Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Úrvinnslugjald

Sú meginregla sem úrvinnslugjaldið byggir á, "sá sem mengar borgar", er grundvöllur fyrir átaki í því að ná inn þessum vörum til endurnýtingar og endurvinnslu. Það situr því í manni svolítið ósætti eða svekkelsi yfir því að úrvinnslugjaldið sé lækkað á sumum vöruflokkum vegna þess að söfnun hafi farið hægar af stað en áætlað var.

Við verðum að fara að taka okkur á í þessum efnum. Við verðum að fara að flokka sorpið meira en við gerum og vanda okkur mun meira í meðhöndlun okkar á því rusli sem fer í gegnum íslenskt þjóðfélag. Við erum miklir eftirbátar nágrannaþjóða okkar í þessum efnum en ættum að vera í fararbroddi ef vel væri.

Vandamálið í þessu held ég að sé hversu dreifbýlt Ísland er og þar af leiðandi hvað sorpið hefur í raun ekki "verið fyrir" okkur eins og menn hafa áttað sig mun fyrr á erlendis þar sem pláss er minna. Ég tel að úrvinnslugjald ætti að útbreiða enn frekar en nú er og bendi sérstaklega á úrvinnslugjald á blaða og prentpappír.

Úrvinnslugjaldið er hagrænn hvati til þess að á þessum málum sé tekið.


mbl.is Úrvinnslugjald lækkaði um mánaðamótin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmis málefni rædd

Eftir atburði helgarinnar hafa þeir reynt að lægja öldurnar þeir Jón og Geir þannig að það kemur ekkert á óvart að þeir fari varlega í einhverjar yfirlýsingar í kjölfar þessa fundar. Reyndar hefur Geir lítið sem ekkert tjáð sig um þetta frekar en venjulega. Hann hefur þó ekki verið týndari en það að þeir náðu að funda í morgun.

Það sem eftir stendur í framhaldi fundarins að ekki er fengin niðurstaða í auðlindamálið og svo þykir mér það víst að þeir hafi jafnvel eytt meiri tíma í að ræða þjóðlendumálið heldur en auðlindamálið. Þó svo að fundurinn hafi verið löngu skipulagður tel ég öruggt að þessi tvö mál hafi fengið mestan þeirra tíma. Þau þarf að setja niður þannig að hægt sé að halda áfram.


mbl.is Formenn stjórnarflokkanna ræddu ýmis málefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir standa sig ekki í lækkunum?

Ánægjulegt er að sjá hvernig almenningur hefur brugðist við þeim aðstæðum sem lækkun matarverðs nú um mánaðamótin hefur í för með sér. Það virðist sem hinn almenni neytandi sé loksins að taka við sér í þessum efnum en manni hefur nú stundum virst ýmislegt hafa gengið yfir landann án þess að heyrst hafi hósti eða stuna. Það er vonandi að þetta virka eftirlit sé komið til að vera.

Ég tel þessa lækkun vera hið besta mál, sem og allir sem maður talar við um þetta. Það sem upp úr stendur reyndar varðandi útfærsluna er að fólki finnst ekki hafa verið auglýst nægilega vel eða nægilega áberandi hvaða vörur eigi að lækka í verði og þá hver væntanleg lækkun ætti að geta orðið. Besta opinbera umfjöllunin á um þetta sem ég hef séð er í héraðsfréttablaðinu Feyki, sem gefið er út á Sauðárkróki. Getur verið að annað hafi farið fram hjá mér en mér finnst að þessar upplýsingar eigi að koma til mín sem neytanda en ekki að ég þurfi að leita þær uppi sérstaklega. Ég held að margir fleiri séu mér sammála í þessum efnum.

Þessi almenna eftirfylgni með lækkuninni, sem birtist í formi tilkynninga og kvartana frá neytendum til Neytendastofu setur þrýsting á fyrirtæki og þjónustuaðila um að þessir aðilar standi sig og hirði ekki sjálf þá verðlækkun sem um er ræða.

Það er vel.


mbl.is Hafa ekki orðið við tilmælum um að lækka verð á skólamáltíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Könnun Bændasamtakanna

Það kemur mér ekki á óvart að sjá niðurstöður helstu spurninga í þessari könnun. Íslenskar landbúnaðarvörur eru að mínu mati, sem og meirihluta þjóðarinnar, betri að gæðum en erlendar landbúnaðarvörur.

Að mínu mati er grundvallarspurningin í þessari könnun sú hvort landsmenn vilji sjá stundaðan landbúnað á Íslandi í framtíðinni. Svarið við henni er gríðarlega jákvætt, kannski jákvæðara en maður átti von á. Þetta er grunnurinn sem á síðan að byggja á, hvaða leiðir á að fara til að tryggja að landbúnaður verði stundaður hér á landi í framtíðinni.

Íslenskir bændur hafa alla tíð hugað að landi og þjóð í sínu starfi og framleitt gæðavöru. Bændastéttin hefur síðustu áratugi líklegast tekið á sig einna mestu kjaraskerðingu af öllum stéttum landsins og því er allt tal um stöðvun stuðnings landbúnaðinum til handa á ákaflega veikum grunni byggt.

Það er hagur íslensks samfélags að búskapur sé stundaður á Íslandi, hvernig sem á það mál er litið.


mbl.is Íslendingar telja íslenskar landbúnaðarvörur betri en erlendar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn heim í heiðardalinn

Jæja, þá er maður kominn heim að lokinni þriggja sólarhringa dvöl í "Borg óttans". Ferðin byrjaði reyndar ekki sérstaklega vel. Fór inn á Akureyri á fimmtudaginn og átti flug um hálf þrjú suður. Reyndar ætlaði nú öll fjölskyldan að fara suður og þá keyrandi en sökum veikinda stelpnanna var ákveðið að frúin yrði heima við yfir helgina og væri með stelpurnar á sinni könnu en ég skryppi einn til borgarinnar í suðri.

Allt var eðlilegt í byrjun en þegar flugvélin var ræst gaf rafkerfið sig og allt var dautt. Eftir smá bið og aðra tilraun kom í ljós að bíða þyrfti eftir annarri vél að sunnan. Takk fyrir, rúmlega þriggja tíma bið. Eyddi henni á vellinum með tveimur fyrrverandi nemendum mínum og skemmtum við okkur stórvel. Sagði ég þeim til dæmis margar sögur af gömlu Laugamafíunni, sem höfðu ákaflega gott skemmtanagildi. Þessi bið slapp því fyrir horn. Svo þegar loksins var lagt af stað kom í ljós að unga konan, sem var sessunautur minn í fluginu var haldin flughræðslu, ekki gaman fyrir hana að lenda þá í þessu með bilunina í byrjun ferðar. Hún átti alla mína samúð, ég prísa mig sæla með að vera ekki flughræddur þó ekki fljúgi ég oft. Annars áttum við gott samtal á leiðinni og var hún hin skemmtilegasti ferðafélagi.

Þegar á Reykjavíkurvöll var komið þurfti ég auðvitað að bíða heillengi eftir Villa, held að hann hafi gleymt mér. Það var frekar leiðinglegra að bíða þar en á Akureyri en á endanum kom hann og við skruppum og fengum okkur að borða. Villi borðar nefnilega á korters fresti og best að trufla það ekki, þá verður hann eins og apar á sýru. Fórum og borðuðum í kringlunni og hittum auðvitað landsbyggðarfólk þar, illa tvíburann hana Heiðu og Bakkafjarðarsysturnar Sigrúnu og Siggu. Gaman að því.

Síðan hélt ég í hreiður Vinstri Grænna á Hjarðarhaganum og gisti í mínu 1,5m2 herbergi sem þeir félagarnir úthlutuðu mér í góðmennsku sinni. Varð fyrir stöðugu áreiti meðan á dvöl minni stóð þar en ég hef svo sem séð það svartara og þetta var eins og að skvetta vatni á gæs hjá þeim.

Nóg komið að sinni, seinni hluti ferðasögunnar seinna og síðan auðvitað kemur fljótlega þriðji partur skýsins.

Það held ég.


Ekki er ráð nema í tíma sé tekið

Þetta hefur tekið tímann sinn að komast á koppinn svo ekki sé meira sagt og er reyndar ekki fram á sjónarsviðið skriðið enn.

Ég heyrði ekki betur en Ómar vænti hálfgerðrar breiðfylkingar frá Frjálslynda flokknum í sjónvarpsfréttunum á RÚV í kvöld. Síðan á að hirða þessa "hægri grænu" af sjálfstæðisflokknum en ekki taka neitt frá Vinstri Grænum, því þeir eru svo heilir í sinni meiningu. Já já, allt í lagi Ómar, þeir eru alveg heilir á sínu.

Þrátt fyrir þessi orð held ég að framboð Ómars, Margrétar og Jakobs Frímanns taki helst frá Frjálslynda flokknum, eins og Ómar segir þó svo að ég búist ekki við að um einhverja breiðfylkingu sé að ræða þar. Í framhaldi af því tel ég svo að eitthvað taki þeir frá Sjálfstæðisflokknum þó svo að það verði minna en margur heldur, kannski helst í Skagafirði? Ég sá ekki betur en það glitti í Baltasar Kormák þarna á meðal manna á bakvið Ómar. Og síðast og ekki síst, held ég að það flísist svolítið frá VG yfir á þetta nýja framboð vegna nýjustu stefnumörkunar á þeim bænum. Og svo gleymdi maður að minnast á það fylgi, sem fer frá Samfylkingunni til þeirra. Biðst afsökunar á því, það verður eitthvað en minna en margur hyggur að mínu mati. Þetta var ekki viljandi, maður er eiginlega farinn að gleyma Sf. þessa dagana.

Hið pólitíska landslag er að verða bara nokkuð fjölbreytilegt þó svo að það gefi nú ekki endilega miklar væntingar um leiksviðið eftir 12. maí í vor.


mbl.is Margrét, Ómar og Jakob Frímann saman í framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afsagnaróskir Sigurðar Kára

Það er alveg til fyrirmyndar hjá honum Sigurði Kára að telja þann kost vænstan að Siv segi af sér vegna ummæla henna á flokksþinginu um helgina. Alveg afbragð ef ekki má leyfa sér að flytja svona kjarnyrt innlegg á þeim vettvangi, eða ef út í það er farið opinberum vettvangi.

Ég held að það væri fínt ef Sigurður Kári sæi sér fært að setja saman svona leiðbeiningar (e. gidelines) varðandi atriði sem ættu að vera þess valdandi að fólk, sem gegnir opinberum ábyrgðarstöðum, segi af sér embætti. Þær reglur ættu þá auðvitað að ná yfir þingmennina því það eru opinberar ábyrgðarstöður held ég. Ætli hann myndi setja eitthvað inn sem næði yfir hans óhöpp í byrjun kjörtímabils?

Eða kannski hann bara fái sér vatnsglas, telji rólega upp í tíu og reyni svo að hugsa skýrt, svona til gamans.

Ég held það.


mbl.is Sigurður Kári telur að Siv eigi að segja af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðlendumálin

Það er ljóst að áherslubreyting á kröfulýsingum í þjóðlendumálum hefur að einhverju leyti orðið. Fjármálaráðherra hefur seylst mun lengra í þeim kröfulýsingum heldur en til stóð þegar lögin um þjóðlendur voru sett á Alþingi á sínum tíma og keyrði eiginlega um þverbak við kröfugerð á síðasta svæðinu. Það er ljóst, í huga langflestra Framsóknarmanna, að flokkurinn verður að grípa inn í þetta ferli og leysa það á farsælan hátt fyrir kosningar nú í vor.  

Afstaða Framsóknarflokksins er ákaflega skýr varðandi þessi mál nú í framhaldinu og ef ekki næst stefnubreyting í þessum efnum án breytingu núverandi laga um þjóðlendur verður þeim breytt. Hlutirnir eru nú ekki flóknari en það.

Ég held það. 


mbl.is Þjóðlendumál ofarlega í huga framsóknarmanna á flokksþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tunglið, tunglið taktu mig

Það er alltaf jafn áhugavert að skoða himintunglin, hvort heldur sem er í bókum eða beint upp í loftið, ef maður má orða það svo. Ég hef alltaf haft gaman af því að spá í og lesa um himingeiminn og skoða stjörnur og stjörnumerki.

Atvik eins og þessi tunglmyrkvi nú í kvöld er því sérlega áhugaverður en það neikvæða við þetta allt saman er auðvitað að það verður að teljast ákaflega ólíklegt að maður nái að sjá tunglmyrkvann vegna veðurs en samkvæmt blogsíðu esv verður alskýjað yfir öllu landinu í kvöld.

Frekar svekkjandi.


mbl.is Almyrkvi á tungli í kvöld; sá fyrsti í þrjú ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt

Ein þeirra tillagna, sem lá fyrir flokksþingi Framsóknarflokksins og hafði vakið þónokkra eftirtekt fyrirfram, var ályktun um nýja kosningalöggjöf.

Tillagan sem slík bar með sér gjörbreytingu á núverandi kosningalöggjöf. Helst ber þar að nefna að samkvæmt henni ætti að snúa aftur, að stórum hlluta, til fyrirkomulags sem var við lýði hér á landi á fyrrihluta síðustu aldar. Þar var um að ræða að annars vegar væru Alþingismenn kjörnir af landslista og hins vegar af kjördæmalistum. Megintilgangur tillögunar er að skapa meiri nálægð milli kjörinna fulltrúa og kjósenda og að tryggja samræmi milli kjörfylgis og fulltrúa á þingi.

Tillagan var rædd ítarlega og ýmsar skoðanir varðandi hana viðraðar en að lokum var ákveðið að vísa henni til frekari skoðunar í sérstakri nefnd. Sú nefnd væri að störfum nú í framhaldi flokksþingsins og því kæmi tillagan ekki til samþykktar nú. Þegar upp var staðið var ljóst að vegna þeirra miklu breytinga, sem tillagan felur í sér þarf að huga að frekari útfærslu hennar.

Það held ég.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband