Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.3.2007 | 14:32
Eldhúsdagsumræður
Ætli maður ráðstafi ekki kvöldinu í að horfa og hlusta á eldhúsdagsumræðurnar, svona eftir að stelpurnar sofna að minnsta kosti.
Það er aðallega tvennt sem ég ætla að heimta mér að fá að sjá í þessum umræðum. Annars vegar að fólk sé málefnalegt og leggi hlutina upp út frá stefnu sinni og hins vegar vil ég fá að sjá hvaða atriði það eru sem flokkarnir leggja upp með sem kosningamál fyrir Alþingiskosningarnar í vor. Mér finnst að kjósendur eigi rétt á því að svo sé en ekki verði karpað um einstök mál.
Svo verð ég að segja svona fyrir minn flokk hefði ég viljað sjá Jónínu Bjartmarz tala. Það hefði alveg mátt skipta ræðutímanum í þriðju umferð á milli hennar og Birkis Jóns. Þjár mínútur eru nú kannski full stuttur tími samt sem áður þannig að þessu er ekki við komið.
Það held ég.
![]() |
Eldhúsdagsumræður á Alþingi í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2007 | 21:05
Stjórnmálaástandið í dag
Nú er um nokkuð liðið síðan ég fjallaði eitthvað um ástand stjórnmálanna eins og það blasir við mér. Kannski finnst öllum það í lagi en auðvitað læt ég það ekki á mig fá því eins og sagt er svo oft hér í þessum heimi, mín síða-mínar reglur (sumir eru reyndar mun alheimssinnaðri heldur en ég og slá um sig með útlensku og nota þá gjarnan "my way or the highway" en ég fell ekki í það ég er svo þjóðlegur).
Ég hef áður rætt ástandið út frá skoðanakönnunum og mun gera það áfram. Ég hef hins vegar alltaf haldið því fram að í þeim sé skekkja, mismikil reyndar eftir því hver framkvæmir kannanirnar og á hvaða tíma. Eins vil ég halda því fram að skoðanakannanir í landsbyggðarkjördæmunum þremur séu mun óáreiðanlegri heldur en í höfuðborgarsvæðiskjördæmunum þremur. Fylgi flokkanna er nefnilega að dálitlum hluta staðbundið á landsbyggðinni, svona eins og staðbundið veðurfar fyrir þá sem slíkt gerst þekkja. Kannanir ná aldrei, að mínu mati, utan um slíkt. Það er einfaldlega ógjörningur því þá þyrfti að hafa í huga alls konar staðbundnar breytur sem einu sinni eru ekki öllum kunnar. Þannig er nú það.
Fólk í kringum mig veit mína stöðu í stjórnmálum og nokkuð margir ræða stjórnmál við mig yfirleitt. Flest er það fólk í landsbyggðarkjördæmunum en reyndar nokkuð dreift um þau. Ég tel mig reyndar ekki vera með stóra sannleik í þessu frekar en öðru en ég held að einhverjar vísbendingar sé þó að finna, líkt og með skoðanakannanirnar. Að þessu hef ég vikið áður t.d. með inngöngu Kristins H. í Frjálslynda flokkinn.
Undanfarið hef ég fundið þrennt aðallega á viðmælendum mínum og það viðkemur þá þremur stjórnmálaflokkum.
Fyrst er þar að nefna minn eigin flokk, Framsóknarflokkinn. Niðursveifla hans hefur verið öllum ljós síðustu misseri og ljóst var orðið að eitthvað var orðið bogið við hlutina. Nú fór það svo eins og allir vita auðvitað að fyrrverandi formaður flokksins tók þá ákvörðun síðasta sumar að axla ábyrgð sína varðandi fylgistap flokksins í sveitarstjórnarkosningunum (já ég stend við þetta, þú mátt hafa þína skoðun (þá er hún bara röng)). Jón var kosinn nýr formaður og hefur hann unnið vel í málum flokksins síðan. Einhverjum hefur þó fundist hann vera full lítið áberandi og farið hægt af stað, jafnvel mér. Staðan núna er þó sú að eftir flokksþingið hefur heldur færst fjör í hlutina og mjög jákvæð viðbrögð hef ég fengið í hans garð sem og flokksins, enda tel ég að stærsta fréttin af flokksþinginu var sú sem ekki var sögð í fjölmiðlum heldur hver og einn flokksmaður gekk með á sínar heimaslóðir. Ég hef heyrt í nokkrum mönnum sem voru orðnir afhuga flokknum en eru nú að snúa sér til hans aftur.
Í annan stað hef ég fundið fyrir því að fólk, sem hefur stutt Samfylkinguna og er Samfylkingarfólk frá upphafi vega (eða stofnun hennar) er orðið hálf ráðvillt satt best að segja. Því fellur illa að sjá hvernig flokkurinn kemur út í skoðanakönnunum undanfarið og leita skýringa á því, eðlilega. Því finnst að vígstaðan ætti að vera sterkari og tala um að tækin séu til staðar en þau séu ekki nýtt og það að þau séu ekki nýtt sé hægt að herma upp á flokksforystuna. Það á einnig erfitt með að kyngja því að það virðist ekki vera um heilt gróið í flokknum frá formannskjörinu um árið. Einn gekk svo langt að segja að aldrei hafi verið bornar jafn miklar væntingar til tilvonandi formanns og aldrei verið eins lítil innistæða fyrir því. Stór orð, en ég fullvissa ykkur um að þau eru ekki mín þannig að það þýðir ekkert að koma með einhver eineltisskot á mig (ég veit hvernig það er og það þýðir ekkert að senda þau skot á mig). Aðrir tala um óeiningu og það sé eins og "norður" þingmennirnir séu ekki í flokknum til annars en fylla upp í töluna.
Þriðja og síðasta tilfinning mín í kjölfar samtala minna er um Steingrím J. Sigfússon og Vinstri Græna (ég tek það fram að ég gisti hjá tveimur öfga Vinstri Grænum þegar ég var á flokksþinginu og þeir létu mig hafa minna pláss en fangaklefa, 1,5m2 herbergi (og lásu yfir öxlina á mér þegar ég var í tölvunni)). Einn nefndi við mig utandagskrárumræðu um þjóðlendumálin í þinginu um daginn og fannst flokkurinn ekki standa sig þar. Mælti í framhaldi af því að þetta væri eiginlega að verða argasti þéttbýlisflokkur sem þyrði ekki að standa á sannfæringu sinni. Önnur atriði en þjóðlendur voru þarna að baki auðvitað líka. Einnig hef ég heyrt í samtölum að mönnum líki illa að sjá hjá sínum flokki sífellt meiri öfgar, bæði í málflutningi og tillögugerð. Þá hafði einn, sem fallin var frá stuðningi við VG þau orð um formanninn að hann væri eiginlega í fasi öllu orðinn einræðisherralíki.
Það sem ég held síðan hér í lokin, að komi til með að breyta stjórnmálaástandinu þangað til ég skrifa minn næsta pistil um það, eru nokkur atriði. Og tek ég þau stuttlega saman hér á eftir.
Fyrst ber þar að telja kosningarnar í Hafnarfirði varðandi deiliskipulagið varðandi stækkun álversins þar. Á hvorn veginn sem sú kosning fer held ég að hún komi alltaf til með að hafa neikvæð áhrif á Samfylkinguna. Verði hins vegar tillagan samþykkt held ég að það hafi neikvæð áhrif á fylgi VG. Undarlegt? Held ekki, mitt mat. kosningar þessar hafa ekki raunveruleg áhrif á fylgi annarra flokka.
Í öðru lagi fer að kastast verulega í kekki á milli Samfylkingar og Vinstri Grænna á næstunni. Þingið er að klárast fljótlega og þá þarf ekki að hafa neina háttsemi vegna starfa þar. Ekki að það hafi alltaf verið svo sem. Samfylkingu rennur það ákaflega til rifja að sjá VG sem stærri flokk í könnunum og þar með að missa jafnvel af forsætisráðherrastól í kjölfar kosninga. Þetta á sér reyndar lengri og dýpri rætur vegna átaka Alþýðuflokks og Alþýðubandalags á síðustu öld.
Það þriðja og síðasta tel ég vera að áhrif Jóns Sigurðssonar og mörkunar hans á Framsóknarflokkinn fari að segja til sín næstu vikur og á þann veg að fylgið sígi hægt og rólega upp á við á næstunni. Ég er ekki að tala um stór stökk heldur rólega en samt upp á við.
Það held ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.3.2007 | 20:11
Okur og innflytjendur
![]() |
Magnús Þór og Jón Magnússon í fyrstu sætunum í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.3.2007 | 12:52
Flóttamenn
Þetta framlag okkar, að taka á móti flóttamönnum er mikils vert. Þó við séum ekki stór þjóð getum við lagt eitthvað að mörkum og það á að vera í þessa átt, að hlúa að þeim sem heimsástandið hefur farið illa með. Það á að vera markmið okkar, bæði varðandi flóttamannaaðstoð sem og með rekstri friðargæslunnar.
Auðvitað eru mun fleiri verkefni til staðar og eiga þau að mínu mati að hafa þessa grundvallarhugsjón, að hlúa að og gera lífið bærilegra þeim sem þess þurfa vegna aðstæðna í sínu umhverfi.
Ákaflega mikilvægt er að umsjón með flóttamönnum þegar þeir eru komnir til landsins takist vel og þeim þannig gert sem þægilegast að aðlagast okkar samfélagi. Það er verkefni sem tekur langan tíma og verður að vera vel að því staðið. Það er í verkahring okkar allra.
![]() |
Tekið við flóttamannahópum árlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2007 | 21:26
Bókaormur
Þá er komið að því að gefa það endanlega út og viðurkenna í leiðinni fyrir sjálfum sér að maður er bókaormur, og það meira að segja harðsvíraður held ég að ég verði að segja.
Ég þurfti að réttlæta fyrir sjálfum mér fyrir og um helgina þessar bækur sem voru hér og þar um húsið. Þær voru á og í borðum, hálfar út úr hillum og lágu ofná öðrum bókum þar og svona hér og þar satt best að segja.
Ég held ég hafi komist að því að ég er að lesa hátt í tuttugu bækur nú í einu en sú fyrsta sem ég er byrjaður á en á ólokið hóf ég lestur á fyrir einum þremur árum rúmum. Það kennir ýmissa grasa í þessum bókafjölda og kem ég sjálfum mér nokkuð á óvart með vali mínu en bækurnar eru eftirfarandi ef einhver hefur áhuga á að vita það:
Ísland í aldanna rás, bæði 19. og 20. öldin, Samfélagssáttmálinn, Saga Laugaskóla, Byggðasaga Skagafjarðar-III. bindi, Ritsafn Snorra Sturlusonar-I bindi, Landneminn mikli-ævisaga Stephans G., Axarsköft-ljóð Jóa í Stapa, Íslenska stjórnkerfið, Catechism of the catholic church, The rule of Benedict, Jón Arason biskup-Ljóðmæli, Áhrif mín á mannkynssöguna, Skírnir-180.ár-haust, Framtíð jarðar, Mótmæli með þáttöku.
Úff, ég þarf að fara að koma því í verk að klára að lesa þessar. Ég hef mér til málsbótar að hafa þó klárað að lesa nokkrar aðrar. Það er bara svo gaman að glugga aðeins í þær og svo er mismunandi eftir dögum hvað maður nennir að lesa. En svona getur maður verið eitthvað út úr heiminum stundum eða ætti maður að segja í eigin heimi.
Það held ég.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.3.2007 | 18:06
Þetta eru fréttir
Þetta líst mér vel á verð ég að segja. Langsamlega best væri ef mögulegt er að koma málinu í höfn með þessum hætti.
Þá er bara að vona að mönnum beri gæfa til þess að lenda þessu á þennan máta.
Maður fylgist spenntur með framvindu mála.
![]() |
Tillaga um stjórnarskrárbreytingu til skoðunar hjá formönnum flokkanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2007 | 09:53
Meirihluti með stjórnarskrárbreytingu
Alltaf er það nú svoleiðis að lögfróðir menn deila eða rökræða um merkingu og meiningu laga og lagaákvæða þannig að ekki kemur á óvart að svo sé einnig með títtnefnt auðlindaákvæði. Mest hefur auðvitað heyrst frá þeim aðilum sem eru á móti þessu ákvæði en við skulum einnig hafa í huga að það kom lagaprófessor að gerð þessa frumvarps. Einnig hefur maður heyrt í álitsgjöfum sem segja ákvæðið sé réttmætt og styrki sig einungis með tímanum.
Fyllilega er ljóst að andstaðan við ákvæði þetta er langmest í Sjálfstæðisflokknum en búið er að vinna þá andstöðu niður í þingflokki þeirra þannig að nú er lag að festa þetta í sessi.
Af þessari skoðanakönnun er ljóst að mikill meirihluti fólksins í landinu er hlynntur því að ákvæðið fari inn í stjórnarskrá þó svo að menn telji að ekki sé tími til þess nú. Þannig er nú málum farið að ef ekki verður af þessu nú tefst gildistakan um ein fjögur ár og ég held að það sé ekki rétt að láta það gerast heldur eigi að ganga frá þessu nú. Stjórnarandstaðan bauð lengra þinghald til að koma þessu í gegn um þingið og þá er um að gera að nýta það.
Í lokin er svo sem hægt að velta því fyrir sér hvort til séu óháðir sérfræðingar á Íslandi. Er landið hreinlega ekki of lítið til þess að svo sé. Eru ekki nánast allir þannig settir tengsla- eða skoðanalega séð að þeir geti ekki verið óháðir í eðli sínu? Smá heilabrot.
Það held ég.
![]() |
Tveir þriðju landsmanna segjast hlynntir stjórnarskrárbreytingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.3.2007 | 00:04
Allt í þá átt
Ljóst er að landsmenn eru farnir að leggja meiri rækt við umhverfi sitt nú á seinni tímum heldur en verið hafði. Þó hafa Íslendingar ákaflega sterka tengingu við náttúruna og umhverfið. Það skín í gegnum allar sagnir liðinna alda og birtist á ýmsan hátt, meðal annars í þjóðtrú okkar.
Hlutunum er þó þannig farið að bara það að vera manneskja hefur áhrif á umhverfið og það ber einnig að hafa í huga. Samspil manns og náttúru er síðan grundvöllur lífsgæða okkar, bæði í nútímanum sem og séð inn í framtíðina.
Vegur umhverfisverndar í stjórnmálum landsins hefur fengið sífellt meira vægi allt frá því að umhverfisráðuneytið var stofnað en þar var að verki Framsóknarflokkurinn. Sumir aðrir flokkar á þeim tíma töldu það nú vera óþarfa hinn mesta ef ég man rétt.
Það er mönnum samt sem áður hollt að fá brýningu í þessum efnum sem öðrum en við skulum samt sem áður gæta okkar að fara ekki út í öfgar með hlutina.
![]() |
Framtíðarlandið hvetur stjórnmálaflokkana til að leggja meiri áherslu á umhverfismál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.3.2007 | 21:49
Netlögga
Steingrímur er kominn á stjá, kíkið á meðfylgjandi skrá.
Þessu ber auðvitað að taka með varúð og umfram allt af mikilli kímni
11.3.2007 | 20:54
The Great Global Warming Swindle - Annar hluti
Ég setti inn hér á síðuna mína í vikunni smá innlegg varðandi ofangreinda heimildarmynd, sem ég sá á Channel 4 og fjallar um loftlagsbreytingar á jörðinni. Myndin heldur á lofti, í stuttu máli sagt, þeirri skoðun að ekki sé um að ræða hlýnun andrúmslofts af manna völdum.
Það var ekki ætlun mín að staðfesta sem heilagan sannleik það sem myndin hefur fram að færa heldur einungis að benda áhugasömum á að þarna voru rök í aðra átt heldur en mest hefur heyrst af á síðustu árum.
Það fannst mér áhugavert, verulega áhugavert því ég hef áhuga á rökræðum og ólíkum sjónarhornum á hluti og málefni líðandi stundar. Ég veit nefnilega ekki alla skapaða hluti og sérhæfi mig sjálfur í ákveðnum málefnum og viðurkenni síðan sérfræðikunnáttu annarra. Ég hef haft mjög gaman af þeim rökræðum sem farið hafa fram síðan, bæði á minni síðu sem og hjá Ágústi Bjarnasyni.
Það sem mig langar að bæta hér við er mótrakasíða (rök á móti þeim kenningum, sem settar eru fram í myndinni) á ensku.
Ég tel þetta vera ákaflega áhugavert efni enda snertir þetta okkur öll, bæði í nútíð og framtíð. Ein spurningin sem vaknar er auðvitað sú hvort sé svo til óháðir sérfræðingar sem vega og meta hlutina hlutlaust.