Jólakort ársins

Eins og gengur og gerist fékk maður fjöldann allan af jólakortum um jólin með mörgum góðum kveðjum, sem mér finnst ákaflega vænt um eins og reyndar allar góðar óskir sem maður fær.

Þar á meðal voru kort utan úr hinum stóra heimi og þar af eitt frá Póllandi en það var rétt tæpan mánuð á leiðinni og mun lengur þar með en það sem ég fékk frá Bandaríkjunum. Ekki finnst mér það vera góðar póstsamgöngur en bjarta hliðin á málinu er auðvitað sú að það skilaði sér.


Árið gert upp

Þegar maður kemur nú til baka úr sjálfskipuðu "óvart" fríi frá skrifum hér á síðu er við hæfi að óska öllum gleðilegs árs og farsældar á því sem er að byrja. Ég tel mig ekki vera hælbít og vil því að öllum vegni eins vel og hugsast getur burt séð frá stöðu eða lífssýn.

Skin og skúrir skiptust voru til skiptis á liðnu ári svo sem eins og vænta má því ekki eru allar ferðir til fjár eins og þekkt er. Fyrstu fjórir mánuðirnir fóru í fæðingarorlof og mikla umsjón og samvistir við Eyhildi. Gleði tími og algjörlega ómissandi, hefði ekki viljað skipta á honum og nokkru öðru held ég og samverustundir fjölskyldunnar í raun það sem upp úr stóð á árinu, þar með talin Færeyjaferð í lok apríl. Þá fékk ég einnig góðar kveðjur frá gömlum skólafélaga sem ég hafði hvorki heyrt né séð lengi og var það ákaflega ánægjulegt.

Heilsan á okkur var alveg ágæt í heildina séð þó nokkrar umgangspestir drægju okkur niður í einhverja daga á árinu. Það varð þá einnig ljóst á árinu (það sem ég vissi reyndar á því þar síðasta) að ég kem ekki til með að ná bata á handleggnum mínum og skaðinn þar því varanlegur. Heppinn hvað ég get þó gert og tekið þeim afleiðingum með nokkrum ágætum án þess að bitni á nærstöddum um of.

Pólitíkin var skrykkjótt svo ekki sé meira sagt. Ég fékk ekki brautargengi persónulega þar sem ég sóttist eftir því og hálfgert afhroð beið okkar á landsvísu, sýnu mest á höfuðborgarsvæðinu. Ég er þó ekki þannig farinn að hafa farið í burtu í fússi eins og margur annar gerir nú á dögum heldur tvíeflist í vinnu minni fyrir það sem ég trúi á og held áfram inn í framtíðina með það að vopni.

Námið mitt gengur ágætlega og sækist eins og við er að búast miðað við að maður reynir að stunda fulla vinnu um leið þannig að maður er að ljúka 5 einingum á önn.

Það sem ég sé eftir á árinu sem leið er að ég hef ekki náð að lesa eins margar bækur og ég hefði viljað. Ég hef eiginlega byrjað á mörgum og klárað fáar sem mér finnst frekar skítt. Þar að auki hef ég ekki gefið mér neinn tíma svo heita megi í grúsk af neinu tagi og það er afleitt. Er þó byrjaður að reyna bót í þessum efnum og er kominn vel á veg með tvær nýjar bækur auk þess sem ég er búinn að sökkva mér niður í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum. Þar er netið góður bakhjarl því ekki er hún nú upp á marga fiska fréttamennskan af því í íslenskum fjölmiðlum.

Og svo smá ádeila í lokin. Mér finnst afleitt að það séu komin auglýsingahlé inn í miðja dagskrárliði hjá RÚV, hvort sem um er að ræða áramótaskaup eða annað. Ég er ekki endilega á því að það eigi að hætta með auglýsingar þar, bara ekki rjúfa þætti fyrir þær. Það verður að vera einn miðill sem gerir það ekki.

Áramótaskaupið var síðan hið besta í mörg herrans ár eða alllar götur síðan Áslaug var drepin í kjölfar "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" þáttarins hans Baldurs Hermannssonar níutíu og eitthvað.

Það held ég.


Mikill heiður

Sé það núna á heimasíðu KSÍ að Kristinn Jakobsson hefur verið útnefndur til starfa í úrslitakeppni EM næsta sumar. Þetta er gríðarlega mikill heiður fyrir Kristinn sem og reyndar líka íslenska dómara og íslenska knattspyrnu.

Það er ljóst að framgangur Kristins innan FIFA hefur tekið stökk nú í sumar og verkefni hans stærri en áður vegna hækkunar hans um styrkleikaflokk. Það er vonandi að þetta opni fleirum dyr í sömu átt.

Það held ég.

Hér er síðan listinn yfir dómarana sem starfa við EM.


Sé ekki....

... að 500 manna úrtak segi mikið til um þýði sem telur eitthvað yfir 20 milljónir.
mbl.is Drykkjusiðir hafa áhrif á vinnuframlag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gera konur ekkert fyrir knattspyrnuna?

Það vekur athygli mína að við afhendingu gull- og silfurmerkja KSÍ í gærkvöldi skuli einungis fjórar konur fá afhent merki af annarri hvorri gráðunni, reyndar einni þeirra fjögurra gullmerki. Alls úthlutaði KSÍ 24 gullmerkjum og 53 silfurmerkjum.

Getur það verið að konur séu nánast ekkert að vinna að framgangi knattspyrnunnar á Íslandi eða er framlag þeirra ekki metið að verðleikum hjá þeim sem úthluta þessum viðurkenningum sem felast í merkjaafhendingunni?

Vitanlega er svona lagað alltaf vandmeðfarið og álitamál um hin og þessi nöfn geta komið upp (og gera það reyndar alltaf) en er þessi skipting ekki aðeins skökk?

Ég held það.


Auglýsing dagsins

Svona í tilefni þess að jólin nálgast óðfluga er hér smá auglýsing á mínum vegum ef einhver hefur áhuga.

Jólatjráaleiðangur

Nú förum við og sækjum jólatré laugardaginn 15. desember.
Farið verður frá Litlulaugaskóla klukkan 10.30 árdegis.
Allir sem vilja slást með í för og velja sitt eigið jólatré úti í nátturunni
eru hjartanlega velkomnir.
Pantanir og allar nánari upplýsingar um verð og fleira er hægt að fá í síma
898 9846 (Ragnar Bj.), í netfangi rabja@ismennt.is og á kvöldin í síma 464
3103 (Anita Karin).
Stefnt er að því að hafa söludag jólatrjáa og greina í Birkifelli
laugardaginn 22. desember.

HSR og Skógræktarfélag Reykdæla


Skotheld vitleysa

Ég hef bara engan húmor fyrir þessu athæfi og ennþá síður er ég upprifinn yfir allri athyglinni sem þetta mál fær. Mér finnst margt annað vera verulega meira áhugavert að fjalla um á besta tíma í fjölmiðlum landsins.

En það er bara ég sjálfsagt.


mbl.is Skagapiltur pantaði viðtal við Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanmetin snilld

Ég tek undir með Páli Óskari þegar hann var spurður um á hvað hann hlustaði þegar útvarpið væri óþolandi, "Þá slekk ég og hlusta á þögnina. Besta sándtrakk lífsins" var svar hans. Þögnin er vanmetin snilld og að viðbættri íslenski náttúru, ekki síst á dimmum vetrarkvöldum, þá er ekkert sem jafnast á við hana.

Ég veit ekki um ykkur....

... en ég hef oft gaman af svörtum húmor, jafnvel þeim sem er alveg á mörkunum. Þessi er það næstum og mér finnst nokkrir góðir punktar í þessu. Achmed er í boði Knúts, er benti mér á klippuna.

Gott að kunna skyndihjálp

Ég sá rannsókn um daginn þar sem því var haldið fram að um það bil 3% fólks væri óheppnara en gengur og gerist. Ég trúi því svo sem miðað við það sem maður hefur séð um ævina.

Ætli Jónas vinnufélagi falli ekki í þennan hóp. Hann lenti nefnilega í því í dag að hefta sig í puttann með loftheftibyssu. Og þar sem ég var nærstaddur og tiltölulegur sérfræðingur í skyndihjálp þá dæmdist það á mig að aðstoða hann við að plokka heftið úr fingrinum.

Algjör snilld. Gekk frekar illa hjá mér því ég hló svo mikið að honum. "Togaðu í vettlinginn maður, togaðu heftið út." "Ég get það ekki, þetta er svo fyndið". Það gekk þó á endanum og fingurinn er á ennþá.

Kannski eru þetta "Jackass" áhrifin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband