28.8.2007 | 22:09
Smá hugleiðing um íslenska boltann
Nú er orðið víst um fjögur lið af fimm sem fara upp úr þriðju deildinni í sumar en aukakepnni um það fimmta verður spiluð næstu tvær vikurnar eða svo.
Þau lið sem færast upp í aðra deild næsta sumar eru Hamar, Grótta, Hvöt og Víðir en um síðasta sætið leika BÍ/Bolungarvík, Huginn, Tindastóll og Leiknir F.
Ef við gefum okkur að það fækki um fjögur lið í þriðju deildinni að ári þar sem fimm lið fara upp en einungis eitt kemur niður úr annarri deildinni þá finnst mér vera deginum ljósara að það þurfi að endurskoða fyrirkomulag fyrir næsta sumar. Svo getur það auðvitað alltaf gerst að einhver lið sem voru með í sumar verði ekki með næsta sumar og einhver ný stigi skrefið úr utandeildinni og komi inn í þriðju deildina.
Fyrst af öllu vil ég segja það að fjölgun liða í efstu þremur deildum Íslandsmótsins er nauðsynleg ætlum við að ná lengra á knattspyrnusviðinu (ætti kannski frekar að vera fjölgun leikja í hverri deild, spila þrefalda umferð í stað tvöfaldrar). En þegar því fjölgunarmarki er náð má ekki gleyma neðstu deildinni og að henni sé staðið með viðunandi hætti.
Ég hefði lagt til að annað hvort yrði þriðju deildinni skipt í tvo eða þrjá riðla, eins landshlutaskipt og hægt er en þeim liðum sem mest þurfa að leggja út í ferðakostnað verði veittur styrkur á móti. Þar getur maður séð fyrir sér að sé um að ræða lið eins og BÍ/Bolungarvík (fari það lið ekki upp), Leiknir F (sem gæti orðið eina liðið á austurlandi í þriðju deild næsta sumar) og svo KFS í Vestmannaeyjum. Með tveggja riðla fyrirkomulagi erum við að tala um 10-12 lið í riðli og með þriggja riðla fyrirkomulagi erum við að tala um 7-8 lið í riðli (sem er nánast eins og var í sumar). Ég er hrifnari af fyrri hugmyndinni og legg það til í leiðinni að tilfærsla á milli annarrar og þriðju deildar verði þrjú lið í framhaldinu í stað tveggja eins og vaninn er í dag.
Til frekari fróðleiks má benda á að þrjú lið eru í fallhættu í annarri deildinni en það eru Magni, Sindri og ÍH.
PS Þetta hefur auðvitað ótal marga fleti og sjónarhorn sem full langt er að fara í hér og nú en kannski seinna og þá frekar ef einhverjir tjá sig um þetta.
Athugasemdir
Æ, ég er nú ekki góð í þessu. En ég horfi á enska boltann.
Ásdís Sigurðardóttir, 28.8.2007 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.