22.5.2007 | 20:17
Ævintýri í Reykjavíkurferð
Ég lenti auðvitað í smá ævintýri í Reykjavíkurferð minni um síðustu helgi eins og við var að búast. Við hófum laugardagsmorguninn á því að auka hagvöxtinn og skruppum því í Kringluna til að gera smávegis innkaup. Ekki í frásögur færandi svo sem en við vorum komin þar tiltölulega snemma og því auðvelt að finna bílastæði. Bíllinn við hliðina á mér var alveg út við bílastæðislínuna og því ákvað ég að gerast frekur til landsvæðis (eins og við erum í þéttbýlinu, þess vegna þurfti að fara í þjóðlendumálið, munið þið) og tók bara tvö stæði undir mig. Hér fyrir norðan kallast þetta að leggja "a la Snæsi".
Inn fórum við og sinntum hagvaxtarerindum okkar af bestu lyst. Þegar út á bílastæði kom var ekki allt eins og það átti að sér að vera. Einhver hafði tekið Snæsalagningunni frekar illa, svo ekki sé meira sagt og ákveðið að króa mig inni. Hann lagði þá auðvitað þvert fyrir aftan mig þannig að ekki komst ég þá leiðina af bílastæðinu. Algjör snilld, svona á að venja mann af frekjunni. Nú voru góð ráð dýr en auðvitað hélt ég ró minni og skoðaði aðstæður. Svo vel vildi til að fólk í næstu bílum kom mjög fljótlega út og því komst ég nánast strax úr stæðinu mínu án nokkurs teljandi skaða. Þeir sem komu út fannst þó illilega að mér vegið og voru hinir reiðustu við þverlagninguna aftan við mig, vildu jafnvel láta draga hann í burtu hið snarasta.
Ég brosti að öllu saman, bæði vel og lengi. Ennþá broslegra er að þegar ég var farinn þá tók viðkomandi þrjú stæði eða þau sem hann hafði lagt þversum aftan við.
Það sem maður getur lent í.
Athugasemdir
Já hún er margslungin, reiðin í sumum íbúa Babylon, hef lent í þessu líka, en maður verður víst að brosa greyin þeir
Ásdís Sigurðardóttir, 22.5.2007 kl. 22:11
Það er meiri heiftin oft í sumum á bílastæðunum.
Svava frá Strandbergi , 23.5.2007 kl. 19:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.