Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Viðtal dagsins

Viðtal dagsins, sem ég var að lesa í kvöld er úr Feyki þann 31.maí síðastliðinn. Viðtalið er við Einar K. Guðfinnsson, nýjan landbúnaðarráðherra og áframhaldandi sjávarútvegsráðherra. Þetta er hin ágætasta lesning, spurningar með ágætum og svör ráðherrans í stíl við það. Áhugaverð er frásögn Einars af dvöl sinni á Skörðugili á unglingsárum en þá dvöl segir hann sér vera ómetanlega. Einar hefur alltaf haft nokkrar taugar til Skagafjarðar, sjálfsagt bæði vegna þessarar dvalar sem og skyldleika sinn við Harald Júl. kaupmann á Sauðárkróki (og þá auðvitað Bjarna Har. sem rekið hefur búð föður síns í áratugi).

Það er farið vítt yfir sviðið og meðal annars segir Einar að hann ætli ekki að taka þátt í því að landbúnaðinum sé kálað. Gott að vita af því að landbúnaðarráðherrann sjálfur ætlar sér ekki í sláturhlutverk landbúnaðarins.

Um samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir Einar

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið höfuðpólar á mörgum svæðum , almennt á landsbyggðinni raunar. Við glímdum oft við Framsókn um forystuhlutverkið í landsbyggðarkjördæmunum mörgum hverjum. Stuðningsmenn okkar og Framsóknarflokksins litu þannig á að þar kristallaðist hinn pólitíski ágreiningur. Þetta kom hins vegar ekki í veg fyrir að við áttum langt og gríðarlega árangursríkt samstarf. Við einhentum okkur hins vegar í verkin og sýndum hvorum öðrum traust.

Og ennfremur hefur hann eftir vini sínum um núverandi samstarf

Það sagði við mig vinur minn að hann æfi sig nú hvern dag á því að tala vel um Samfylkinguna. Það hefði reynst sér dálítið erfitt fyrst, en nú væri það allt að koma!

En gott viðtal og ég hvet menn til að lesa það komist menn yfir eintak af Feyki.


Mesti umhverfisvandi Íslands

Ég las í blaðagrein eftir Þorvald Gylfason fyrir nokkru (annað hvort í Fréttablaðinu eða Blaðinu) að mesti umhverfisvandi Íslands væri lausaganga búfjár.

Ég staldraði lengi við þessi orð hans og hugsaði svo með sjálfum mér að þá höfum við nú aldeilis verið að horfa í vitlausa átt undanfarin ár í þessum málum en svo leist mér betur á þá niðurstöðu mína að það væri nú aldeilis gott að Þorvaldur væri nú ekki umhverfisfræðingur.


Rétt

Kristján Möller, okkar nýi samgönguráðherra keyrði mjög á þessu máli fyrir kosningarnar í vor og þá ekki minnst hér í Þingeyjarsýslum. Var reyndar ákaflega harður á þessu og sagði ekki annað koma til greina en gera gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax.

Ég veit um nokkra sem kusu Sf. eingöngu vegna þessara orða hans og þeir sömu eru ekki par hrifnir af hans fyrstu orðum og skrefum í málinu eftir embættistöku sína. Það sem er síðan alvarlegra fyrir hann og hans flokk er síðan hversu æfir margir harðir Samfylkingarmenn sem ég hef heyrt í eru með einmitt hans yfirlýsingar í málinu eftir að hin nýja ríkisstjórn tók við og hann fékk það embætti sem áhrifavaldið í þessum efnum hefur.

Byrjar ekki gæfulega finnst manni.


mbl.is Segir kosningaloforð um Vaðlaheiðargöng svikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í tíma töluð

Því er nú þannig farið með öll kerfi að þau hafa bæði kosti og galla en þegar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp á sínum tíma var það nauðsynleg aðgerð á allan hátt. Nú er hins vegar þannig komið að ákveðnir gallar kerfisins eru farnir að slaga hátt upp í það sem jákvætt er í því og þá er ekki seinna vænna að lagfæra úr sér gengið kerfi að breyta til batnaðar.

Ég held að þessi leið, sem Björn Ingi talar hér fyrir um sé góður grundvöllur til þeirrar leiðréttingar sem til þarf og geti verið bæði fær og til hagsbóta fyrir langflesta aðila.

Þessi ræða Björns Inga var mér sérstaklega vel að skapi.

Til hamingju með daginn sjómenn.


mbl.is Björn Ingi: Viðbót í aflaheimildum síðar fari til svæða en ekki kvótaeigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætt

Þá getur maður farið að rýna reglulega í Egils silfrið en maður hefur nú ekki nennt að horfa mikið á það á vefnum í takmörkuðum gæðum.

Annars er það bara hið besta mál að þáttur sem þessi fái meiri útbreiðslu og vonandi verður lagt almennilega í umgjörðina en samt þannig að aðalatriðið, það er umræðurnar og rýni Egils verði ekki útundan fyrir bragðið.

Athyglisvert samt að Stöð tvö er ekkert á því að sleppa Agli með góðu þrátt fyrir að hann sé laus mála sinna hjá þeim.


mbl.is Egill sagður á leið til Sjónvarpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsing dagsins

Þar sem ég reikna með að einhverjir íbúar Þingeyjarsveitar lesi hérna hjá mér þá er ekki úr vegi að nota vettvanginn til virkjunar íbúalýðræðis.

Hafi einhver áhuga á að kynna sér drög að aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2008-2020 þá getur hinn sami sett sig í samband við mig eða skrifstofu Þingeyjarsveitar til að fá drögin send til sín. Athugið að um er að ræða drög að greinargerð sem eiga eftir að fá frekari vinnslu hjá íbúum sveitarfélagsins en þeir eru sérstaklega hvattir til að kynna sér þessi drög og koma fram með ábendingar og hugmyndir er þau varða.


Boðskapur dagsins

Nú er ein fermingarhelgi dagsins afstaðin og margur unglingurinn tekinn í fullorðins manna tölu. Ég ætla þó ekki að ausa úr viskubrunni mínum til þeirra heldur hafa eftir smá glens úr handraða kirkjunnar manna á þessum tímamótum en auðvitað brýna prestar fermingarbörnin til dáða á þessum miklu tímamótum.

Mér var sagt af einni slíkri brýningu í gær en þar var reifað hvað ungmennin gætu uppskorið á gifturíkri ævi sinni, sem framundan væri. "Þau gætu meðal annars orðið landbúnaðarráðherrar og bjargað landbúnaðinum úr klóm Samfylkingarinnar". Þetta uppskar viðbrögð viðstaddra var mér tjáð.

Prestar landsins hafa jú alltaf verið pólitískir og glettnir að auki.


Smávægileg sundurlaus hugleiðing

Umræða um þátttöku fólks í stjórnmálum fer marga vegi á leið sinni um þjóðfélagið og lítur víða við. Sumt er gott og gilt en annað er fram sett af ómálefnaleika grunnrar hugsunar með eða án tilgangs. Eitt af því sem ég hef verið að velta fyrir mér síðustu daga er hvernig ungt fólk í stjórnmálum, fær stundum umræðu um sig án tilvísunar í neitt annað en hugrenningar eða hugarburð, sem á óræða rót í samfélaginu. Þetta er framagirnisumræðan þar sem haldið er á loft nöfnun ungra stjórnmálamanna sem eiga að hafa valið sér stjórnmálaflokk eða hreyfingu með tilliti til þess hvar frami þeirra gæti verið sem hraðastur og mestur.

 Þessir ungu stjórnmálamenn eru fólk sem, að mínu viti, hefur verið treyst til ýmissa hlutverka og ábyrgðar innan sinnar hreyfingar til að veita málefnum framgang og styrkja starfið. Ég er síðan fyllileiga þeirrar skoðunar að fólk njóti verðleika sinna þegar upp er staðið á einhvern hátt og því geti þeir, ef einhverjir eru, ekki komist upp með það að hafa eingöngu slíka nálgun á starfi sínu.

Undanfarin misseri hefur mér fundist bera meira á þessu en áður og er það miður. Mér virðist enginn vera saklaus í þessum efnum því ég heyri þetta sagt um fólk í öllum flokkunum. Í grunninn sagt finnst mér að fólk ætti að gefa þessum einstaklingum það að þeir séu að fylgja lífsýn sinni og velji sér stað til starfa innan stjórnmálahreyfinga eftir því. Ég hefði haldið að í raun væri enginn staður auðveldari en annar til metorðaklifurs ef allt annað vantar.

Svo er reynar hitt sem til staðar er, að stundum hallar metorðastiginn upp að röngu húsi eins og sagt var við mig nýlega.


Kemur ekki á óvart

Það að Sturla hafi verið látinn taka pokann sinn sem ráðherra kemur svo sem ekki á óvart. Að hluta til hefur hann staðið örlítið í vegi Geirs innan flokksins og nú var því lag að losa um hann þar sem norðvesturkjördæmi var eina kjördæmið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi frá því fyrir fjórum árum. Þar fyrir utan hefur Sturla ekki verið neitt sérstaklega vinsæll innan flokksins á landsvísu og nokkur óánægja með hann sem ráðherra.

En það virðist vera stórhættulegt að vera samgönguráðherra hjá Sjálfstæðisflokknum, þaðan liggur leiðin í stól forseta Alþingis og síðan úr stjórnmálum.

Ætli þetta fylgi yfir á KLM líka?


mbl.is Sturla: Ósáttur við að hverfa úr samgönguráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ætli....

... Sjálfstæðisflokknum gangi að ráða við Samfylkinguna á sterum eins og sagt var frá í kvöldfréttatíma RÚV í kvöld svo ég tali nú ekki um, nota bene, eftir að hafa blásið lífi í Frankenstein?

Algjör snilld.


mbl.is Fundur stendur enn yfir á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband