Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Smá innlegg í lyfjaverðsumræðuna

Þónokkur umræða hefur átt sér stað undanfarið varðandi lyfjaverð á Íslandi og reynt hefur verið af veikum mætti að útskýra verð lyfja hér á landi samanborið við nágrannalönd okkar. Ég ætla að koma hérna með eitt dæmi um lyfjaverð þar sem um er að ræða sama lyf og sama magn þess, keypt hjá sama apóteki með rúmlega mánaðar millibili.

 

Heildarverð lyfs - 8498 í fyrra skiptið en 77396 í seinna skiptið

Hluti tryggina - 3548 í fyrra skiptið en 67496 í seinna skiptið

Hluti sjúklings - 4950 í fyrra skiptið en 9900 í seinna skiptið

Hluti sjúklings - 3856 í fyrra skiptið (eftir 22,1% afslátt) en 2761 í seinna skiptið (eftir 72,1% afslátt)

 

Ég get í þessu dæmi alls ekki séð að íslenskar leiðbeiningar um notkun lyfsins og aukaverkanir þess hafi nokkur áhrif á verð lyfsins. Hreint og beint alls ekki. Þaðan af síður get ég séð að smæð markaðarins hafi nokkuð með verðframsetningu eða samsetningu verðsins. Hreint og beint alls ekki.

Það sem ég sé í þessu dæmi er sjálftaka lyfsöluaðila á fjármagni skattborgaranna í gegnum tryggingakerfið þar sem gríðarleg hækkun grunnverðs á sér stað á stuttum tíma og lítið sem ekkert eftirlit er á því. Tryggingar greiða nefnilega hlutfall grunnverðs eins og það er í upphafi og takið eftir því að sjúklingur greiðir minna í seinna skiptið því þá er búið að mjólka svo mikið úr tryggingum að ekki þarf eins að þjarma að honum.

Ég sé siðleysi og ruddakap í þessu dæmi og ætla að leggja það fram sem skýringu á háu lyfjaverði á Íslandi í dag (sem og undanfarin ár).

Það held ég.


Eitt stykki leikskóla takk

Svo lengi lærir sem lifir. Ég vissi ekki að það væri hægt að kaupa leikskóla en það er kannski málið í dag. Næg eftirspurn virðist vera.


Ég bíð spenntur...

... eftir þeirri ógæfu sem svarti kötturinn er hljóp yfir veginn framan við bílinn minn í síðustu viku færir mér. Alveg kolsvart kvikindi þannig að ógæfan ætti að vera í duglegri kantinum. Svo stoppaði jaxlinn og leit yfir öxlina þegar hann var kominn yfir svona eins og til að tékka á því hvort hann hefði ekki örugglega náð mér.

 


Eitt af betri eintökum Moggans

Eitt af betri eintökum Moggans í langan tíma leit dagsins ljós síðastliðinn sunnudag. Þar var stutt grein um löggæsluátak í miðborginni. Merkilegt annars að fólk er búið að tala úr sér raddböndin um hið skelfilega ástand í Reykjavík um helgarnætur og svo þegar loksins er farið af stað með verkefni til að taka almennilega og öðruvísi á því, að þá verður allt vitlaust. Eitthvað svo verulega íslensk viðbrögð, fyrirsjáanleg og leiðinleg.

Síðan það sem hæst bar í blaðinu. Loksins almennileg og að því að virtist ákaflega fagleg umfjöllun um Grímseyjarferjumálið vel þæfða. Miklu plássi eytt í þessa umfjöllun, málið skoðað frá öllum hliðum og tímalína lögð í gegnum allt ferlið. Vel unnin og lýsandi fréttamennska sem því miður ekki er á hverju strái þessa dagana hér á klakanum. Svo bíður maður bara eftir því að heyra afsökunarbeiðni samgönguráðherrans til handa ráðgjafanum. Annars finnst mér öðru aðalatriði málsins ekki vera haldið á lofti í þessu en það er auðvitað að Grímseyingar eigi að hafa alvöru samgönguþjónustu.

"Staða ljóðsins" var áhugaverð umræða Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og féll vel að manni og svo sökk ég auðvitað niður í "erfðalykla tungumálsins", viðtal við enska málvísindamannin David Lightwood sem endaði á smá skoti um að enskunnar yrði kannski fullhefnt með íhlutun hennar í mál okkar nú líkt og hann telur hafa gerst með öfugum formerkjum fyrr á öldum. Að maður tali nú svo ekki um viðtal við höfunda bókarinnar um Maó formann. Ég hef meira að segja lesið stutta kafla úr þeirri bók, pantaði hana næstum því snemmsumars en ákvað að spara það við mig. Hefði sko alveg viljað heyra frásögn Chang á morgun á bókmenntahátíð.

Auðvitað voru smá stjórnmál með í för eins og vera ber. Hugsað upphátt um vegferð lýðræðis af Guðna Ágústs. og "svo fúll á móti, ég veit allt" grein frá Róbert Marshall.

Svo les ég bæði atvinnuauglýsingar og dánar-/jarðarfarafréttir sem og stöku minningargrein en þar á eftir fékk maður smá sýn á Jethro Tull forsprakkann Ian Anderson.

Síðan sá ég smá umfjöllun um kvikmynd sem á að gera um sögu úr seinni heimsstyrjöldinni um Bielski bræðurna er forðuðu fjölda gyðinga frá dauða í skógum Hvíta Rússlands. Ég sá einmitt heimildarmynd um þá í sumar og þótti áhugaverð þannig að líklega kemur maður til með að reyna að sjá þessa þegar hún kemur út.

"Vel flutt leiðindi" var síðan dómurinn um hinn nýja disk Magna "Rockstar". Tek undir það að mestu, fannst ekki alltaf vel flutt hjá honum. Hallast frekar að magnaðri textagerð Villa Naglbíts og góðum flutningi hans.

Löng færsla orðin, í stíl við sunnudagsmoggann.


Alveg merkilegt

Þegar manni verður það á að blaða snögglega í gegnum auglýsingapésa, er lauma sér inn á heimilið flýgur manni í hug setning Grettis við húsbónda sinn Jón. "Það er alveg merkilegt hvað fólk vill frekar eiga en peninga". Ekki það að peningar séu neitt sérstaklega merkilegir í sinni birtingarmynd en sumt er nú samt yfir strikið varðandi bítti þar á milli.

Örhugleiðing dagsins

Hver ætli sé munurinn á útsölu og stórútsölu. Hvaða aukaskilyrði ætli þurfi að uppfylla að auki til að geta kallað útsöluna sína stórútsölu?

Hvað sem það nú er þá er líklega um að ræða ódýrt sölutrix.


Nýjasta bókin í safnið

Ég keypti mér bók í fyrradag. Stóðst ekki mátið eins og svo oft áður og féll fyrir auglýsingu fyrir utan auðvitað óstöðvandi áhuga á viðkomandi efni.

"Decision training for athletes" heitir gripurinn og er eftir Joan Vickers. Áhugaverð út frá sjónarhóli íþróttasálfræðinnar auðvitað en kannski einnig út frá þeirri staðreynd að ákvarðanataka er partur af daglegu lífi manns. Mér leist alla vega vel á umsögnina um hana og bíð því spenntur eftir að hún skili sér í hús til manns.

Er svo ennþá að velta fyrir mér einni stórri, búinn að vera að því reyndar í ein tvö ár. Fín bók um mannslíkamann, stórar og góðar myndir en kostar líka sitt. Sjáum hvað setur.


Merkasti Íslendingurinn

Einhverra hluta vegna var ég að velta því fyrir mér í svefnleysi einnar næturinnar hver hefði eiginlega verið merkasti Íslendingurinn sem lifað hefði um dagana.

Í raun og veru flugu mér ekki mörg nöfn í hug og þótt tiltölulega langur tími færi í að reyna að útkljá þetta hugðarefni þá var einn sem stóð nokkuð vel umfram aðra.

Merkasti Íslendingurinn fram til dagsins í dag hefur mér fundist vera Þorgeir Ljósvetningagoði hvað svo sem öðrum finnst um það.

Einn nær nútímanum komst næst honum en ég var ekki að leita að þeim sem vermdi annað sætið svo ég læt hans ógetið.


Haustið komið

Ég held hreinlega að það sé komið haust, reyndar fyrir einhverjum dögum síðan. Haustvindar fara um og haustrigningar láta á sér kræla.

Mér finnst það reyndar ágætt því haustið er skemmtilegasti og fallegasti tími ársins. Um að gera að njóta hans.


Heimildarmynd dagsins

Ég hef alltaf verið mikið fyrir sögu og söguskoðun hvers konar. Þar að auki hef ég gluggað heilmikið í sögu heimsstyrjaldanna enda svolítill grúskari í mér.

Það vakti því áhuga minn titill stuttrar heimildamyndar sem BBC bæði gerði og sýndi en þessi mynd bar heitið "Weekend Nazis" og fjallar í grunninn um sögusýningar sem settar eru upp á Bretlandseyjum um seinni heimsstyrjöldina og tengingar þaðan í hópa sem þar koma fram sem nasistar undir yfirskyni söguskoðunar og síðan áfram á milli tímans í dag og þá.

Áhugaverð mynd fannst mér og hvet þá sem hafa svipað áhugasvið að kynna sér þessa mynd. Það var meira að segja smá innslag um/með hinum víðfræga David Irwin rithöfundi. Pínu sjokkerandi en áhugaverð samt engu að síður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband