12.4.2007 | 21:03
Ég á í vandræðum
Já, ég á alveg í stökustu vandræðum með hana Salbjörgu mína þessa dagana og það á algjörlega óvæntan en frekar skoplegan hátt. Þetta þriggja ára stýri vill nefnilega alltaf vera að bursta tennurnar. Alveg ótrúlegt, í það minnsta átta sinnum á dag. Ég hef nú frekar búið mig undir það að ég gæti einhverntímann átt í vandræðum með að fá hana til að bursta en svo er víst ekki.
Það er í sjálfu sér ekkert mikið að þessu nema þá hvað fer mikið tannkrem í þetta og það er nú ekki gefið frekar en annað á þessum síðustu og verstu tímum.
Þetta hlýtur að líða hjá, eða er það ekki annars?
12.4.2007 | 19:01
Ekki traustvekjandi
Það ætlar ekki af þeim að ganga, forsvarsmönnum framboðs eldri borgara og öryrkja. Ég segi nú ekki annað.
Hér er það sem Haukur bloggvinur minn hefur um málið að segja.
![]() |
Ekkert úr samstarfi Baráttusamtakanna og Höfuðborgarsamtakanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.4.2007 | 11:38
Sagan endurtekur sig
Ef ég man rétt þá var Jón Sigurðsson kallaður til af Jóni Baldvin á sínum tíma fyrir kosningarnar 1987. Þá var rætt um Jón Sig. sem helsta tromp Alþýðuflokksins og átti að vera dæmi um hinn nýja Alþýðuflokk og var gert til að vinna flokkinn út úr krísu undangenginna ára og gera nýja Alþýðuflokkinn að hinum stóra jafnaðarmannaflokki sem var til staðar á norðurlöndunum öðrum en Íslandi. Þetta gekk ekki sem skyldi en Jón Baldvin gat þó glaðst yfir því að Alþýðuflokkurinn varð loksins stærri en Alþýðubandalagið í kosningunum 1987.
Nú er er enn leitað til Jóns Sigurðssonar af jafnaðarmönnum í krísu og reynt að nota trúðverðugleika og ágæti hans til björgunar Samfylkingarinnar sem var auðvitað stofnuð til að taka við hlutverki hins stóra jafnaðarmannaflokks líkt og tilefnið var ´87.
Svona endurtekur sagan sig alltaf. Gæti þó trúað að það sem yrði öðruvísi nú en þá væri að VG verði stærri flokkur en Samfylkingin í þessum kosningum svo maður beri þessa núverandi flokka saman við nokkurs konar forvera þeirra í kosningunum ´87.
Sniðugt.
![]() |
Gagnrýnir hringlanda og ósamstillta hagstjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.4.2007 | 11:16
Enn um skoðanakannanir
Ég hef áður lýst skoðun minni á fjölda og notkun skoðanakannana nú í aðdraganda kosninga og finnst þar eitt og annað mega vera öðruvísi.
Á hinn bóginn er ég algjörlega sjúkur í tölur og finnst heimur talnanna vera ákaflega skemmtilegur. Skoðanakannanirnar gefa manni tækifæri til að ástunda það áhugamál að leika sér að tölum og reyna að lesa þær eftir þeim hugargæðum sem manni er gefið í vöggugjöf.
Núna hef ég verið að bera saman og skoða kannanir í Suðurkjördæmi, annars vegar könnun Capacent-Gallup og hins vegar könnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Stöð 2. Sú fyrri er síðan í byrjun apríl en sú síðari var birt í gærkvöldi.
Fyrst skoðar maður hvaða misræmi er á milli þeirra en það er nokkuð. Hreyfing er á fylgi allra flokka á milli þeirra. Framsókn er ríflega 2% hærri í gær, Sjálfstæðisflokkur er 4,5% lægri í gær, Samfylking er 8,7% hærri í gær, VG er 4,9% lægri í gær, Frjálslyndir 1,7% lægri í gær og Íslandshreyfingin er 1,4% lægri í gær. Þegar ég segi í gær á ég við könnun Stöðvar 2. Hreyfingar á fylgi Framsóknar, Frjálslyndra og Íslandshreyfingarinnar eru innan vikmarka held ég alveg örugglega eða í það minnsta nálægt því. Mikil breyting er hins vegar á fylgi Samfylkingar og nokkur breyting hjá Sjálfstæðisflokki og VG.
Það næsta sem maður hugsar er síðan forsendur og útreikningar í könnunum eins og til dæmis hvað var úrtakið stórt, svarhlutfall og hve margir tóku afstöðu en það gefur manni smá mynd af áreiðanleika. Svo skoðar maður vikmörk ef maður kemst í þau. Ég vil fá sem mestar upplýsingar með könnunum einmitt til að geta metið áreiðanleika þeirra.
Ég hef síðan alltaf haldið því fram að erftitt sé að fá góða mynd í landsbyggðarkjördæmunum vegna þess hve fylgi flokkanna getur verið staðbundið. Það var komið aðeins inn á þetta hjá RÚV í Norðvestur kjördæmi í gær þar sem þetta var aðeins rætt.
Það gæti verið áhugavert rannsóknarefni fyrir aðferðafræði pólitískra skoðanakannana á Íslandi að komast að þessu sem og að finna hinn, að því að virðist, "fasta bias" í könnunum að Sjálfstæðisflokkurinn virðist oftast fá lakari útkomu á kjördag en í könnunum og Framsóknarflokkurinn fær nánast alltaf betri útkomu á kjördag en í könnunum.
Þetta er svona það helsta í þessum efnum í dag en ég hef komið mér upp ágætis heimatilbúnu reiknilíkani (excel) til að leika mér að þessum tölum og prósentum. Auðvitað til gamans og algjörrar tímaeyðslu og á skjön við þá skoðun mína að kannanir spili of stóran sess í kosningaumræðunni nú um stundir.
11.4.2007 | 22:05
Til hamingju
Það er ekki logið upp á hann Völla. Alltaf verið uppfullur af hugmyndum, haft kraftinn í að framkvæma þær og verið óhræddur.
Man eftir því í gamla daga að hann var driffjöðurin í bíómynd sem gerð var í skólanum og maður fékk að leika í. Alveg óborganlegt, sem og fleira sem hann tók sér fyrir hendur.
Íslendingar koma sér alltaf áfram, alls staðar. Til hamingju.
![]() |
Íslensk matreiðslubók fær verðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2007 | 16:50
Aðeins verið að ranka við sér
Þær hugmyndir sem kynntar voru þarna virðast vera dæmi um ágætt framtak til að byrja á. Vonandi er það þannig að þetta séu fyrstu skrefin og síðan verði haldið áfram á sömu braut í framtíðinni. Held til dæmis að það væri ráð að gera almenningssamgöngurnar gjaldfrjálsar fyrir alla þó það sé nokkur biti fjárhagslega séð.
Annars vakti mesta athygli mína þátturinn varðandi gróðursetningu trjáa í landi borgarinnar. Bara eins gott að Gunnar Birgis. komist ekki í þau
![]() |
Ókeypis í bílastæði fyrir vistvæna bíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.4.2007 | 12:55
Urðun og nýting
Ég bendi mönnum á það sem verið er að gera í Skagafirði varðandi þessi mál og var sýnt í fréttum RÚV á mánudagskvöldið. Einnig hefur Norðlenska verið að kanna það að farga sláturúrgangi og jafnvel öðrum lífrænum úrgangi á sama eða svipaðan hátt.
Staðreyndin er hins vegar sú að við Íslendingar erum ekki að standa okkur á þessu sviði. Kannski eru of fáir íbúar í landinu þannig að víðáttan okkar geri það að verkum að við náum ekki tengslum við urðunarmálin og sorpmál í heildina séð.
Meiri flokkun og meiri endurvinnslu takk fyrir.
![]() |
Kröfur um minni urðun munu umbylta sorphirðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2007 | 19:56
Af hverju ....
... getur fólk ekki séð satíruna í þessu? Ég hef alltaf haldið að við Íslendingar værum bæði nokkuð fyrir kaldhæðni og að við værum með nokkurn húmor til að bera.
Annars er merkilegt hvað margir hafa skoðað greinina og brugðist við henni, sýnir kannski hvað við erum þó a.m.k. tæknivædd þjóð þó svo að húmorinn þorni upp.
![]() |
Mikil viðbrögð við grein háskólaprófessors um sprengjuárás á Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.4.2007 | 18:57
Stjórnmálaforingjarnir í gær
Ætli maður verði ekki að líta á það sem formlegt upphaf kosningabaráttunnar sjónvarpsþáttinn með forsvarsmönnum stjórnmálaflokkanna á RÚV í gærkvöldi, ég geri það í það minnsta þó svo að eitthvað hafi krælt á henni undanfarnar vikur.
Foringjarnir voru bara nokkuð líflegir í gærkvöldi en umfram allt eiginlega málefnalegir út í gegn og var sérstaklega ánægjulegt að sjá það enda kominn tími til. Eitt vakti athygli mína í byrjun en það var að fulltrúi framboðs eldri borgara og höfuðborgarsamtakanna var ekki til staðar en ég hélt að þau samtök væru ekkert mikið styttra á veg komin heldur en Íslandshreyfingin í sínum málum og hefðu því átt seturétt þarna fyrst Ómar var á staðnum.
Eitt og annað var svo sem athyglisvert sagt og sett fram eins og til dæmis með stjórnarmynstur eftir kosningar þar sem Geir gaf það vel í skyn að ekki yrði um áframhaldandi samstarf núverandi stjórnarflokka þó meirihlutinn héldi. Þá lokaði Jón ekki á samstarf við VG og Samfylkingu eins og margir hafa látið liggja að undanfarið. Þar var meira að segja smá þreifingar milli Geirs og Steingríms fannst manni. Annars stóðu þessir þrír foringjar sig vel fannst mér, helst að Steingrímur dalaði í restina og að Jón væri full kurteins þegar hann vildi segja eitthvað.
Ingibjörg virkaði óörugg og eins og hún héldi að alltaf væri verið að gleyma henni í umræðunum, samt var algengasta setningin hjá stjórnendunum "nú skulum við leyfa Ómari að komast að". Annars komst Ómar ágætlega frá sínum hlut í byrjun þó svo að hann virkaði svolítið hátt uppi. Þegar talið barst í átt frá umhverfismálum var hann samt frekar óviðbúinn eitthvað og ekki með hlutina alveg á takteininum. Guðjón Arnar virkaði reiður og pirraður og átti erfitt um vik í innflytjendaumræðunni og fannst mér hann ekki vera í takt við það sem á undan er gengið þar. Virkaði síðan betur á mig þegar þeim hluta sleppti. Þó var eftirtektarvert hve snöggur hann var upp við Ómar og hefur mér fundist greinilegt undanfarið að mikil spenna er á milli Frjálslynda flokksins og Íslandshreyfingarinnar. Virðist mér sem þar stefni í skotgrafastíl í gegnum næstu vikur.
Þáttastjórnendur stóðu sig síðan með prýði og umgjörðin og heildarmynd þáttarins var bara hreinasta afbragð.
9.4.2007 | 15:53
Góð ferð í Skagafjörðinn
Það er alltaf jafn gaman að koma í Skagafjörðinn og hitta þar skemmtilega vini og ættingja (nema auðvitað ofur Vinstri Græna Kolbein Helga frænda minn sem alltaf er jafn rækilega út úr heiminum). Minna er um skrif en venjulega þar sem tölva foreldra minna er af þannig árgerð að ég held að hún sé síðan áður en tölvur voru fundnar upp og styður ekki javascript þannig að ég get ekki skráð mig inn til skrifta. Skrapp aðeins annað til að setja smá inn þannig að smá líf sé. Annars hef ég hitt óvenju marga í ferð minni núna og rætt eitt og annað við fólk. Stjórnmál auðvitað nokkuð þó mönnum finnist þau fara merkilega lágt á svæðinu ennþá þrátt fyrir tiltölulega stuttan tíma til kosninga. Eitt stendur upp úr þó og það er að ég finn fyrir óánægju með VG í pólitísku umræðunni sem ég á við fólk. Kannski eitthvað nánar um það síðar, hver veit.
Annars höfum við það gott, vorum á Sauðárkróki í nótt en förum kannski í Blönduhlíðina í kvöld.
Það held ég.