Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.3.2007 | 20:19
Krappur dans
Nú fer hver að verða síðastur að setja málið úr skorðum. Helst er maður að merkja á forsætisráðherranum að honum líki frekar miður hvernig nú er komið hlutum og verið sé að flækjast með þetta núna. Það er nokkuð ljóst að þetta stendur töluvert í honum og þingflokki hans. Eftir því sem mér heyrðist og ef ég þekki Jón rétt þá verður ekki gefið mikið eftir í þessu. Ég tel það vera öruggt og því verður gaman að sjá hvernig hlutirnir þróast næsta sólarhringinn eða svo.
Áhersla okkar er ljós og samstarfsflokkurinn kemst ekki upp með að draga lappirnar og reyna að þreyja þetta af sér með því að draga á langinn.
Það held ég.
![]() |
Geir segir enga niðurstöðu komna í auðlindamálið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2007 | 15:08
Jafnrétti
Það er ekki annað að sjá en þarna sé um að ræða eitt skref í áttina til jafnréttis og virðist nefndin, sem skipuð var síðasta sumar hafa lagt fram ágætis tillögur. Svo sýnist mér eftir að hafa rennt hratt yfir efnið.
Það sem vekur sérstaka eftirtekt mína í fyrstu er að "Lagt er til að launamanni sé hvenær sem er heimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um laun eða önnur starfskjör sín". Ef mér skjátlast ekki er hér um að ræða nýja sýn á hlutina og tiltölulega breytingu frá því sem nú er. Væntanlega er þessu fyrst og fremst hugsað til að vinna á móti óútskýrðum launamun eða kynbundnum launamun. Fróðlegt verður að sjá þetta í framkvæmd.
Sem fyrr er auðvitað nauðsynlegt að jafnréttislögum sé síðan fylgt í reynd en séu ekki bara upp á punt.
![]() |
Lagafrumvarp nefndar um jafna stöðu og rétt kvenna og karla kynnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.3.2007 | 09:47
Aldrei í ESB?
Samhljómur Sjálfstæðiðsflokks og Vinstri Grænna í þessu máli hefur verið ljós í langan tíma og er því ekki fréttaefni í sjálfu sér. Sumir gætu að vísu haldið því fram að hér sé um upphitun fyrir komandi stjórnarsamstarf en ég ætla ekki að gera það. Það bíður síns tíma. Þetta einstaka mál er mun flóknara en að það fylgi flokkalínum. Evrópuaðild eða ekki er lína sem gengur þvert á alla flokka.
Það er hægt að fallast á að aðild að ESB sé ekki rétt á þessum tímapunkti né í allra nánustu framtíð en það sem er samt mikilvægara að vinna að því að upplýsingar sem aðild grundvallist af séu til staðar.
Mikið hefur verið rætt um Evrópumál innan Framsóknarflokksins undanfarin ár og mörg ár eru síðan flokkurinn setti á laggirnar nefnd til að fjalla um þau. Mikil vinna hefur átt sér stað innan þeirrar nefndar og þeirra sem störfuðu í framhaldinu. Flokksþingið um síðastliðna helgi ályktaði síðan í þá veru að áfram verði unnið að því að afla upplýsinga og meta auk þess að vinna að því að skýra línurnar í þessum efnum. Evrópusambandið er breytilegt og tekur miklum breytingum nú um stundir. Ég sé ekki að aðildarumsókn eigi að vera á dagskrá í dag eða næstu árin en það geta komið þeir tímar og sú staða að umsókn um aðild að ESB sé hagstæð fyrir Ísland og þá þurfa menn að hafa allar upplýsingar til reiðu og þannig getu til að bregðast hratt við.
![]() |
VG og Sjálfstæðisflokkur gegn ESB-aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2007 | 19:12
Er þörf fyrir þetta?
Kannski er þetta ekki eins galið og manni virðist það vera í fyrstu. Þetta hlýtur þá að vera ætlað fyrir börn erlendra starfsmanna, sem sjá fram á að vera tímabundið á Íslandi. Þar sem þetta er tengt sérstaklega við útrásarfyrirtækin sem eru þá komin í alþjóðlegt umhverfi þar sem starfsfólk fer á milli starfsstöðva í mismunandi löndum.
Er þá ekki ráð að útrásarfyrirtækin komi að stofnun þessarar menntastofnunar á einhvern hátt og veiti fjármagni til þess. Þetta væri jú þeim í hag að geta boðið upp á þetta umhverfi hér á landi.
Hver ætli þörfin sé annars eða er einhver þörf fyrir hendi?
![]() |
Hugmyndir um alþjóðlegan skóla á Íslandi þar sem námsefni yrði á ensku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2007 | 15:05
Efling starfsendurhæfingar
Meginþema skýrslunnar er áhersla á starfsendurhæfingu einstaklinga sem hafa orðið fyrir skerðingu. Nefndin leggur til grundvallarbreytingu á núverandi kerfi í rauninni, breytingu sem ég tel að sé til mikilla bóta. Það á að gefa fólki kost á því að taka þátt á vinnumarkaðnum eins og mögulegt er en síðan að brúa bilið með bótum. Tillögurnar ganga út á það að mér sýnist og á þann hátt einnig að tekjutenging verði algjörlega snúið við sem felst í því að meta starfsgetu í stað örorku.
Mér líst vel á tillögurnar við fyrstu sýn eftir að hafa hlaupið í gegnum skýrsluna en hún er sjálf ágætlega fram sett. Rík áhersla er lögð á endurhæfingu til að auka starfsgetu. Þetta er í þeim anda sem maður hefur hugsað sér.
![]() |
Örorkumat verður endurskoðað og starfsendurhæfing efld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2007 | 12:49
Davíðstaktar
Það lá við að maður sæi örla á Davíðstöktum hjá Geir í fjölmiðlaviðtalinu eftir ríkisstjórnarfundinn í morgun. Hann hljómaði óskaplega pirraður eitthvað hvort sem það var af því að honum fyndist þetta svona óskaplega ómerkilegt eða að þetta skyldi koma upp á annað borð.
Ég tók sérstaklega eftir því að honum varð tíðrætt um hvað hann hefði sjálfur mikla reynslu í stjórnarskrárnefndum, starfað í nokkrum og meir að segja verið varaformaður í svoleiðis nefnd. Þetta var svona "ég veit betur en allir aðrir" taktar og þar líktist hann forvera sínum nokkuð verð ég að segja.
Það virðist vera nokkuð breið sátt um málið og þá er um að gera að afgreiða það fyrst svo er en eins og Geir sagði er það betra þegar verið er að breyta stjórnarskránni. Svo var hann fúll og pirraður út í nokkra í samstarfsflokknum vegna ummæla sem honum fannst óheppileg. Gangi honum vel að vinna með Sf. þá eftir kosningar eins og virðist vera unnið að af sumum sjálfstæðismönnum.
![]() |
Áfram reynt að ná samkomulagi um auðlindamál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.3.2007 | 08:34
Konur að yfirgefa Samfylkinguna
Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að túlka beri skoðanakannanir með ákveðnum fyrirvara og er ennþá á þeirri skoðun. Þær eru ansi misjafnar að gerð og gæðum en Gallup og Félagsvísindastofnun Háskólans hafa gert þær kannanir sem maður hefur talið gefa bestu vísbendinguna vegna aðferðafræði sem þar er viðhöfð.
Ég hef sagt fyrr að seinasta könnun CG gefi sterka vísbendingu um raunstöðu fylgis flokkanna og því tel ég hana einnig gefa raunstöðu hvað þetta varðar.
Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir Samfylkinguna ef yfir 40% þeirra kvenna, sem kusu flokkinn í seinustu kosningum ætla ekki að gera það nú. Gríðarlegt áhyggjuefni og vonbrigði segir maður nú bara. En hvað er það sem veldur? Vilja konur sjá skýrari sýn og skarpari línur heldur en verið hefur að sjá hjá Samfylkingunni og að þær skörpu línur og skýra sýn sé til staðar í VG. Þá hljóta þetta að vera vonbrigði hjá formanni flokksins sem er þó upprunninn í Kvennalistanum og ætti því að höfða til kvenna. Ég er þó sjálfur á því að menn verði að leita víðar fanga í þessum efnum, þetta er ekki engöngu á ábyrgð formannsins heldur eru fleiri þættir viðameiri í þessum efnum að mínu mati.
![]() |
Konur í Samfylkingu og Framsókn á leið til vinstri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2007 | 22:27
Forsætisráðherraefni í felum
Það vekur sérstaka eftirtekt mína við þetta útspil stjórnarandstöðunnar er að þarna voru mættir tveir flokksformenn á blaðamannafund og með þeim einn þingflokksformaður. Hvar var Ingibjörg Sólrún? Á að hafa hana í felum fram að kosningum núna svo hún hrelli ekki fleiri kjósendur frá Samfylkingunni.
Það á kannski bara að nota sömu aðferðafræði og fyrir seinustu kosningar þegar Össur hafði ekki þrek í að bera sjálfan sig á torg sem forsætisráðherraefni heldur þurfti að hafa eitt slíkt í lestinni til að vísa til. Best að hafa hana þar sem hún segir sem minnst og veldur sem minnstum usla og þá verður skaðinn í lágmarki.
Annars þykist ég vita að Össur hafi lítið annað haft fram að færa í stjórnarskrárnefdinni annað en misvísun, eitt á fundum og síðan annað út á við.´
Össur er kannski að klikkja á því að samstarf takist milli Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins eftir kosningar og sé þá búinn að gera upp við sig að öfga sósíalistaflokkurinn og innflytjendaflokkurin falli ekki að hans hugmyndum um ríkisstjórn. Í þeirri ríkisstjórn yrði sjálfsagt ISG forsætisráðherra. Þetta er því kjörin leið fyrir Össur að hefna til fulls tapinu fyrir henni í formannskjörinu.
![]() |
Stjórnarandstaðan býðst til að styðja stjórnarskrárbreytingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2007 | 19:56
Afsláttur í strætó
Næst seinasti punkturinn í þessu er nú einna athyglisverðastur en þar segir "Kannað verði með Strætó bs . hvort unnt sé að vera með tilboð eða sérstök afsláttarverð í strætisvögnum þegar mengunarútlit er slæmt". Er ekki bara um að gera að hafa alltaf frítt í strætó? Gera almenningssamgöngur að raunhæfum kost í umferðarmenningunni? Ég tel að það væri mun betra en tímabundin fargjaldalækkun þegar útlit er fyrir svifryksmengun nálægt eða yfir viðmiðunarmörkum. Þannig er kannski hægt að minnka svifryksmengunina eitthvað.
![]() |
Kannað hvort taka eigi gjald fyrir notkun á nagladekkjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.3.2007 | 19:47
Kristinn hefur áhrif
Það virðist svo vera að koma Kristins H. til Frjálslynda flokksins sé þegar farin að hafa fráhrindandi áhrif. Hægt var að lesa á textavarpinu áðan að Karen Jónsdóttir, formaður bæjarráðs á Akranesi hafi sagt sig úr Frjálslynda flokknum vegna röðunar Kristins í 2. sæti á framboðslista vegna Alþingiskosninganna í vor.
Að vísu segir Karen að þetta hafi ekki áhrif á meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Frjálslyndra í bæjarstjórninni því hún hafi verið óháð þegar hún var kosin inn og sé því komin í sömu stöðu aftur nú.
Mér þykja þetta vera tíðindi, það verður að segjast eins og er. Ég hef skrifað um það áður hér vefnum mínum að ég teldi að margir myndu ekki kjósa hann vegna flokkavals síns nú um stundir en ég játa það fúslega að ég átti ekki von á því að það yrðu úrsagnir úr Frjálslynda flokknum við komu hans þangað. Ætli megi búast við fleiri slíkum úrsögnum á næstunni? Er þetta kannski vegna þess að Karen hafi sjálf viljað sæti Kristins? Ætli hún sé á leið í framboð fyrir Margréti Sverris.?
Þessu fylgja ýmsar spurningar, við skulum sjá hvað setur.