Ein af þessum

Þessi frétt er ein af þessum árlegu fréttum sem er alltaf eitthvað um. Hefur verið á RÚV seinustu tíu árin að minnsta kosti og er reyndar alltaf jafn brosleg.

Menn fá útrás fyrir spennu- og sýniþörfina á misjafnan hátt svo sem.


mbl.is Keppt í ostaeltingarleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boðskapur dagsins

Nú er ein fermingarhelgi dagsins afstaðin og margur unglingurinn tekinn í fullorðins manna tölu. Ég ætla þó ekki að ausa úr viskubrunni mínum til þeirra heldur hafa eftir smá glens úr handraða kirkjunnar manna á þessum tímamótum en auðvitað brýna prestar fermingarbörnin til dáða á þessum miklu tímamótum.

Mér var sagt af einni slíkri brýningu í gær en þar var reifað hvað ungmennin gætu uppskorið á gifturíkri ævi sinni, sem framundan væri. "Þau gætu meðal annars orðið landbúnaðarráðherrar og bjargað landbúnaðinum úr klóm Samfylkingarinnar". Þetta uppskar viðbrögð viðstaddra var mér tjáð.

Prestar landsins hafa jú alltaf verið pólitískir og glettnir að auki.


Smávægileg sundurlaus hugleiðing

Umræða um þátttöku fólks í stjórnmálum fer marga vegi á leið sinni um þjóðfélagið og lítur víða við. Sumt er gott og gilt en annað er fram sett af ómálefnaleika grunnrar hugsunar með eða án tilgangs. Eitt af því sem ég hef verið að velta fyrir mér síðustu daga er hvernig ungt fólk í stjórnmálum, fær stundum umræðu um sig án tilvísunar í neitt annað en hugrenningar eða hugarburð, sem á óræða rót í samfélaginu. Þetta er framagirnisumræðan þar sem haldið er á loft nöfnun ungra stjórnmálamanna sem eiga að hafa valið sér stjórnmálaflokk eða hreyfingu með tilliti til þess hvar frami þeirra gæti verið sem hraðastur og mestur.

 Þessir ungu stjórnmálamenn eru fólk sem, að mínu viti, hefur verið treyst til ýmissa hlutverka og ábyrgðar innan sinnar hreyfingar til að veita málefnum framgang og styrkja starfið. Ég er síðan fyllileiga þeirrar skoðunar að fólk njóti verðleika sinna þegar upp er staðið á einhvern hátt og því geti þeir, ef einhverjir eru, ekki komist upp með það að hafa eingöngu slíka nálgun á starfi sínu.

Undanfarin misseri hefur mér fundist bera meira á þessu en áður og er það miður. Mér virðist enginn vera saklaus í þessum efnum því ég heyri þetta sagt um fólk í öllum flokkunum. Í grunninn sagt finnst mér að fólk ætti að gefa þessum einstaklingum það að þeir séu að fylgja lífsýn sinni og velji sér stað til starfa innan stjórnmálahreyfinga eftir því. Ég hefði haldið að í raun væri enginn staður auðveldari en annar til metorðaklifurs ef allt annað vantar.

Svo er reynar hitt sem til staðar er, að stundum hallar metorðastiginn upp að röngu húsi eins og sagt var við mig nýlega.


Í kulda og trekki

Nú er ég nýlega kominn frá Akureyri þar sem ég gerði ferð seinni part dags til að aðstoðardæma knattspyrnuleik í Landsbankadeild kvenna. Hörkufjör í leik sem fór 2-3 fyrir Breiðablik gegn heimastúlkum í Þór/KA.

Annars er það helst að frétta að maður er næstum frosinn eftir þriggja stiga hita og smá slyddu með og á sjálfsagt eftir að taka eitthvað fram á nóttina að þiðna almennilega. Ég er alveg búinn að fá nóg af þessum kulda verð ég að segja.

Annars fengum við góða heimsókn í gærkvöldi þegar gamlir nemendur mínir héðan úr skólanum komu og gistu hjá okkur. Voru að fagna eins árs stúdentsafmæli og mættu í stúdentaútskrift í dag. Fjögur stykki takk fyrir, með mikið fjör og gott spjall. Helling um pólitík og svo auðvitað lífið og tilveruna. Já það er margt unga fólkið sem er skynsamt og hugsandi í dag.

Gaman að fá svona heimsóknir og sem betur fer eru þær reglulegar.


Hugleiðing dagsins

Í gegnum erfiðleika lífsins, er að manni steðja á stundum er gott að geta gripið til einhverra huggunar í formi orða eða hugsunar. Þess má sjá víða merki og slá menn oft um sig með góðum og gildum tilvitnunum og málsháttum í þeim tilgangi. Margt þessa er auðvitað að finna í okkar miklu sagnaarfleifð, allt frá upphafi sagnaritunar fram til okkar daga.

Það sem hefur dugað mér ákaflega vel er reyndar ekki þangað sótt, þó það lyfti oft að leita þangað heldur leitar til mín það sem gamall maður sagði eitt sinn við mig:

Ég hef aldrei blotnað það illilega að ég hafi ekki þornað aftur

var hans speki og hefur hún þótt mér góð. Smá kaldhæðni með kímnigáfu og tilvísun í hlutarins eðli.


Kalt

Hann er frekar kuldalegur morguninn hérna. Allt grátt, sjókoma og kalt og ekkert sem bendir til þess að vor sé í lofti á næstunni.

Þá er bara að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði, halda síðan áfram eins og ekkert hafi í skorist.


mbl.is Slydda og él norðanlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur ekki á óvart

Það að Sturla hafi verið látinn taka pokann sinn sem ráðherra kemur svo sem ekki á óvart. Að hluta til hefur hann staðið örlítið í vegi Geirs innan flokksins og nú var því lag að losa um hann þar sem norðvesturkjördæmi var eina kjördæmið þar sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi frá því fyrir fjórum árum. Þar fyrir utan hefur Sturla ekki verið neitt sérstaklega vinsæll innan flokksins á landsvísu og nokkur óánægja með hann sem ráðherra.

En það virðist vera stórhættulegt að vera samgönguráðherra hjá Sjálfstæðisflokknum, þaðan liggur leiðin í stól forseta Alþingis og síðan úr stjórnmálum.

Ætli þetta fylgi yfir á KLM líka?


mbl.is Sturla: Ósáttur við að hverfa úr samgönguráðuneytinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ævintýri í Reykjavíkurferð

Ég lenti auðvitað í smá ævintýri í Reykjavíkurferð minni um síðustu helgi eins og við var að búast. Við hófum laugardagsmorguninn á því að auka hagvöxtinn og skruppum því í Kringluna til að gera smávegis innkaup. Ekki í frásögur færandi svo sem en við vorum komin þar tiltölulega snemma og því auðvelt að finna bílastæði. Bíllinn við hliðina á mér var alveg út við bílastæðislínuna og því ákvað ég að gerast frekur til landsvæðis (eins og við erum í þéttbýlinu, þess vegna þurfti að fara í þjóðlendumálið, munið  þið) og tók bara tvö stæði undir mig. Hér fyrir norðan kallast þetta að leggja "a la Snæsi".

Inn fórum við og sinntum hagvaxtarerindum okkar af bestu lyst. Þegar út á bílastæði kom var ekki allt eins og það átti að sér að vera. Einhver hafði tekið Snæsalagningunni frekar illa, svo ekki sé meira sagt og ákveðið að króa mig inni. Hann lagði þá auðvitað þvert fyrir aftan mig þannig að ekki komst ég þá leiðina af bílastæðinu. Algjör snilld, svona á að venja mann af frekjunni. Nú voru góð ráð dýr en auðvitað hélt ég ró minni og skoðaði aðstæður. Svo vel vildi til að fólk í næstu bílum kom mjög fljótlega út og því komst ég nánast strax úr stæðinu mínu án nokkurs teljandi skaða. Þeir sem komu út fannst þó illilega að mér vegið og voru hinir reiðustu við þverlagninguna aftan við mig, vildu jafnvel láta draga hann í burtu hið snarasta.

Ég brosti að öllu saman, bæði vel og lengi. Ennþá broslegra er að þegar ég var farinn þá tók viðkomandi þrjú stæði eða þau sem hann hafði lagt þversum aftan við.

Það sem maður getur lent í.


Þankar um bakþanka

Eins og svo oft áður kíkti ég á bakþanka Fréttablaðsins fyrir nokkrum dögum, gott ef það var bara ekki á föstudaginn var. Þar skrifaði Guðmundur Steingríms sem er ekki í frásögur færandi og las ég pistil hans en oft finnst mér þeir vera góðir hjá honum. Guðmundur finnst mér oft skrifa ágætlega, bæði las og keypti skáldsöguna hans um mannkynssöguáhrifin um árið. Reyndar var sjónvarpsþátturinn hans einn sá versti sem ég hef nokkurn tímann séð, varð næstum því til lengri sjúkrahúslegu þegar ég sá þáttinn. En nóg um það.

Í þessum bakþönkum var Guðmundur að skrifa um kosningakerfið en hann fer frekar hörðum orðum um það skilningslega séð, þ.e.a.s. að hann átti erfitt með að skilja það þrátt fyrir mikla og góða yfirlegu yfir því sem hlýtur að hafa verið ætluð til að setja sig inn í kerfið til að skilja virkni þess. Það mun þó ekki hafa tekist að hans sögn og því hafi það valdið svitaköstum og ógleði á kosninganótt.

Að mínu viti er nú samt frekar einfalt að skilja grunnvirkni viðkomandi kerfis. Það er kannski eins gott að Guðmundur varð ekki þingmaður þegar upp er staðið ef þetta vafðist svona fyrir honum.


Hvernig ætli....

... Sjálfstæðisflokknum gangi að ráða við Samfylkinguna á sterum eins og sagt var frá í kvöldfréttatíma RÚV í kvöld svo ég tali nú ekki um, nota bene, eftir að hafa blásið lífi í Frankenstein?

Algjör snilld.


mbl.is Fundur stendur enn yfir á Þingvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband