Viðtal dagsins

Viðtal dagsins, sem ég var að lesa í kvöld er úr Feyki þann 31.maí síðastliðinn. Viðtalið er við Einar K. Guðfinnsson, nýjan landbúnaðarráðherra og áframhaldandi sjávarútvegsráðherra. Þetta er hin ágætasta lesning, spurningar með ágætum og svör ráðherrans í stíl við það. Áhugaverð er frásögn Einars af dvöl sinni á Skörðugili á unglingsárum en þá dvöl segir hann sér vera ómetanlega. Einar hefur alltaf haft nokkrar taugar til Skagafjarðar, sjálfsagt bæði vegna þessarar dvalar sem og skyldleika sinn við Harald Júl. kaupmann á Sauðárkróki (og þá auðvitað Bjarna Har. sem rekið hefur búð föður síns í áratugi).

Það er farið vítt yfir sviðið og meðal annars segir Einar að hann ætli ekki að taka þátt í því að landbúnaðinum sé kálað. Gott að vita af því að landbúnaðarráðherrann sjálfur ætlar sér ekki í sláturhlutverk landbúnaðarins.

Um samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir Einar

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið höfuðpólar á mörgum svæðum , almennt á landsbyggðinni raunar. Við glímdum oft við Framsókn um forystuhlutverkið í landsbyggðarkjördæmunum mörgum hverjum. Stuðningsmenn okkar og Framsóknarflokksins litu þannig á að þar kristallaðist hinn pólitíski ágreiningur. Þetta kom hins vegar ekki í veg fyrir að við áttum langt og gríðarlega árangursríkt samstarf. Við einhentum okkur hins vegar í verkin og sýndum hvorum öðrum traust.

Og ennfremur hefur hann eftir vini sínum um núverandi samstarf

Það sagði við mig vinur minn að hann æfi sig nú hvern dag á því að tala vel um Samfylkinguna. Það hefði reynst sér dálítið erfitt fyrst, en nú væri það allt að koma!

En gott viðtal og ég hvet menn til að lesa það komist menn yfir eintak af Feyki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef mjög takmarkaðan áhuga á að lesa eitt eða neitt frá þeim manni.  Held að hann ætti að þora að opna augun og fara í gegnum vanda landsbyggðarinnar, sérstaklega sjávarútvegsstefnuna sem hann ver með kjafti og klóm.  Svei honum bara.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.6.2007 kl. 09:01

2 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Get alveg trúað því að mörgum Sjálfstæðismanninum sé það erfitt að hætta að tala illa um Samfylkinguna. Það er eflaust bæði vont og venst illa

Guðmundur Ragnar Björnsson, 7.6.2007 kl. 12:11

3 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Já þetta er skrýtin umpólun en svona er pólitíkin!! 

Vilborg Traustadóttir, 7.6.2007 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband