Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Einn léttur

Ég rakst á einn gamlan og góðan brandara núna rétt um daginn þegar ég var að rýna í gömlu gulu brandarabókina úr ÍKÍ. Miðað við það sem hefur gengið á í vetur finnst mér hann eiga alveg jafn vel við nú eins og þá.

 Hver skildi vera munurinn á Vestmannaeyingum og Húnvetningum ???

Jú, Húnvetningum myndi aldrei detta í hug að kjósa Hallbjörn Hjartar. á Alþingi  W00t

 

Ætli þessu verði nokkuð tekið illa?


Malarvegir

Ég heyrði einn landsbyggðarfélaga minn segja frá því að fólk hefði sagt honum að það kæmi hreinlega ekkert í heimsókn til hans vegna þess að það þyrfti að fara um malarveg ef af því yrði. Ég svo sem veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta yfir þessari frásögn. Ég veit ekki hvort ég vildi fá svona fólk í heimsókn sem ekki treystir sér til að yfirvinna malarvegshindrunina til að hitta vini og kunningja. En hins vegar staðfestir þetta það álit mitt að góðar samgöngur eru ein af grunnundirstöðum þess að fólk velji sér búsetu á landsbyggðinni.

Einn parturinn af því að fá þetta til að virka er að útrýma malarvegum í byggð. Það verður hreinlega að hugsa hlutina upp á nýtt. Lítum til landa í kringum okkur, ég ætla að nefna sérstaklega Skotland. Þar eru vegir hreinlega hafðir eins breiðir og þörf er á miðað við notkun en yfirborð þeirra er þó ekki möl. Gerum eins.

Kannski þurfum við að leita aftur til 19. aldar, eins undarlega og það hljómar, og sækja okkur fyrirkomulag vegamála þá. Sumir vegir á forræði sýslna eða sveitarfélaga til að eitthvað gerist með malarvegina, sem enginn vill laga nema þeir fáu sem við notkun þeirra þurfa að búa dag hvern. Hvernig væri það?


Skoðanakannanir

þessa dagana, og sjálfsagt í sívaxandi mæli fram að kosningum, hellast yfir okkur skoðanakannanir um fylgi stjórnmálaafla í dagblöðum. Þetta er svo sem ekki í frásögur færandi því allir vita þetta. Við lestur þessara kannana og samanburð á þeim læðist að manni nettur grunur um að aðferðafræðin við gerð þeirra sumra sé ekki eins og akademísk vinnubrögð myndu útheimta af manni. Maður fór að rýna nánar í gerð þeirra þess vegna og þá kemst maður að því að þær hafa alla tilburði til að vera hreinlega klaufslettur vanhugsaðra vinnubragða ef best lætur. Könnun Fréttablaðsins, er birtist í sunnudagsblaði þar á bæ er til dæmis þannig gerð að af 800 manns sem spurðir voru svöruðu 438, ef mér reiknast rétt til. Síðan hef ég heimildir fyrir því að 30% þessara 438 neitað að svara og þá standa eftir 306. Þeir dreifast síðan að því að sagt er hlutfallslega milli kynja og kjördæma. Ákaflega mikil skekkjumörk og tæpast mark á takandi.

Svona vinnubrögð fá mann næstum því til að trúa spurningum eins og "eru fleiri samfylkingarmenn á þínu heimili" og "gætirðu hugsað þér að kjósa samfylkinguna". Ég hef reyndar nokkuð góða heimild fyrir þeirri fyrri. Og þó, líklega er búið að yfirfæra þetta á VG núna í stað Samfylkingarinnar.

Í framhaldi af þessu geri ég þá kröfu á þá aðila sem gera skoðanakannanir að allar aðferðafræðilega upplýsingar fylgi með þeim. Og þá meina ég allar.

RB


Upphafið

Vonandi ekki að endinum samt.

Í gegnum tíðina hef ég haft margt að segja en oft haldið því fyrir mig. Nú ætla ég að gera heiðarlega tilraun til að breyta þessu og hef því opnað mína eigin rafrænu dagbók, sem flestir aðrir kalla blogg, en ekki ég auðvitað. Ég er nefnilega stundum á öndverðum meiði við fjöldann og þegar upp er staðið þori ég því.

Ég kem til með að tjá hugsanir mínar og skoðanir hér á komandi mánuðum og vonandi árum. Þar sem ég er ákaflega pólitískur skráði ég þessa dagbók mína undir flokknum stjórnmál og samfélag en mun örugglega ekki einskorða mig við þann flokk. Ég vonast til að læra á þetta kerfi smátt og smátt og þá mun flóran verða fjölbreyttari.

En nóg sagt í bili, meira kemur síðar.

RB


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband