Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kveðjubréf til Kristins

Ekki það að ég ætli að skrifa kveðjubréf til Kristins H þó maður sjái að einhverju leyti eftir honum en ég rakst á eftirfarandi í kveðjubréfi til hans.

   "á öllum þessum tíma var það sennilega ekki það sem Kristinn sagði sem gerði samstarfið erfitt og síðan ómögulegt – heldur hvernig hann sagði það"

Ég get tekið undir þetta og held að svo sé um fleiri að ræða, það er allavega mín tilfinning og ég hef heyrt frá fleirum sem líta þannig á málin.


Sveitasæla

Nú er liðin rétt vika síðan við Salbjörg dóttir mín komum heim úr hálfsmánaðar ævintýraferð að hennar mati. Við gerðumst nefnilega bændur í hálfan mánuð, á alveg þokkalegasta búi hjá systur minni og mági í Langadal. Ég rifjaði upp mína gömlu bændatakta og sá um búreksturinn, með dyggri aðstoð sona þeirra, á meðan þau tóku sér loksins almennilegt frí. Þau fögnuðu nefnilega bæði stórafmæli nú nýverið og við hjónin vissum ekki hvað við ættum að gefa þeim í tilefni þess. Úr varð að afmælisgjöf okkar til þeirra var gjafabréf á vinnu ef þau tækju sér frí. Flott hugsaði ég. Ég hlýt að ráða við búskapinn í nokkra daga, og var meira en til í þessa gjöf. Viku eftir að gjöfin var afhent hringdi mágur minn í mig til að rukka um hana, eins hógværlega eins og honum einum er lagið, og tjáði mér að nú væru þau búin að ákveða hvenær fríð þeirra yrði. Ekkert mál, hvert á að fara spurði ég. Ja, við ætlum að fara til Kanarí í tvær vikur núna fljótlega. Gúlp (og öll þessi svipbrigði sem má sjá í Andrésblöðunum). Gjöf er gjöf og við loforð skal standa og ánægður var ég ákaflega með þessa ákvörðun þeirra því á þessu fríi þurftu þau sannarlega að halda. Gott að geta orðið að liði við að láta það rætast.

Ákveðið var að við Salbjörg yrðum alfarið í sveitinni en Eyhildur, yngri dóttir okkar hjóna, yrði eitthvað hjá áum sínum sem og vinum okkar eftir nánara samkomulagi þar um. Hún var talin of lítil til að geta verið alfarið í sveitinni hjá okkur Salbjörgu. Anita varð síðan að sinna sinni vinnu og yrði síðan hjá okkur helgarnar á milli vinnutarna.

Þvílík upplifun sem þessi hálfi mánuður var hjá Salbjörgu. Erfitt að lýsa því í orðum svo myndrænt var það í raun og margar sögur hægt að segja um það en þær koma kannski bara seinna svona ein og ein. En fyrsta kvöldið sem við fórum í verkin var hún auðvitað svolítið hrædd því hún hafði ekki verið í svo miklu návígi við dýr af þessari gerð nema þá hestana sem við eigum. Hræðsla þessi var fljót að fara varðandi kindurnar en lengri tíma tók fyrir hana að venjast kúnum. Fyrsta skiptið í fjárhúsunum endaði til dæmis á þann veg að hún þurfti að kyssa kettina tvo bless áður en hún fór heim og það var svo sem allt í lagi fyrir mér ef hún næði þeim en ég stoppaði hana í því að kyssa allar tvöhundruð og eitthvað kindurnar líka bless. Ég sá fram á að vera í húsunum fram á morgun með því áframhaldi og tjáði henni að kindunum væri alveg sama þó það væri bara kallað bless til þeirra allra í einu. Það dugði, sem betur fer, og við komumst heim á skikkanlegum tíma fyrir vikið.

Góð byrjun á góðri ferð, meira um þetta seinna svona inn á milli þjóðfélagsnöldurs míns. Allt í lagi að hafa smá léttleika með, er það ekki?


Hreindýraveiðar

Hvernig er þetta með þessi hreindýr, er eitthvað fjör að veiða þetta? Annars fæ ég allt mitt hreindýrakjöt frá Viðbót á Húsavík. Grænlensk hreindýr reyndar en ætli þau séu nokkuð svo mikið frábrugðin.
mbl.is Yfir 2700 umsóknir um leyfi til hreindýraveiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál

Þetta er hið besta mál. Nú þyrfti bara að koma fleirum í að vinna í þessum anda. Það er mjög margt gott í staðardagskránni og þó að hún sé nokkuð mikil að vöxtum og vaxi kannski einhverjum í augum, þá er bara að innleiða hana í hlutum.
mbl.is Samkomulag um Staðardagskrá 21 endurnýjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsröðun sveitarfélaga

Ákaflega fannst mér merkilegt orðalag Þorgerðar Katrínar í hádegisfréttum þegar hún sagði "sveitarfélögin verða að forgangsraða í þágu menntunar". Gott og vel. Á þá að draga úr einhverjum lögboðnum hlutverkum sveitarfélaganna í þágu þessarar forgangsröðunar? Og þá í framhaldinu, hvaða hlutverkum? Hluti þessa vanda er að sveitarfélögin vantar fjármagn til að hækka laun kennara. En eins og ég hef áður skrifað þá er það ekki lausn vandans eitt og sér.

Og annað í framhaldi af þessu. Þessi deila kemur ríkisstjórn við, menntamál koma öllum við!

Látum sveitarfélögin fá hlutdeild í fjármagnstekjuskatti eins og þau eiga í raun og veru rétt á samkvæmt hugsun skattalaga (a.m.k. að hluta).


Hvað er hægt að sökkva djúpt ?

Málflutingingur liðsmanna Frjálslynda flokksins sýnir það svo ekki verður um villst að málefnastaða þeirra er í raun og veru í mínus stöðu. Þeir hafa ekkert, nákvæmlega ekkert fram að færa til nokkurs. Það eina sem þeir gera er að sökkva sjálfum sér dýpra og dýpra. Í þeim málum eru þeir reyndar hver öðrum fremri, það verður að segjast alveg eins og er. Guðjón Arnar sjálfur er skástur í þessu en ég minnist hans reyndar alltaf vegna rangra útreikninga varðandi eigið kosningaloforð í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum.

Rangfærslur, útúrsnúningar og persónulegur níðingsskapur verða líklegast minning manns um þennan flokk.

Kannski maður bíði samt aðeins og sjái hvað Kristinn H. getur gert fyrir þá. Finnst reyndar líklegt svona þegar maður minnist á hann að stöðumat hans hafi verið á þann veg að ekki væri fýsilegt að fara í sérframboð og þá væri þessi leikur sterkastur í stöðunni. Ekki viss um að það komi til með að gera honum gott. Ég hef heyrt í einhverjum sem studdu hann og þeir sögðu að nú hefði hann gert þeim ómögulegt að kjósa hann í vor.

Ætli Það sé nokkur von til að Sæunn fái einhverja afsökunarbeiðni eftir þessa atlögu? Held ekki þó að þá væru menn að meiri fyrir vikið. Og Sæunn bítur þetta áreiðanlega af sér.


mbl.is Tekist á um hryðjuverkamenn á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugafólk um landsbyggðarmál

Rakst á þessa ákaflega áhugaverðu og upplýsandi vefsíðu í bændablaðinu. Margt áhugavert að finna þar varðandi búsetuskilyrði á landsbyggðinni.

 


Leysir það vandann ?

Gamla tuggan um að ekki hafi fylgt fjármagn með grunnskólunum við flutining þeirra til sveitarfélaganna er lífseig. Fjármagn er auðvitað hluti af þessu en vandinn er miklu meiri og dýpri en það.

Sveitarfélögin hafa í heildina séð staðið sig vel í málefnum grunnskólans síðan þau fengu forræði þeirra mála á sína könnu. Ég fullyrði að bylting hefur átt sér stað í málefnum grunnskólans og gríðarleg þróun hefur orðið þar innandyra á þessu tímabili, sem sveitarfélögin hafa stutt vel við.

Varðandi skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga er það grundvallarmál að sveitarfélögin fái "sinn hlut" af fjármagnstekjuskatti, sem rennur nú óskiptur til ríkisins. Þorvaldur Jóhannsson, framkvæmdastjóri SSA, gerði þessu góð skil bæði í svæðisútvarpi austurlands sem og í fréttatíma útvarps nú ekki alls fyrir löngu.


mbl.is Ríkisstjórn hvött til að beita sér í kennaradeilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ályktun

 Mér fellur ákaflega vel eftirfarandi ályktun Félags ungra Framsóknarmanna í Skagafirði. Sérstaklega er seinni hluti ályktunarinnar vel fram settur.

"Aðalfundur Félags ungra Framsóknarmanna í Skagafirði telur að Framsóknarflokkinn eigi ekki að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að afloknum Alþingiskosningum í vor. Það væri ekki pólitíkst rétt að fara fjórða kjörtímabilið í röð með sjálfstæðisflokknum í stjórn. En að liðnum 12 árum hlýtur Framsóknarflokkurinn að endurmeta markmiðin með stjórnarsamstarfi. Þrátt fyrir allan þann árangur sem náðst hefur, steðja vandamál að íslensku samfélagi. Stærstu verkefni næstu ára eru í velferðarmálum og teljum við að Sjálfstæðisflokkinn hafi ekki þann áhuga sem þarf til að takast á við þau verkefni" (Tekið af vef FUF í Skagafirði, http://www.blog.central.is/framsokn )

Ég óska frænku minni, Guðrúnu Sif, til hamingju með að standa að þessu.


Ábyggilega eitthvað slæmt

Fyrir nokkrum mánuðum lenti ég (ég ætla að leyfa mér að nota þetta orð í þessu sambandi)  í samtali við tvo eintaklinga. Annar þeirra ákaflega harður VG maður, þó hann hafi engan áhuga á umhverfisvernd, og hinn var Samfylkingarmaður. Umræðuefnið voru hin svokölluðu vatnalög, sem þá voru til umræðu á Alþingi. Samtalið var tiltölulega stutt og snarpt eftir því og ákvða ég að yfirgefa samtalið þegar annar segir við hinn "um hvað eru þessi lög annars?" og svarið sem hann fékk var "ég veit það ekki en þetta er ábyggilega eitthvað slæmt".

Algjör snilld fannst mér en auðvitað kristallaðist í þessu að ekki var um vitrænan viðræðugrundvöll að ræða. Ætli þessu sé ekki víða farið svo?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband