Árið gert upp

Þegar maður kemur nú til baka úr sjálfskipuðu "óvart" fríi frá skrifum hér á síðu er við hæfi að óska öllum gleðilegs árs og farsældar á því sem er að byrja. Ég tel mig ekki vera hælbít og vil því að öllum vegni eins vel og hugsast getur burt séð frá stöðu eða lífssýn.

Skin og skúrir skiptust voru til skiptis á liðnu ári svo sem eins og vænta má því ekki eru allar ferðir til fjár eins og þekkt er. Fyrstu fjórir mánuðirnir fóru í fæðingarorlof og mikla umsjón og samvistir við Eyhildi. Gleði tími og algjörlega ómissandi, hefði ekki viljað skipta á honum og nokkru öðru held ég og samverustundir fjölskyldunnar í raun það sem upp úr stóð á árinu, þar með talin Færeyjaferð í lok apríl. Þá fékk ég einnig góðar kveðjur frá gömlum skólafélaga sem ég hafði hvorki heyrt né séð lengi og var það ákaflega ánægjulegt.

Heilsan á okkur var alveg ágæt í heildina séð þó nokkrar umgangspestir drægju okkur niður í einhverja daga á árinu. Það varð þá einnig ljóst á árinu (það sem ég vissi reyndar á því þar síðasta) að ég kem ekki til með að ná bata á handleggnum mínum og skaðinn þar því varanlegur. Heppinn hvað ég get þó gert og tekið þeim afleiðingum með nokkrum ágætum án þess að bitni á nærstöddum um of.

Pólitíkin var skrykkjótt svo ekki sé meira sagt. Ég fékk ekki brautargengi persónulega þar sem ég sóttist eftir því og hálfgert afhroð beið okkar á landsvísu, sýnu mest á höfuðborgarsvæðinu. Ég er þó ekki þannig farinn að hafa farið í burtu í fússi eins og margur annar gerir nú á dögum heldur tvíeflist í vinnu minni fyrir það sem ég trúi á og held áfram inn í framtíðina með það að vopni.

Námið mitt gengur ágætlega og sækist eins og við er að búast miðað við að maður reynir að stunda fulla vinnu um leið þannig að maður er að ljúka 5 einingum á önn.

Það sem ég sé eftir á árinu sem leið er að ég hef ekki náð að lesa eins margar bækur og ég hefði viljað. Ég hef eiginlega byrjað á mörgum og klárað fáar sem mér finnst frekar skítt. Þar að auki hef ég ekki gefið mér neinn tíma svo heita megi í grúsk af neinu tagi og það er afleitt. Er þó byrjaður að reyna bót í þessum efnum og er kominn vel á veg með tvær nýjar bækur auk þess sem ég er búinn að sökkva mér niður í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum. Þar er netið góður bakhjarl því ekki er hún nú upp á marga fiska fréttamennskan af því í íslenskum fjölmiðlum.

Og svo smá ádeila í lokin. Mér finnst afleitt að það séu komin auglýsingahlé inn í miðja dagskrárliði hjá RÚV, hvort sem um er að ræða áramótaskaup eða annað. Ég er ekki endilega á því að það eigi að hætta með auglýsingar þar, bara ekki rjúfa þætti fyrir þær. Það verður að vera einn miðill sem gerir það ekki.

Áramótaskaupið var síðan hið besta í mörg herrans ár eða alllar götur síðan Áslaug var drepin í kjölfar "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins" þáttarins hans Baldurs Hermannssonar níutíu og eitthvað.

Það held ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Blessaður og sæll og velkominn í bloggheima á ný.  Gleðilegt ár til þín og þinna.  Hef haldið þér inni hjá mér í von um að þú litir við einhvern daginn.  Leitt með handlegginn, veit reyndar ekki hvað gerðist eða hvernig þetta bitnar á daglegu lífi þínu, þú segir mér kannski frá því ef þú vilt. Ég vona að mannlífið sé í blóma í dalnum fagra eins og ætið.  Eru Hamra bærður ekki að setja upp leikrit eins og síðustu ár?? Nú fer þorrinn senn að byrja, ferð þú ekki á þorrablót.  Gaman væri að sjá nýjar myndir af börnum og hvað þær hafa stækkað.  Kær kveðja norður.

Ásdís Sigurðardóttir, 13.1.2008 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband