Fótboltinn og lífið

Ég hef undanfarið verið, eins og all margir aðrir Íslendingar, að velta fyrir mér frammistöðu og gengi karlalandsliðsins okkar í fótbolta. Það er öllum ljóst að gengi þess hefur verið slakt og það sem verra er þá hefur frammistaðan einnig verið í slakari kantinum. Gengið er óumdeilanlegt en frammistaðan er háð persónubundnara mati.

Við þessar aðstæður veltir maður fyrir sér (eins og reyndar alltaf, hvort sem gengur vel eða illa) hver ástæða hlutanna sé. Hún er auðvitað margþætt eins og lífið sjálft er en það sem ég ætla að halda á lofti er pínu sálfræði- og persónuleikalegs eðlis. Ég ætla að láta vera að minnast á fjölda okkar og hve mikla eða litla möguleika við höfum til að "framleiða" nógu og marga mjög góða knattspyrnumenn á hverjum tíma.

Ég hef lesið hjá mörgum mjög harða gagnrýni í garð þjálfarans en hafa þá leikmennirnir sjálfir fengið minni gagnrýni. Þetta á rétt á sér upp að vissu marki því þjálfarinn ber jú ábyrgð á heildarframsetningu og undirbúningi liðsins og þar með að nokkru leyti frammistöðu leikmannanna. Þrátt fyrir það geta þeir ekki skorðast undan eigin ábyrgð og ég tel þetta verka mjög náið saman.

Hafrún Kristjánsdóttir skrifar mjög góða grein um Svía leikinn, á sálfræðilegum nótum og er ég henni mjög sammála í því sem hún segir þar. Ég las fyrir nokkrum árum að íþróttamenn teldu sálfræðilega þætti ráða hátt í 50% af frammistöðu sinni en samt sem áður notuðu þeir innan við 10% æfingatíma síns í hugarþjálfun eða sálfræðilega þáttinn.

Ég tel einmitt að sálfræðilegir þættir hafi mjög mikið með gengið að gera undanfarið en kannski á annan hátt en margir aðrir. Ég tel þónokkuð af þessu snúast um virðingu leikmanna, bæði virðingu fyrir þeim sem valdið hefur, þ.e.a.s. landsliðsþjálfaranum og síðan virðingu fyrir íslenskri knattspyrnu. Þetta hefur áhrif á þann hátt að ef leikmaður ber ekki þessa virðingu fyrir þeim sem leggur línurnar þá fer hann auðvitað síður eftir því sem honum er lagt fyrir að framkvæma hvað svo sem það er og leggja jafnvel minna í sölurnar ef þannig mætti að orði komast.

En af hverju lítil virðing? Jú hvað þjálfarann varðar þá tekur mikinn tíma að vinna sér inn virðingu hvar sem er en jafnvel ennþá meiri tíma og afrek á þeim grundvelli sem knattspyrnuheimurinn er. Slíkt er ekki byggt upp á einni nóttu heldur vinnst smá saman upp í þeim störfum sem menn sinna. Yfirleitt eru þjálfarar valdir til starfa hjá landsliði eftir því hvernig þeim hefur tekist upp með félagslið og þar hafa menn þá haft tækifæri til að ávinna sér virðingu. Hins vegar er stundum eins farið að eins og í tilfelli Eyjólfs, að ráða mjög þekktan og farsælan leikmann til starfans og þá þarf virðingin að hafa komið á annan hátt. Ég held að Eyjólfur hafi ekki þann part með sér í landsliðsþjálfarastarfið og hafði einungis þjálfað U-21 árs landslið okkar áður en hann tók við A-landsliðinu. Virðingu sem hann hafði í 21-árs landsliðinu vegna leikmannsferils síns hefur hann ekki í starfinu í dag. Leikmennirnir þar eru orðnir "stærri kallar" sem hefur verið stjórnað af enn "stærri köllum" en Eyjólfi og þeir hafa líka spilað hjá betri liðum en íslenska landsliðinu.

Þegar upp er staðið hefur Eyjólfur því ekki möguleika á að ná liðinu upp í betri frammistöðu eða árangur vegna þessa held ég. Hann hefur aldrei haft þennan sálfræðilega þátt sem til þarf frá leikmönnunum sjálfum, er búinn að tapa búningsklefanum eins og þeir segja í Englandi (eða hefur aldrei haft það). Ef að hann nær ekki að ávinna sér virðingu leikmannana á næstu mánuðum þá er komið að enda vegarins fyrir hann í þessu starfi.

Þetta eru svona smá hugrenningar um þessa hluti og líklega eru fáir sammála mér í þessu en það verður bara að hafa það þá. Ég hef aldrei lofað að vera sammála ykkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

5-0 gegn svíum er dropinn sem fyllti mælirinn.

Vilborg Traustadóttir, 7.6.2007 kl. 21:43

2 Smámynd: Arnfinnur Bragason

Ég held að í raun hafi enginn haft trú á Eyjólfi frá því hann tók við landsliðinu og hann hefur ekkert gert sem breytir því nema síður sé.

Arnfinnur Bragason, 7.6.2007 kl. 22:09

3 Smámynd: Hannes Bjarnason

Get nú ekki annað en hlegið að ykkur spekingum, sem eru að tjá sig um mál sem snúa að því hvort landliðsþjálfari haldi virðingu leikmanna sinna eða ekki. Þið hafið enga hugmynd um hvað gengur á inn í búningsherberginu.

Ég held að fólk ætti að fara að átta sig á því að íslenskir knattspyrnumenn eru hreinlega ekki eins góðir og margir vilja halda fram. Keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn, og það sést hvað best í hópíþrótt sem knattspyrnu.

Ísland á ekki landliðsmenn í hverja stöðu á vellinum sem hafa yfir að ráða svipaðri knattspyrnuhæfileikum og  Eiður Guðjohnsen.

Hannes Bjarnason, 8.6.2007 kl. 11:05

4 Smámynd: Hannes Bjarnason

Annars er það áhugavert Ragnar að þú virðist meta orðstýr meira en persónuleika. Því það er nú bara þannig að orðstýr og persónuleiki fylgjast alls ekki alltaf að.

Hannes Bjarnason, 8.6.2007 kl. 11:25

5 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Er ekki hægt að keppa í fótbolta á Smáþjóðaleikum?  við mundum örugglega hafa það.  Annars verð ég að segja þér að var fagur sem aldrei fyrr, Reykjadalurinn í gær þegar ég keyrði hann. Kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 8.6.2007 kl. 12:33

6 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Mér finnst þetta merkileg pæling hjá þér Ragnar. Ég er mest fyrir einfaldar skýrningar eins og HB, held að verkurinn sé að akkúrat núna er ekki mikil breidd í liðinu..

Sigríður Gunnarsdóttir, 8.6.2007 kl. 22:26

7 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Þú mátt hlæja þig vitlausan mín vegna Hannes en rétt er það að ekki vita margir hvað fram fer í búningsherberginu. Ég set fram mínar hugsanir um þetta á þessum nótum því ekki er árangur eins og ég hef vonir til og því met ég að eitthvað sé ekki að skila sér til að svo megi verða. Síðan er það hins vegar rétt að geta okkar er ekki neitt sérstök og þar þarf að gera ákveðna endurbætur í knattspyrnunni hér heima (deildakeppninni o.s.frv.) til að það fari til betri vegar. Og síðan er ég þér ósammála um að Eiður standi uppúr í hæfileikum í landsliðshóp okkar í dag.

Hvernig í fjandanum Þykist þú geta lesið það út úr þessu hjá mér að ég meti orðstý meira en persónuleika? Það spilar saman sagði ég en ekkert mat af minni hálfu hvort væri hærra sett. Rétt síðan hjá þér að orðstýr og persónuleiki fylgjast ekki alltaf að, ekki nærri því alltaf.

Ragnar Bjarnason, 8.6.2007 kl. 23:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband