Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.1.2008 | 12:46
Snýst ekki um fatapeninga
Ætli menn séu ekki búnir að átta sig á eðli málsins í fatapeningamálinu Guðjóns Ólafs, ég hefði haldið það a.m.k. núna svona þegar hann er búinn að draga flest sín spil upp á borðið.
Þetta snýst nefnilega alls ekki um einhverjar sporslur til fatakaupa, það var bara sett fram til að ná eyrum fjölmiðla. Ekki að þess hefði endilega þurft held ég því það er í tísku hjá þeim að fjalla um öll ágreiningsmál sem upp koma í Framsókn, stór og smá og allt þar á milli.
Þetta er einfaldlega Guðjón Ólafur á leið út úr pólitík á sinn hátt sem virðist vera með því hugarfari að "ef ég fer út þá tek ég alla sem ég get með mér". Ekki gott og alls ekki merkilegt.
En að því sögðu þá er gott að þetta er komið upp á þennan hátt og orð Björns Inga eru skiljanleg að mínu mati. Stundum þarf hrossalækninga við og mér virðist það vera í spilunum í Reykjavík núna.
Hitt er svo annað að á svona stundum þurfa formenn flokka að vera röskir, með bein í nefinu og taka á málum miðað við eðli þeirra og alvarleik.
Það held ég.
20.1.2008 | 21:10
Hugleiðingar eftir úrslitin hjá Demókrötum í gær
Clinton vann í Nevada í gær, Obama tapaði. Þar sem hlutirnir hafa snúist um að byggja upp "moment" fyrir ofur þriðjudaginn 5. febrúar þá er það mjög mikilvægt fyrir Clinton að hafa unnið í Nevada. Þrátt fyrir að skoðanakannanir hafi sýnt það fyrirfram að svo færi þá lásu menn hlutina þannig samt að Obama gæti unnið Nevada, líkt og Clinton gerði í New Hampsire.
Ef annar hvor aðilinn átti meiri efni á að tapa þá var það Obama því nánast öruggt er talið að hann vinni í Suður-Karólínu á laugardaginn kemur. Nýjustu kannanir sýna hann með yfir 10% forskot þar. Og þá er staðan 2-2 þeirra í millum í ríkjum talið en sigur Clinton í Michigan telur auðvitað ekki með í þessu. Hlutirnir hafa breyst við þessi úrslit telja samt fjölmiðlar í BNA. Obama hafði "momentum" eftir IOWA sem skilaði sér ekki inn í New Hampsire (nokkrar góðar skýringar til um skoðanakannavillur fyrir þær kosningar). Nú líta menn á að Clinton sé komin á ölduna góðu og sé að ná yfirhöndinni varðandi hið tíðrædda "momentum". Það er kannski þess vegna sem Obama gekk langt í að lýsa yfir kjörmannasigri í Nevada, til að reyna að stöðva tilfærslu "momentsins" en samkvæmt fjölmiðlum virðist hann ekki hafa náð því fyllilega.
Þetta snýst nefnilega svo mikið um það að hafa "BIG Mo" inn í "Super tuesday" (sumir ganga það langt að nefna hann "Tsunami tuesday") í stað þess að hafa "No Mo" eins og einhver stjórnmálaskýrandinn orðaði það.
Þá er það Flórida, þar sem kosið verður 29. janúar, sem mesta spennan og lokauppbygging "momentsins" sem allt byggir á. Í Flórida hefur Clinton góðan meðbyr og kemur vel út í könnunum þar, með á bilinu 8-33% fram yfir Obama. Hann hefur reyndar verið að saxa á forskot hennar allsstaðar en líklega nær hann ekki nær Clinton þar en 8-10% og þar með fer Clinton inn í ofur þriðjudaginn á hárri öldu augnabliksins.
Ég veit síðan að einhverjir reikna með því að annað hvort þeirra dragi sig út úr kapphlaupinu eftir 5. febrúar en ég geri það ekki. Ég reikna með að Clinton verði ofan á eftir þann dag en Obama held ég að telji sig eiga meira inni og hafi meira til málanna að leggja. Ég held að þetta fari langt þetta kapphlaup. Síðan má ekki gleyma John Edwards, sem skýrendur vestan hafs kalla atvinnustjórnmálamann. Hann kemur til með að hafa kjörmenn og fylgi eftir ofur þriðjudaginn sem annað hvort Clinton eða Obama myndi gjarnan vilja fá. Þá er spurningin hvað hann fær í staðinn en ég reikna örugglega með að þá dragi hann sig til baka og semji um eitthvað gott embætti sér til handa fyrir þann aðila sem hann telur sigurstranglegri á þeim tímapunkti.
Eitthvað áframhald verður á þessu hjá mér á næstunni, þ.e.a.s. ef einhver nennir að lesa þetta.
20.1.2008 | 13:44
Skrýtnu hugmyndirnar á Íslandi
Það koma oft fram á Íslandi svo skrítnar hugmyndir að merkilegt verður að teljast. Oft verður það þá líka þannig að þær fá þónokkra athygli og í framhaldinu eru þær bornar undir hina og þessa framámenn þjóðfélagsins.
Nýjasta í þessum efnum er þessi brjálaða hugmynd að Fischer heitinn eigi að jarðsetjast í þjóðargrafreit á Þingvöllum. Hvernig getur mönnum dottið það í hug verð ég eiginlega að spyrja sjálfan mig, svona eftir að maður áttaði sig á því að full alvara lá að baki hugmyndinni.
Fylgja þessu einhver tæk rök? Ég get ekki séð það.
20.1.2008 | 02:30
McCain lýstur sigurvegari í Suður-Karólínu
Sumar fréttastöðvar í Bandaríkjunum, meðal annars AP og Fox, hafa nú lýst John McCain sigurvegara í prófkjöri Repúblikana í Suður-Karólínu. Nú hafa 82% atkvæða verið talin í ríkinu og er staðan eftirfarandi: McCain 33%, Huckabee 30%, Thompson 16%, Romney 15%, Paul 4% og Giuliani 2%.
Gríðarlega mikilvægur sigur fyrir McCain í ríkinu þar sem sagt er að hann hafi tapað slagnum árið 2000. Tölfræði þeirra Bandaríkjamanna segja að síðustu áratugina sé þetta ríkið til að vinna því enginn sem hafi tapað hér hafi náð útnefningu flokksins. Ég held samt að hafa verði í huga hvað baráttan er jöfn þetta árið áður en stokkið er á slíkt sem sannleik nú um stundir.
Hér nær Thompson sér aðeins á strik miðað við það sem verið hefur en líklega er það ekki nóg fyrir hann til að endast mikið lengur og eins hljóta að fara að vakna spurningar varðandi baráttu Giulianis og Pauls þó allendis sé það óvíst að þeir falli úr baráttunni strax.
En svona er þetta núna, lokatölur koma hér í uppfærslu líklega í nótt eða þá á morgun. Síðan er ætlunin að kryfja þessi prófkjör dagsins eitthvað á morgun ef tími vinnst til og ef maður hefur eitthvað í það að gera.
Það held ég.
Uppfært: Nú er búið að telja vel yfir 90% atkvæða og hlutfallstölurnar hjá frambjóðendunum hafa ekkert breyst. Menn velta því helst fyrir sér hvort Thompson hætti dragi sig ekki til baka í kjölfar þessara úrslita en í ræðu sem hann hélt fyrir stuðningsmenn sína svona nánast ýjaði hann að því en gaf það samt ekki út. Menn reikna samt frekar með því miðað við hvað hann var búinn að segja fyrir prófkjörið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2008 | 01:08
Sérkennileg staða hjá Demókrötum í Nevada
Það virðist vera svo að upp sé komin frekar sérkennileg, þó alls ekki óþekkt staða svo sem, hjá Demókrötum í Nevada eftir forvalið hjá þeim á laugardag. Niðurstaðan er ljós í hlutafallstölum eins og ég segi frá hér í fyrri færslu í kvöld þar sem Clinton vinnur Obama með u.þ.b. 6% mun og Edwards langt á eftir þeim.
Kerfið í þessari baráttu um að vera útnefndur forsetaframbjóðandi flokksins snýst ekki alveg hreint út um að sigra hvert ríki eða fá alltaf flest atkvæði heldur í grunninn um að fá flesta kjörmenn kjörna á landsþing flokksins í sumar. Það virðist því hafa gerst í Nevada að þrátt fyrir að Obama hafi fengið minna heildarfylgi þá hafi hann fengið einum kjörmanni fleiri en Clinton. Og það eru stórfréttir í raun, þannig getur hann lýst sig sem sigurvegara Nevada forvalsins og náð smá hjálparöldu í þá baráttu sem framundan er og nær hámarki þann 5. febrúar.
Hér er brot úr yfirlýsingu Obama sem hann sendi frá sér eftir forvalið í dag:
Were proud of the campaign we ran in Nevada. We came from over twenty-five points behind to win more national convention delegates than Hillary Clinton because we performed well all across the state, including rural areas where Democrats have traditionally struggled
Þetta kemur svolítið illa við Clinton því hennar fólk hefur oft látið hafa eftir sér fram að þessu að kjörmenn sé það eina sem skiptir máli.
Það held ég.
PS Kjörmannafjöldinn sem kosið var um er 25 held ég í Nevada. Síðan er 8 "súper" kjörmönnum (super delegates) úthlutað af yfirstjórn flokksins. Þar er talið að Clinton sé með nokkuð forskot á Obama og hans fólk viðurkennir það.
Uppfært 1:45 : Í herbúðum Clinton er sagt að Obama fari með rangt mál og framkvæmdastjóri Demókrata í Nevada tekur í sama streng en í því sem hún segir finnst mér liggja að breyta eigi reglum sem nú gilda fyrir það þing sem kýs endanlega kjörmenn á flokksþingið í sumar. Hún segir:
The calculations of national convention delegates being circulated are based upon an assumption that delegate preferences will remain the same between now and April 2008
Það sem gerir þennan sigur að verkum hjá Obama er að hann vann í fleiri sýslum þar sem færri kusu og síðan er eitthvað misvægi á milli atkvæða eftir sýslum. Flókinn útreikningur sem ég er ekki búinn að komast í gegnum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.1.2008 | 00:42
Fyrstu tölur hjá Repúblikönum í Suður-Karólínu
Núna eru að koma fram fyrstu tölur í prófkjöri Repúblikana í Suður-Karólínu sem fram fór fyrr í dag (laugardag). Samkvæmt þeim fer McCain ágætlega af stað og Huckabee þokkalega en þeim fylgja síðan Romney og Thompson.
McCain er með 38% atkvæða, Huckabee 23%, Romney 19% og Thompson 12%. Síðan koma Giuliani með 5% og Paul með 4%.
Taka verður vara við þessu þar sem ákaflega lítið atkvæðamagn stendur að baki þessum hlutfallstölum og þær geta breyst skyndilega og þónokkuð svona á fyrstu skrefunum. Ég uppfæri þetta síðan eitthvað fram á nóttina ef einhver hefur áhuga.
Uppfært: McCain 34%, Huckabee 30%, Thompson 15%, Romney 14%, Paul 4% og Giuliani 2%. Manni sýnist að Giuliani fari hreinlega að heltast úr lestinni með ákaflega daprar tölur í þeim forvölum sem búin eru. Sérstakt þar sem þetta er frambjóðandinn sem var efstur í öllum skoðanakönnunum megnið af árinu 2007. En það er ekki sopið kálið þó í ausuna sé komið. Þá ber þess einnig að geta að Duncan Hunter hefur dregið sig úr framboði eftir forvalið í Nevada og því eru sex frambjóðendur eftir hjá Repúblikönum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.1.2008 | 22:25
Smá villa hjá Moggamönnum
Það er smá villa í niðurlagi fréttarinnar á mbl.is þar sem skilja má að prófkjör Repúblikana í Suður-Karólínu sé eftir viku. Það er ekki rétt þar sem það var haldið í dag og úrslit væntanleg úr því í nótt. Það prófkjör er mjög mikilvægt hjá þeim og kemur til með að hafa heilmikil áhrif á framhaldið spái ég.
Það eru síðan aftur á móti Demókratar sem halda prófkjör sitt í Suður-Karólínu eftir viku, laugardaginn 26. janúar og er það ekki síður mikilvægt í slagnum þar heldur en það sem haldið er í dag hjá Repúblikönum.
Það held ég.
![]() |
Clinton og Romney unnu í Nevada |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2008 | 21:44
Clinton með sigur í Nevada
Nú er orðið ljóst að Hilary Clinton (búið er að lýsa hana sigurvegara) hefur unnið forval Demókrataflokksins í Nevada sem haldið var í dag. Hún fær úthlutað um 51% fulltrúa á þing flokksins í ríkinu þar sem kjörfulltrúar á landsfundinn í sumar verða kosnir. Barack Obama er aftur á móti með um 45% fulltrúa í ríkinu og John Edwards rekur síðan lestina með um 4% fulltrúanna.
Sigur Clinton er orðinn ljós þó ennþá eigi eftir að berast tölur frá um 20% umdæmanna í ríkinu en sigur hennar yfir Obama er á bilinu 4-6%. Fylgi Edwards er síðan ákaflega lágt og nokkuð ljóst að raddir sem vilja hann út úr kapphlaupinu verða háværari í kjölfar þess.
Þessi úrslit voru viðbúin þó enginn hafi þorað að taka af skarið fyrir fram og spá henni þessum sigri örugglega. Þessi sigur hennar virðist ekki koma til með að hafa nein afgerandi áhrif á baráttuna en eingungis er um að ræða 33 fulltrúa frá Nevada á flokksþingið og menn búast síðan fastlega við sigri Obama í Suður-Karólínu á laugardaginn kemur.
Lokatölur verða uppfærðar í þessa færslu um leið og þær verða ljósar og síðan úrslit hjá Repúblikunum í Suður-Karólínu í nýrri færslu þegar þau verða ljós.
19.1.2008 | 20:41
Fyrstu tölur hjá Demókrötum í Nevada og úrslit hjá Repúblikönum
Bandarískir fjölmiðlar eru nú farnir að birta tölur í forvali Demókrata í Nevada og eru þær þannig að Obama er með 48%, Clinton 46%, Edwards 5% og Kucinich 1%.
Verð samt að segja að það er ekkert að marka þetta ennþá þar sem afar fá atkvæði eru á bakvið þessar tölur eins og er. Leiðrétti mig hérna strax því ekki eru gefin upp atkvæði heldur fulltrúar sem hver frambjóðandi vinnur á flokksþing Nevada sem haldið verður síðar í vetur. Fjöldi þessara fulltrúa er í kringum 10500 en einungis er búið að úthluta rétt innan við eitthundrað.
Úrslit eru hins vegar ljós hjá Repúblikönum þar sem Mitt Romney hreinlega rústaði hinum frambjóðendunum með 56% atkvæða. Á eftir honum komu síðan John McCain og Ron Paul með 12% atkvæða, Huckabee með 8% og Fred Thompson með 7%. Rudolph Giuliani er síðan með 4% og er ekki vel staddur í kapphlaupinu að útnefningunni eins og er.
Uppfærsla eða ný færsla síðar í kvöld um Demókrata og síðan Republikana í Suður-Karólínu.
Uppfært : Clinton 53%, Obama 44%, Edwards 3%. Búið að úthluta u.þ.b. 2250 fulltrúum eða rúmlega 22% þeirra.
Nýrri uppfærsla: Clinton 50%, Obama 45%, Edwards 5%. Nú er búið að útluta tæplega 60% fulltrúum á milli frambjóðenda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2008 | 02:20
Allt að gerast í Nevada
Það er ákaflega erfitt að segja nokkuð til um hvernig forval Demókrata í Nevada fer á morgun. Ég er búinn að eyða kvöldinu í að lesa og hlusta á ýmsa spekinga leggja línurnar og segja sitt álit með röksemdum og að því að virðist færum hugsunum. Enginn þeirra hefur þó viljað taka af skarið með úrslit vegna ýmissa þátta sem þeir hafa verið að segja frá og greina. Þrátt fyrir að ég hallist að sigri Obama eins og ég sagði í niðurlagi síðustu færslu að þá eru allar skoðanakannarir í ríkinu á þann veg að Clinton er með forskot á Obama. Mismikið reyndar eða allt frá tæplega fjórum prósentum, sem er nálægt því að vera innan skekkjumarka, og allt upp í ein níu prósent. Slíkur munur verður aftur á móti að teljast afgerandi. Samt eru menn ekki vissir á því að slíkar verði niðurstöðurnar.
Fyrst ber að telja að um er að ræða caucus en ekki primary (forval og prófkjör ??). Muninum á þessu er ég sjálfur rétt búinn að ná en tæplega nægilega vel samt til að leggjast í flóknar útskýringar. Þetta gerir það að verkum að ekki er endilega auðvelt að sjá hvernig fulltrúarinir úr caucus skiptast eða leggjast eftir umdæmum í ríkinu. Þetta semsagt flækir spár byggðar á könnunum í þessu umhverfi.
Næst er um að ræða að lykilmenn í herbúðum Clinton hafa leynt og ljóst talið sig eiga þann þjóðfélagshóp sem á rætur að rekja til Suður-Ameríku (latino/hispanic) en sá hópur er tiltölulega stór í Nevada. Þessa eign sína á þessum hóp hefur Clinton byggt á innbyggðu eða náttúrulegu vantrausti hans á þeldökkum (African-Americans) íbúum Bandaríkjanna. Það sem virðist síðan vera að gerast er að pendúllinnn er að sveiflast hægt og rólega yfir til Obama í þessum hóp (latino/hispanic). Sé það raunin þá eru kannanirnar ekki að gefa nægilega gott forspárgildi fyrir niðurstöðuna. Siðan skiptir auðvitað máli hversu hratt pendúllinn sveiflast sé hann kominn á hreyfingu.
Þriðja atriðið er svo lögsókn stuðningsmanna Clintons í ríkinu varðandi kjörstaði í vikunni þar sem þeir reyndu að koma í veg fyrir að kosið starfsmenn í spilavítunum gæti kosið nánast á vinnustaðnum. Það var ekki vel séð af þeim og samtökum þeirra eins og gefur að skilja en margir þeirra tilheyra einmitt latino/hispanic hópnum og styður það pendúlsveifluna sem lýst er hér að framan. Í kjölfar þessa dómsmáls, sem stuðningsmenn Clintons töpuðu, kom síðan auglýsing þar sem sagt var: Clinton vill taka af okkur réttinn til að kjósa, Obama er að verja rétt okkar til að kjósa, hann vill atkvæði okkar.
Fjórða atriðið er síðan að Obama hefur breytt um taktík. Hingað til hefur hann lítið verið að svara oft á tíðum hörðum árásum Clinton á sig beint heldur tekið þögnina á það og virt að vettugi. Sumir hafa haldið því fram að hann hafi tapað miklu í New Hampsire á því og hann vilji ekki eiga það á hættu nú. Þar er meðal annar vitnað í framkomu þeirra í panel í sjónvarpi á þriðjudagskvöld þar sem þau voru spurð um helstu veikleika þeirra.
Og til að horfa aðeins fram á veginn þá hefur mikil breyting átt sér stað í Kaliforníu í könnunum í átt til Obama en Clinton heldur yfirgnæfandi forskoti í Florida. Það skiptir reyndar engu máli að því að virðist vegna þess að kjörmenn þaðan verða ekki gjaldgengir í landsþingið í sumar.
Að öllu þessu framlögðu þá ætla ég að halda mig við mína fyrri spá og segja Obama 38%, Clinton 32% og Edwards 21%. Reyndar eru farnar að heyrast raddir um að Edwards eigi að draga sig í hlé, hann geti ekki haldið hinum tveimur svona í herkví mikið lengur.
Síðan held ég að maður verði að fara að skoða Repúblikana betur og gera því kannski einhver skil. Þar er baráttan í algleymi eins og sagt er og mikið í spilunum.
Það held ég.