25.9.2007 | 20:35
Upplifun dagsins
Upplifun dagsins á Salbjörg mín. Við vorum að fá hestana okkar aftur heim eftir sumarlangt lán í hestaferðir Saltvíkur. Komu í fínu formi og því var ákveðið að lengja aðeins sumarið og taka nokkra túra á þeim. Í kvöld fékk síðan Salbjörg að prufa í fyrsta sinn að fara á bak á annan þeirra og þvílík upplifun. Að vísu fór hún ekki langa vegalengd og auðvitað var teymt undir henni en á bak fór hún og það var óborganlegt.
Annars er ég búinn að endurskíra Glóa sem Dollara Glóa því það barst kauptilboð í hann eftir eina ferðina í sumar. Ekki tjáir að nefna hann í höfuð þessarar ónýtu myntar okkar og því skal forskeytið vera í nafni dollarans, evran er svo stirð í þessu samhengi.
16.9.2007 | 23:19
Ég bíð spenntur...
... eftir þeirri ógæfu sem svarti kötturinn er hljóp yfir veginn framan við bílinn minn í síðustu viku færir mér. Alveg kolsvart kvikindi þannig að ógæfan ætti að vera í duglegri kantinum. Svo stoppaði jaxlinn og leit yfir öxlina þegar hann var kominn yfir svona eins og til að tékka á því hvort hann hefði ekki örugglega náð mér.
15.9.2007 | 23:45
Spurning um réttmæti fyrirsagnarinnar
Fyrirsögnin er afgerandi í þessu tilviki þar sem segir "Löglegt mark dæmt af Chelsea" en innihaldið er ekki í takt við fyrirsögnina hjá fréttaritaranum því þar segir hann "líklega var sá dómur rangur" þar sem átt er við þá ákvörðun að dæma mark af Chelsea vegna rangstöðu. Hægt hefði verið að bjarga sér með því að setja spurningamerki aftan við setninguna í fyrirsögninni nú eða vera samkvæmur sjálfum sér með því að halda innihaldi fyrirsagnarinnar til streitu í fréttinni sjálfri.
En uppskeran er bara léleg fréttamennska.
![]() |
Löglegt mark dæmt af Chelsea |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.9.2007 | 20:49
Eitt af betri eintökum Moggans
Eitt af betri eintökum Moggans í langan tíma leit dagsins ljós síðastliðinn sunnudag. Þar var stutt grein um löggæsluátak í miðborginni. Merkilegt annars að fólk er búið að tala úr sér raddböndin um hið skelfilega ástand í Reykjavík um helgarnætur og svo þegar loksins er farið af stað með verkefni til að taka almennilega og öðruvísi á því, að þá verður allt vitlaust. Eitthvað svo verulega íslensk viðbrögð, fyrirsjáanleg og leiðinleg.
Síðan það sem hæst bar í blaðinu. Loksins almennileg og að því að virtist ákaflega fagleg umfjöllun um Grímseyjarferjumálið vel þæfða. Miklu plássi eytt í þessa umfjöllun, málið skoðað frá öllum hliðum og tímalína lögð í gegnum allt ferlið. Vel unnin og lýsandi fréttamennska sem því miður ekki er á hverju strái þessa dagana hér á klakanum. Svo bíður maður bara eftir því að heyra afsökunarbeiðni samgönguráðherrans til handa ráðgjafanum. Annars finnst mér öðru aðalatriði málsins ekki vera haldið á lofti í þessu en það er auðvitað að Grímseyingar eigi að hafa alvöru samgönguþjónustu.
"Staða ljóðsins" var áhugaverð umræða Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og féll vel að manni og svo sökk ég auðvitað niður í "erfðalykla tungumálsins", viðtal við enska málvísindamannin David Lightwood sem endaði á smá skoti um að enskunnar yrði kannski fullhefnt með íhlutun hennar í mál okkar nú líkt og hann telur hafa gerst með öfugum formerkjum fyrr á öldum. Að maður tali nú svo ekki um viðtal við höfunda bókarinnar um Maó formann. Ég hef meira að segja lesið stutta kafla úr þeirri bók, pantaði hana næstum því snemmsumars en ákvað að spara það við mig. Hefði sko alveg viljað heyra frásögn Chang á morgun á bókmenntahátíð.
Auðvitað voru smá stjórnmál með í för eins og vera ber. Hugsað upphátt um vegferð lýðræðis af Guðna Ágústs. og "svo fúll á móti, ég veit allt" grein frá Róbert Marshall.
Svo les ég bæði atvinnuauglýsingar og dánar-/jarðarfarafréttir sem og stöku minningargrein en þar á eftir fékk maður smá sýn á Jethro Tull forsprakkann Ian Anderson.
Síðan sá ég smá umfjöllun um kvikmynd sem á að gera um sögu úr seinni heimsstyrjöldinni um Bielski bræðurna er forðuðu fjölda gyðinga frá dauða í skógum Hvíta Rússlands. Ég sá einmitt heimildarmynd um þá í sumar og þótti áhugaverð þannig að líklega kemur maður til með að reyna að sjá þessa þegar hún kemur út.
"Vel flutt leiðindi" var síðan dómurinn um hinn nýja disk Magna "Rockstar". Tek undir það að mestu, fannst ekki alltaf vel flutt hjá honum. Hallast frekar að magnaðri textagerð Villa Naglbíts og góðum flutningi hans.
Löng færsla orðin, í stíl við sunnudagsmoggann.
12.9.2007 | 23:17
Heppni dagsins
![]() |
Ísland sigraði Norður-Írland 2:1 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.9.2007 | 19:53
Magnað
![]() |
"Upplifun að láta tækla sig í tætlur" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.9.2007 | 23:59
Fjórtán tvö
Aldrei þessu vant sá ég að mestu leyti knattspyrnuþáttinn fjórtán tvö núna í kvöld. Vissi svo sem ekki alveg hverju ég átti að búast við þar sem knattspyrnuumræðan getur átt sér svo margar myndir og hefur reyndar átt þær duglegar í sumar.
Gestir þáttarins voru að öllu leyti frambærilegri en stjórnandinn er niðurstaða mín í lok áhorfs. Það vantar svo verulega dýpt í umfjallanir á öllu mögulegu, sérstaklega stóru málunum þegar þau skjóta upp kollinum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.9.2007 | 23:02
Alveg merkilegt
3.9.2007 | 23:39
Úff
Ekkert sérstaklega skemmtilegir dagar núna í gangi. Salbjörg búin að vera veik í nokkra daga, með upp undir 40 stiga hita og slöpp eftir því. Síðan er Eyhildur að skríða í það núna seinnipartinn og kvöld að ná systur sinni í þessum efnum.
Og svo ofan á allt saman hefur handleggurinn minn ekki verið verri í marga, marga mánuði.
En björtu hliðarnar á þessu öllu saman eru auðvitað þær að þá er hægt að takast á við þetta allt í einu í stað þess að dreifa á lengri tíma.
Allt tekur enda.
1.9.2007 | 22:47
Örhugleiðing dagsins
Hver ætli sé munurinn á útsölu og stórútsölu. Hvaða aukaskilyrði ætli þurfi að uppfylla að auki til að geta kallað útsöluna sína stórútsölu?
Hvað sem það nú er þá er líklega um að ræða ódýrt sölutrix.