28.1.2009 | 21:29
Storu politisku mistøkin
Ein af verri mistøkum Framsoknarflokksins sidari ar og tha thvi midur um leid politiskrar søgu Islands voru gerd eftir kosningarnar 2003.
Tha var akvedid ad halda samstarfi vid Sjalfstædisflokkinn afram.
Thad var afleitt og hefur verid til storra skada.
En nu er timi hans a enda um sinn. Vonandi lengi.
28.1.2009 | 13:31
Ég styð Guðmund
Mér líst vel á það sem ég las í Feyki í morgun varðandi Guðmund Steingrímsson og pólitískar fyrirætlanir hans.
Ég styð hann heilshugar í forystuhlutverk fyrir framsóknarmenn í norðvestur kjördæmi.
Í honum sé ég koma félagslegar áherslur og samvinnuhugsjón.
Ég mun beita mér eins og ég frekast get í hans þágu í mínu gamla kjördæmi.
Svo er spurning hvort það sé ekki tími fyrir Magnús að stíga til hliðar?
27.1.2009 | 19:44
Viðbrigði
Það eru svolítil viðbrigði verður að segjast, að hafa Bandaríkjaforseta sem setur mannréttindi og umhverfismál á oddinn.
Þetta lofar góðu og sjálfsagt er hann heppinn hver var á undan honum varðandi samanburðinn þrátt fyrir gríðarlegar væntingar.
27.1.2009 | 08:33
Ekki hægt að fara neðar
Maður hefur oft séð slæmar útkomur úr skoðanakönnunum á Íslandi en þetta er ekki hægt að toppa (eða botna).
Liberal Alliance fær 0,0% í nýjustu skoðanakönnun Gallup.
Er einmitt að horfa á viðtal við Anders Samuelsen, formann þeirra og hann er bara sprækur. "Ertu heimskur eða ertu bara svona bjartsýnn" var innihald einnar spurningar spyrilsins.
En hann má eiga það að hann sagðist standa á sinni meiningu og færi þá bara niður með skipinu. Það er virðingarvert.
26.1.2009 | 22:27
Ofan á allt saman
Það var nú næg ringulreiðin í dag þó að forseti vor færi ekki að bæta í.
Hvað gengur manninum til eiginlega.
Er virkilega enginn sem getur hjálpað manninum við að skynja umhverfi sitt svona rétt á meðan hann þarf að gera eitthvað þannig að honum farist það úr hendi án þess að spila sjálfan sig sem stærstan?
26.1.2009 | 14:23
Alvarleg veruleikafirring
Það er að minnsta kosti eitt rétt sem Geir Haarde segir þessa dagana. Samfylkingin er í tætlum sem stjórnmálaflokkur þessa dagana.
Að slíta stjórnarsamstarfi vegna þess að forsætisráðherrastóllinn fékkst ekki er ótrúleg lágkúra miðað við það ástand sem ríkir í þjóðfélaginu. Um "Davíð burt" kröfuna hef ég áður tjáð mig.
Hvað með aðgerðir og stefnumörkun næstu mánuði? Var slíkt ekkert rætt?
Það er grafalvarlegt mál að haga sér svona.
26.1.2009 | 12:56
Og nú skal láta steyta!
Aðalkrafa Samfylkingar á hendur samstarfsflokknum er uppstokkun á æðstu stöðum kerfisins, eða eins og meiningin hjá þeim er, reka Davíð og félaga.
Þetta hefur verið þeirra aðalkrafa, kannski sú eina, síðan bankarnir hrundu. Það gerir eitthvað í kringum fjóra mánuði. Búið að fara með þetta á ríkisstjórnarfund og leka því þaðan út til að skapa meiri þrýsting og hvað eina. Svo á að láta steyta á þessu núna.
Sýndarmennska og ekkert annað. Vaknað upp við vondan fylgisdraum skoðanakannana. Ef þetta var svona mikið mál þá átti að láta steyta á þessu strax við hrun og taka síðan til við uppbyggingu. Ekki draga landsmenn á asnaeyrum fyrir flokkshagsmuni.
Þeir sem ætluðu Samfylkingunni eitthvert hlutverk við síðustu kosningar vita nú að slíkt var ekki fyrir hendi. Ég vonaði alltaf að það væri til félagslegt eðli hjá Samfylkingunni en nú sér maður það endanlega að það er óskhyggja, þó lengi hafi maður vonað.
24.1.2009 | 20:28
Óskir og veruleikinn
Ég óska engum þess að lenda í því áfalli að glíma við erfið veikindi. Formönnum stjórnarflokkanna óska ég hins vegar heilshugar góðs bata og krafta til að takast á við veikindi sín.
Hins vegar er veruleikinn sá að veikindi þeirra gera það að verkum að þau eiga að stíga til hliðar og láta aðra taka við, enginn er ómissandi. Að þrjóskast á móti því er óraunhæft í besta falli og sjái formennirnir það ekki sjálfir verða aðilar þeim nærri að leiða þeim það í ljós. Ábyrgð þeirra er einnig mikil.
22.1.2009 | 19:47
Af hverju þarf að kjósa?
Það er klárt mál að það þarf kosningar til Alþingis sem allra fyrst.
Sá þingheimur sem nú situr hefur nákvæmlega ekkert traust og lítið sem ekkert fram til málanna að leggja. Stjórnarliðar, sem ættu að hafa einhver ítök um stefnumörkun eru meira og minna týndir og tröllum gefnir.
Kosningar eru eina leiðin fyrir þjóðina til að fá það á hreint til hvaða aðgerða menn vilja grípa og þannig fengið örlítið skírari mynd á hlutina.
Það að boðun kosninga leiði af sér stjórnleysi eru dauð rök. Stjórnarfarslegt ástand verður ekki verra en það er nú, kosningar við fyrsta tækifæri breyta þar engu um.
Í framhaldi kosningaboðunar er síðan lífsspursmál að fá nýja ríkisstjórn, sem bregst við þörfum og vilja almennings og leitast þannig þó ekki væri nem örlítið við að vekja nýja tiltrú á samfélagið.
18.1.2009 | 18:53
Niðurstaða fengin
Þá er komin mynd á nýja forystu Framsóknarflokksins, einungis ritarakjör eftir. Reikna fastlega með því að Sæunn haldi því embætti reyndar.
Ég vil byrja á því að óska nýkjörnum formanni, Sigmundi Davíð, til hamingju með kjörið. Ég studdi reyndar Höskuld á móti honum og í raun finnst mér Höskuldur hafa verið sterkur í gegnum flokksþingið. En þetta er lýðræðisleg niðurstaða grasrótarinnar.
Því er ekki að neita að margir þungavigtarmenn flokksins hafa undanfarið stutt Pál Magnússon og þannig auðvitað reynt að leggja línurnar fyrir almenna flokksmenn.
En grasrótarframsóknarmenn láta ekki segja sér fyrir verkum heldur taka sínar ákvarðanir sjálfstætt og hafa í dag sýnt styrk sinn mjög sterklega á þeim nótum. Af því er ég hrifinn þó úrslitin hafi ekki verið mér fullkomlega að skapi.
Í varaformannskjörinu sá ég aldrei neitt annað í spilunum og þau úrslit koma mér ekki á óvart.
En það er ærið verk fyrir höndum fyrir nýja forystu. Það þarf að breyta til og mynda traust en traust fer fljótt og er seinunnið til baka. Þetta er fyrsta skrefið í þá átt en ákaflega mörg eru eftir og forystan þarf að sýna fljótt og örugglega hvernig þau skref verða tekin.
Séu áherlsurnar réttar fylgi ég heilshugar með, en séu þær það ekki liggur farvegurinn annars staðar.
Það þarf að sýna skýra ábyrgð, heiðarleika, gegnsæi og takast á við aðsteðjandi vanda á félagslegum samvinnugrundvelli.
Ég sé tækifæri.