Stjórnmálaforingjarnir í gær

Ætli maður verði ekki að líta á það sem formlegt upphaf kosningabaráttunnar sjónvarpsþáttinn með forsvarsmönnum stjórnmálaflokkanna á RÚV í gærkvöldi, ég geri það í það minnsta þó svo að eitthvað hafi krælt á henni undanfarnar vikur.

Foringjarnir voru bara nokkuð líflegir í gærkvöldi en umfram allt eiginlega málefnalegir út í gegn og var sérstaklega ánægjulegt að sjá það enda kominn tími til. Eitt vakti athygli mína í byrjun en það var að fulltrúi framboðs eldri borgara og höfuðborgarsamtakanna var ekki til staðar en ég hélt að þau samtök væru ekkert mikið styttra á veg komin heldur en Íslandshreyfingin í sínum málum og hefðu því átt seturétt þarna fyrst Ómar var á staðnum.

Eitt og annað var svo sem athyglisvert sagt og sett fram eins og til dæmis með stjórnarmynstur eftir kosningar þar sem Geir gaf það vel í skyn að ekki yrði um áframhaldandi samstarf núverandi stjórnarflokka þó meirihlutinn héldi. Þá lokaði Jón ekki á samstarf við VG og Samfylkingu eins og margir hafa látið liggja að undanfarið. Þar var meira að segja smá þreifingar milli Geirs og Steingríms fannst manni. Annars stóðu þessir þrír foringjar sig vel fannst mér, helst að Steingrímur dalaði í restina og að Jón væri full kurteins þegar hann vildi segja eitthvað.

Ingibjörg virkaði óörugg og eins og hún héldi að alltaf væri verið að gleyma henni í umræðunum, samt var algengasta setningin hjá stjórnendunum "nú skulum við leyfa Ómari að komast að". Annars komst Ómar ágætlega frá sínum hlut í byrjun þó svo að hann virkaði svolítið hátt uppi. Þegar talið barst í átt frá umhverfismálum var hann samt frekar óviðbúinn eitthvað og ekki með hlutina alveg á takteininum. Guðjón Arnar virkaði reiður og pirraður og átti erfitt um vik í innflytjendaumræðunni og fannst mér hann ekki vera í takt við það sem á undan er gengið þar. Virkaði síðan betur á mig þegar þeim hluta sleppti. Þó var eftirtektarvert hve snöggur hann var upp við Ómar og hefur mér fundist greinilegt undanfarið að mikil spenna er á milli Frjálslynda flokksins og Íslandshreyfingarinnar. Virðist mér sem þar stefni í skotgrafastíl í gegnum næstu vikur.

Þáttastjórnendur stóðu sig síðan með prýði og umgjörðin og heildarmynd þáttarins var bara hreinasta afbragð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband