Eru tryggingafélögin mestu svindlararnir

Þessari spurningu er sérstaklega beint að TM tryggingum þannig að það er kannski ósanngjarnt að láta spurninguna ná yfir öll tryggingafélögin.

Ég er nefnilega helv. fúll út í TM akkúrat núna. Svo er nefnilega mál með vexti að við hjónin höfum verið með séreignalífeyrissparnað hjá Sparisjóð, svonefnt Lífsval Sparisjóðanna. Fyrir rúmlega ári síðan fór Lífsval í samstarf við TM um líftryggingar og þar fram eftir götunum. Þá var boðin trygging fyrir ákveðna upphæð frítt í eitt ár.

Ég fór í minn Sparisjóð og var nú ekki alveg hress með þetta. Höfðum við fengið sent heim skírteini og allt saman. Ég gerði athugasemdir við þetta á þeim nótum að ég vildi hreinlega ekki láta skrá mig í eitthvað sem ég bæði ekki um sjálfur enda með allar mínar tryggingar annars staðar og hef þurft að hafa í nógu að snúast þar. Starfsmaður Sparisjóðsins snerist til veglegrar varnar bæði fyrirtæki sínu (sem mér finnst auðvitað gott að vissu leyti) og eins sérstaklega TM. Á endanum lét ég til leiðast að frábiðja mér þessu ekki strax heldur var ég fullvissaður um að það kæmi vel tímanlega til mann leiðbeiningar um að hafna áframhaldandi þátttöku í þessari tryggingu þegar frítíminn væri á enda runninn.

Það stóð, að hluta. Ég fékk meldingu um það og fór í Sparisjóðinn og sagði okkur hjónin frá þessari tryggingu TM. Ekkert meira með það nema að nú í byrjun árs kom endurnýjunarseðill frá TM til konunnar, dagsettur 12. desember. Kom ekki til okkar fyrr en í janúar en svo þegar við fórum að garfa í þessu þá kom í ljós að búið var að draga iðgjald af Lífsvalsreikningnum í október eða nóvember. Fyrir það fyrsta átti hún ekki að vera með þessa tryggingu en í annan stað þá var endurnýjunarbréfið sent eftir að iðgjaldið var dregið af.

Ofan á allt annað var síðan þrautaganga á milli allra viðeigandi aðila til að fá úr því skorið við hvern ætti að tala til að fá hlutina í það horf sem við vildum, enga tryggingu frá TM.

Ég tel það vera ólögmæta viðskiptahætti að skrá mann í þjónustu sem maður biður ekki um þannig að TM er að troða sér inn á mann á ólöglegan hátt, líklega af því að þeir geta ekki selt nóg af tryggingum á löglegan hátt. Kannski maður láti þetta fara til Umboðsmanns neytenda.

Þessi nöldurgrein er stytt og staðfærð að hluta til úr uppsagnar- og skammarbréfi konunnar til TM.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband