Túlkun skoðanakannana enn og aftur

Nú er því slegið upp að Sjálfstæðisflokkurinn sé stærsti flokkurinn samkvæmt nýjustu könnun. Sé alveg heilu prósenti ofar Samfylkingu.

Auðvitað er ekki heil brú í þessu. Skekkjumörkin sjá til þess. Könnunin segir okkur ekkert meira en þrír stærstu flokkarnir séu á svipuðu róli, D, Sf og VG.

Og tölurnar á bakvið þetta? Rúmlega 400 sem taka afstöðu sem gefur D um 120 stig, Sf tæplega 120 stig og VG rúmlega 100 stig. Framsókn síðan í kringum 60 stig og Frjálslyndir tæplega 10.

Tölurnar eru líka bara þannig að þetta getur ekki gefið neitt annað en veika vísbendingu. Flokkarnir eru svo missterkir líka eftir landssvæðum og um fimmhundruð manns sem svara geta ekki gefið meira en vísbendingu.

En endilega ekki nota svona rangar fyrirsagnir um niðurstöður skoðanakannana takk fyrir.


Bréfið til Davíðs

Auðvitað komust fjölmiðlar yfir bréf forsætisráðherra til Davíðs.

Auðvitað las maður síðan bréfið eftir að það var birt.

Það er rétt að traustið er farið og það er líka rétt að það þarf að byggja það upp aftur.

En ég velti vöngum yfir seinasta hluta bréfsins. Þar er einungis vikið að Davíð en ekki hinum bankastjórunum tveimur.

Fengu þeir eins bréf sent?

Það eiginlega hlýtur að vera, annað væru stór mistök.


Viðskiptavinum banka skilað

Þegar Roskilde banke fór yfirum hér í Danmörku, eða því sem næst, þá var brugðið á það ráð að selja hann einum þremur öðrum bönkum, Nordea (sem við hættum viðskiptum við eftir áratuga viðskiptasamband), Spar Nord og Arbejdernes Landsbank.

Það sem þeir gerðu var síðan að velja úr viðskiptavini og "skila" síðan 6000 viðskiptavinum aftur til baka. Úrhrök sem þeir gátu ekki notað. Þar á meðal var einn ellilífeyrisþegi sem hafði verið viðskiptavinur RB í áratugi og meira að segja keypt hlutabréf í honum fyrir á annað hundarð þúsund DKR. Það missti hann auðvitað þegar bankinn fór yfirum og um leið varð hann varhugaverður viðskiptavinur.

Annars eru dönsku bankarnir ekkert að tvínóna við hlutina. Veit af einum sem fór yfir á reikningnum sínum í íslenska bankahruninu vegna tregðu við yfirfærslu frá Íslandi. Hann fékk hreinlega reisupassann. "Þegar þú færð millifærsluna þá gerir þú upp þína skuld hér og ferð héðan".

Harðir á sínu, kannski hefði íslenska kerfið mátt læra eitthvað af því danska.


Lag útrásarvíkinganna svokölluðu?


Ægisvald ráðherra burt

Ég vona svo sannarlega að um þessar mundir séum við að lifa breytingar í íslenskum stjórnmálum. Þeirra er virkilega þörf, stjórnsýslan þarf að vera gegnsærri og stjórnmálaumræðan síðan að snúast meira um málefni og leiðir en verið hefur.

Eitt af því fyrsta sem þarf að víkja er ægisvald ráðherra sem verið hefur við lýði.

Ég held að þetta stjórnarform, sem nú er tekið við, geti opnað augu stjórnmálamanna fyrir því að það er hægt, og það á auðvitað að vera hægt, að hafa áhrif án þess að vera ráðherra. Þannig getum við séð umræðuna og stjórnunina miklu frekar færast yfir í hugmyndafræði frá persónum og einstaklingum.

Framgangur málefna liggi til grundvallar en ekki framgangur einstaklinga eða persóna í ráðherraembætti þar sem valdið liggur. Ráðherrastarfið verði þannig verkefni við að útfæra stefnu og hugmyndir en ekki hreint og beint stjórnunarstarf einræðisherrans.

Þetta þarf að gera algjörlega skýrt í nýrri stjórnskipun.


Nú á að láta verkin tala

Ég er ánægður með að lendingu er náð og ný ríkisstjórn geti tekið við.

Minnihlutastjórn af þessu taginu er áhugaverð þróun á þingræðinu og jákvæð að mér finnst. Þetta er aðeins meira í anda norðurlandastjórnmála en verið hefur og er vel.

Næstu skref á þeirri braut er síðan mun víðtækara samráð í stærstu lagasetningu hvers árs, fjárlögunum.

Það eykur gegnsæi í meðferð opinberra fjármuna og minnkar hættu á spenasetningu sérhagsmuna og gæluverkefna.


Einn til

Magnús kom bara eins og kallaður og tók af skarið. Hættur í vor, eiginlega eins og ég bað um í stuðningsyfirlýsingu minni við Guðmunds Steingríms.

Þá eiga einungis Siv og Valgerður eftir að gefa upp fyrirætlanir sínar varðandi áframhald í stjórnmálum. Fyrir utan auðvitað Höskuld og Birki Jón en ég held að þeirra fyrirætlanir séu augljósar.

Það er mikil þörf fyrir endurnýjun, nýja starfskrafta sem eru ómengaðir af fyrri mistökum. Einhverja sem eru tilbúnir í að skapa traust og trúverðugleika í komandi endurskipulagningu.

Varðandi núverandi stjórnarmyndun vil ég meina að einn eða tveir dagar til skipti ekki höfuðmáli. Það sem skiptir máli eru aðgerðir næstu vikna og mánaða.

En ég er samt langt í frá hrifinn af þessum töfum, jafnvel þó ég vilji hafa sem mest á hreinu varðandi hlutina.


Töfin og taugarnar

Það stendur ekki á taugaveiklunarviðbrögðum vegna tafa á kynningu nýrrar ríkisstjórnar. Aðalstefið er auðvitað að búa til grýlu úr Framsókn, það strandar allt þar.

Þá er stutt í spunann um að þetta hafi bara verið bragð til að komast í stjórn með Sjálfstæðismönnum. Það er auðvitað veruleikafirring því slíkt stjórnarsamstarf er ekki í spilunum. Það voru stóru mistökin fyrir sex árum og þau verða ekki gerð aftur.

Félagshyggjan og fólkið er það sem málið snýst um og Framsókn skar á hnútinn sem kominn var í landsstjórnina með tilboði sínu um minnihlutastjórn að uppfylltum þremur skilyrðum. Þegar vantar uppá að eitt skilyrðið sé uppfyllt þarf einfaldlega að bæta úr því.

Ég veit ekki betur en það sé einnig aðalstef ríkisstjórnarflokkanna verðandi og því sé ég ekki vandamál í þessu og þaðan af síður taugaveiklunarástæðu.

Hitt er svo annað að það hefði átt að vera búið að ganga frá þessu.


Þetta líst mér á

Mér líst vel á þrjú lykilatriði okkar Framsóknarmanna varðandi stuðning við minnihlutastjórnina.

Stjórnlagaþing er nauðsynlegur þáttur í endurreisn lýðræðis á Íslandi og kosningar vil ég sem fyrst.

Svo þarf maður að sjá aðgerðirnar sem gripið verður til varðandi varnir heimilanna. Það er lykilatriði að þær gangi upp og séu trúverðugar. Verði svo er ferðin þess virði að hafa farið hana.

Hitt er svo annað mál að sú stjórn sem er að taka við verður að afla eins mikils trausts á sér og framast er unnt.

Slíkt er einungis hægt að gera með algjöru gegnsæi annars vegar og hins vegar með raunhæfni. Þetta eru lykilatriði næstu þriggja mánaða.


Hefur eitthvað farið fram hjá mér?

Hefur það farið fram hjá mér eða er enginn að biðja um skarpari og betri fjölmiðla á Íslandi. Snýst þetta allt um stjórnmálamennina og er fjórða valdið alveg stikkfrítt?

Það var svo sem í lagi þannig séð að forsetinn væri klappstýra númer eitt. Hann fær reisupassann fyrir það. En að fjölmiðlar nánast eins og þeir leggja sig taki upp öll hin klappstýrusætin án nokkurrar ábyrgðar er fullmikið.

En þetta gerir fámennið auðvitað.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband