Kominn heim í heiðardalinn

Jæja, þá er maður kominn heim að lokinni þriggja sólarhringa dvöl í "Borg óttans". Ferðin byrjaði reyndar ekki sérstaklega vel. Fór inn á Akureyri á fimmtudaginn og átti flug um hálf þrjú suður. Reyndar ætlaði nú öll fjölskyldan að fara suður og þá keyrandi en sökum veikinda stelpnanna var ákveðið að frúin yrði heima við yfir helgina og væri með stelpurnar á sinni könnu en ég skryppi einn til borgarinnar í suðri.

Allt var eðlilegt í byrjun en þegar flugvélin var ræst gaf rafkerfið sig og allt var dautt. Eftir smá bið og aðra tilraun kom í ljós að bíða þyrfti eftir annarri vél að sunnan. Takk fyrir, rúmlega þriggja tíma bið. Eyddi henni á vellinum með tveimur fyrrverandi nemendum mínum og skemmtum við okkur stórvel. Sagði ég þeim til dæmis margar sögur af gömlu Laugamafíunni, sem höfðu ákaflega gott skemmtanagildi. Þessi bið slapp því fyrir horn. Svo þegar loksins var lagt af stað kom í ljós að unga konan, sem var sessunautur minn í fluginu var haldin flughræðslu, ekki gaman fyrir hana að lenda þá í þessu með bilunina í byrjun ferðar. Hún átti alla mína samúð, ég prísa mig sæla með að vera ekki flughræddur þó ekki fljúgi ég oft. Annars áttum við gott samtal á leiðinni og var hún hin skemmtilegasti ferðafélagi.

Þegar á Reykjavíkurvöll var komið þurfti ég auðvitað að bíða heillengi eftir Villa, held að hann hafi gleymt mér. Það var frekar leiðinglegra að bíða þar en á Akureyri en á endanum kom hann og við skruppum og fengum okkur að borða. Villi borðar nefnilega á korters fresti og best að trufla það ekki, þá verður hann eins og apar á sýru. Fórum og borðuðum í kringlunni og hittum auðvitað landsbyggðarfólk þar, illa tvíburann hana Heiðu og Bakkafjarðarsysturnar Sigrúnu og Siggu. Gaman að því.

Síðan hélt ég í hreiður Vinstri Grænna á Hjarðarhaganum og gisti í mínu 1,5m2 herbergi sem þeir félagarnir úthlutuðu mér í góðmennsku sinni. Varð fyrir stöðugu áreiti meðan á dvöl minni stóð þar en ég hef svo sem séð það svartara og þetta var eins og að skvetta vatni á gæs hjá þeim.

Nóg komið að sinni, seinni hluti ferðasögunnar seinna og síðan auðvitað kemur fljótlega þriðji partur skýsins.

Það held ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Gott að þú komst þó alla leið á endanum minn kæri.  hehehe þeir hafa strítt þér þessir Vinstri grænir.  Maður eyðir ansi stórum hluta ævi sinnar í að bíða, og svo líka að sofa.  Hvað svo sem hinn tíminn fer í, eitthvað misgáfulegt auðvitað. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.3.2007 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband