginn.
mbl.is „Ekkert nema músík og gleði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofnotkun orðatiltækis

Ég er aðeins búinn að vera að brimbretta (e. surf) netið núna seinasta hálftímann eða svo og ég er eiginlega kominn með nóg af frasanum "korteri fyrir kosningar", ég verð að segja það. Ég hélt að Spaugstofan hefði algjörlega tekið fyrir þetta með sínu innskoti varðandi frasana um daginn.  Ég fer þess vinsamlegast á leit við netverja að þeir sýni aukna hugmyndaauðgi og geti af sér annars lags orðalag vilji þeir skrýða pistla sína með þeirri hugsun, sem þeir vilja koma á framfæri með notkun þess. Meir að segja Ómar notar þetta, svei mér þá. Eins og við vitum öll þá á íslenskan orð yfir allt sem í heiminum er hugsað og oftar en ekki fleiri en eitt og fleiri en tvö.

En umfram allt skulum við brosa, ég held það.


Stjórnarsamstarfið, Siv og hótanir

Það verður að teljast ein af aðalfréttum flokksþingsins í dag hversu harðorð Siv Friðleifsdóttir var í garð samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Siv flutti stutta tölu í almennum umræðum skömmu fyrir kaffi og setti í henni fram þá skoðun sína að stífni Sjálfstæðisflokksins varðandi stjórnarskrárbindingu auðlindaákvæðisins svokallaða, væri svik við stjórnarsáttmála flokkanna. Einhverjir hafa túlkað orð Sivar á þann veg að um hótun í garð samstarfsflokksins hafi verið að ræða og þá á þann hátt að ef ekki yrði staðið við stjórnarsáttmálann þá yrði ríkisstjórnarsamstarfinu slitið af hálfu Framsóknarflokksins. Fréttamenn hafa túlkað þetta sem hótun líkt og má sjá hér.

Ég ætla ekki að fara að hártoga hvernig beri að túlka ummæli Sivar en það er alveg ljóst að það er vilji flokksþingsfulltrúa að staðið verði við stjórnarsáttmálann og því fékk Siv góðan hljómgrunn fyrir máli sínu. Þetta er mál sem á að leiða til lykta í samræmi við títtnefndan stjórnarsáttmála og þetta er ekkert smámál að mati þorra fulltrúanna heldur er þetta mál þannig vaxið að margir geta vel hugsað sér að því verði haldið þannig að af verði stjórnarslit ef ekki úr rætist. Það er mál manna nú, að þó samstarfið hafi gengið vel og ágreiningsmál verið leyst innan dyra, þá sé ekki hægt að svæfa þetta og leyfa Sjálfstæðisflokknum að fara sinn veg í því.

Þá hafa fleiri mál verið nefnd til sögunnar í framhaldi stjórnarskrármálsins og jafnvel orðinu svikum af hálfu samstarfsflokksins hafa verið bætt í þá umræðu af nokkrum þingfulltrúum. Þar ætla ég til dæmis að nefna þjóðlendumálið.

Og það er hugur í mönnum, góð málefnavinna og menn algjörlega tilbúinir á kosningabaráttu komandi vikna. Ég skemmti mér stórvel að minnsta kosti.

Það held ég.


Virkt samkeppniseftirlit

Þetta líkar mér. Samkeppniseftirlitið virkt núna með Pál í fararbroddi. Það þarf að efla samkeppniseftirlitið þannig að það geti sinnt eftirlitsskyldu sinni eins og vera ber. Látum okkur að kenningu verða hvernig olíusamráðsmálin eru að velkjast um núna og enginn þarf að standa á bak við neitt.

Það held ég.


mbl.is Hefðbundið eftirlit segir forstjóri Samkeppniseftirlitsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öflugur Jón

Ég hvet alla til að lesa og kynna sér vel ræðu  Jóns, sem hann flutti á flokksþinginu nú fyrr í dag. Jón kemur inn á mjög svo umdeilt mál innan flokksins, sem Evrópumálin eru. Hann tekur skýrt á þeim málum og leggur þannig út frá þeim að ekki er hægt að fara í neinar grafgötur með þau mál. Það er ekki á stefnuskrá Framsóknarflokksins að ganga í Evrópusambandið á þessum tímapunkti. En Framsóknarflokkurinn telur það vera nauðsynlegt, hreint og beint skylda, að safna gögnum og upplýsingum þannig að ákvarðanataka um þetta mál í framtíðinni sé tekin á sem traustustum grunni. Þetta er málið í hnotskurn.

Jón kemur inn á marga þætti samfélagsins og stjórnmálanna í ræðu sinni og ætla ég ekki að hafa um ræðu hans mörg orð. Ég vil þó sérstaklega benda á þá aðgreiningu, sem Jón leggur fram. Að Framsóknarflokkurinn er afl sem stendur á sínum málum og sinni stefnu en ber það ekki á torg þó átök eigi sér stað. Þetta á auðvitað um ríkisstjórnarsamstarfið, það er ekki verið að hlaupa upp til handa og fóta þó ekki sé sátt á milli flokkanna heldur er reynt að leysa málin utan hringiðju fjölmiðlanna. Samt sem áður verðum við að gera okkur greinileg frá öðrum öflum í hinu pólitíska landslagi og umróti, sem nú á sér stað á leiksviði íslenskra stjórnmála.

Ég kann vel við þær áherslur, sem Jón lagði upp með í dag. Þetta er öflugt.

Það held ég.


mbl.is Jón Sigurðsson: eigum að taka ákvarðanir varðandi ESB aðild á eigin forsendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hinsta kveðja

Ég og við hjón, minnumst Péturs sem mikils manns og góðs. Hann skýrði báðar dætur okkar og gifti okkur síðastliðið sumar í fyllstu einlægni. Sú kynni voru einstaklega ánægjuleg og gefandi þar sem farið var yfir leiksvið lífsins, hann með sitt og ég með mitt sem hjóm eitt þar miðað við.

Hér er gegnið mikilmenni, blessuð sé minning hans.

Við Anita vottum Ingu og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur. 


mbl.is Andlát: Pétur Þórarinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súlan aftur austur

Nú eiga eftir að verða tár hjá henni Salbjörgu minni. Það hefur verið fastur liður undanfarin misseri eða a.m.k. mánuði hjá henni að kveðja Súluna og veifa henni þegar við höfum verið að yfirgefa Akureyri á leið austur fyrir Vaðlaheiðina. Súlan hefur nefnilega legið lengi við bryggju beint fyrir framan gatnamótin neðan við Gilið. Hún kemur til með að sakna hennar sárlega og við Anita þurfum örugglega að svara ótalspurningum varðandi brotthvarf hennar næstu mánuðina í það minnsta.

Ég hugsa að ég sakni hennar hreinlega líka, mér hefur alltaf líkað vel við Súluna. Átti á sínum tíma skátengsl við hana ef svo mætti að orði komast.


mbl.is Súlan aftur til Síldarvinnslunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í dag

Jæja, nú er maður orðinn sjónvarpsstjarna. Haldið þið ekki að ég hafi lent í viðtali hjá þættinum Ísland í dag hjá NFS eða Stöð 2 eða 365 (hreinlega veit ekki hvað ég á að segja um það) núna rétt áðan. Umfjöllunarefnið var auðvitað flokksþing okkar og auðvitað þurfti að spyrja mig um eina af þeim tillögum sem ég átti eftir að grandskoða og mynda mér endanlega skoðun. Frábært. En endilega reynið að sjá þetta og segið hvað ykkur finnst. Það merkilega í þessu finnst mér svo auðvitað vera að ég næ ekki útsendingum Stöðvar 2 sjálfur, kom því þó ekki inn í viðtalið heldur sagði það við Þóru eftir á. Annars hljóta þau að klippa þetta ákaflega vel til því ég malaði eins og köttur út í það óendanlega. Kemur á óvart? Hjá sumum að minnsta kosti.

Það held ég.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband