28.2.2007 | 15:32
Traustur grunnur Íbúðalánasjóðs
Það þarf fyrst og fremst að leggja áherslu á og tryggja að allir landsmenn, alveg sama hvar maður býr, hafi greiðan og jafnan aðgang að fjármagni til húsnæðiskaupa. Lánskjör á þessum lánum til kaupa íbúðarhúsnæðis þurfa að vera á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er á hverjum tíma. Þetta er grunnurinn sem Íbúðalánasjóður stendur á og þarf að tryggja til langframa. Ég get ekki séð að því sé betur farið með Íbúðalánasjóðinn sem heildsölubanka frekar en núverandi uppbyggingu hans, þvert á móti. Íbúðalánasjóður er í dag góð stofnun, sem sinnir sínu hlutverki vel og er þannig úr garði gerður að hann virkar ágætlega sem þjónustustofnun, sem er á annan máta heldur en sumar ríkisstofnanir að minnsta kosti.
Það var ekki breyting á lánum Íbúðalánasjóðs sem setti rót á húsnæðismarkaði af stað heldur var það innkoma bankanna á markaðinn af miklu offorsi sem ég ætla ekki að rekja hér. (Geri það seinna). Þeir voru að missa spón úr aski sínum að því að þeir töldu og vildu því gleypa bitann í heilu lagi.
Nei, við skulum hafa Íbúðalánasjóð í óbreyttu fyrirkomulagi og þannig standa vörð um þau grunngildi sem hann stendur fyrir.
Fasteignasalar vilja að Íbúðalánasjóður verði heildsölubanki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heill og sæll Ragnar. Takk fyrir þetta innlegg því hér er hárrétt farið með staðreyndir. Bankarnir ruddust inn á markaðinn með látum vegna þess að ÍLS hækkaði lánshlutfall í 90%. Þar með misstu bankarnir spón úr aski sínum í þeirri lánveitingu sem fólk þurfti til að greiða fyrir alla íbúðina. Þau lán voru á hærri vöxtum en ÍLS lánin og bankarnir stórgræddu á því. Nú er til meðferðar kæra hjá Eftirlitsstofnun EFTA frá bönkunum á hendur ÍLS og ríkinu. Ljóst er að fyrirkomulagið getur líklega ekki verið óbreytt og bankarnir munu halda áfram að vinna í málinu í þeim tilgangi að komast yfir þessi viðskipti. Hvað gerist þá? Íbúðalán munu örugglega hækka og bankarnir velja sér viðskiptavini vegna þess að gerðar eru háar arðsemiskröfur. Svo verðum við örugglega rukkuð um þjónustugjöld í hvert skipti sem við nefnum íbúðalán. Þar með verður einhver hluti þjóðarinnar útilokaður frá því að eignast húsnæði.
ÍLS er á hinn bóginn rekinn án hagnaðarsjónarmiða og fyrir fólkið í landinu og um það höfum við Framsóknarmenn staðið vörð. Um það verður ekki deilt.
Ég velti hins vegar fyrir mér hvort óhjákvæmileg er sú þróun að hér myndist traustur leigumarkaður í ljósi þess að "trendið" er að fólk er hætt að eiga hlutina. Nú leigjum við bíla og jafnvel húsgögn og ég held að það sé óhjákvæmileg þróun á íbúðamarkaði líka. Spurningin er þá hvernig við ætlum að vera við því búin.
Mér finnst Búseta-formið ekki galið og held að húsnæðis-samvinnufélög gætu verið svarið. Ég og þú og svona 30 aðrir framsóknarmenn gætu þess vegna gengið inn í slíkt félag og jafnvel látið byggja fyrir okkur heila götu, svo við getum örugglega verið saman í framtíðinni. Síðan leigjum við húsin okkar (án hagnaðarsjónarmiða) til 100 ára eða svo, því húsnæðis-samvinnufélagið ætlar hvort sem er ekki að gera neitt annað næstu 1000 árin, en að hugsa um okkur!
Bestu kveðjur til þín og þinna!!
Helga Sigrún Harðardóttir, 28.2.2007 kl. 15:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.