Goðsögnin lifir

Löngum hefur verið sagt að ef þú heyrir ekki í börnunum þínum þá eru þau að gera eitthvað af sér. Ég hef aldrei verið neitt rosalega viss um þetta enda heyrðist aldrei neitt í mér á yngri árum en samt var ég eiginlega aldrei að gera neitt af mér, þannig lagað.

En svo komst ég að því í seinustu viku að goðsögnin um þetta er sönn og lifir góðu lífi.

Skömmu eftir hádegi í síðustu viku, þegar yngri dóttirin var komin út í vagninn sinn og svaf þar værum blundi, var ég í rólegheitunum með þeirri eldri. Fljótlega tilkynnti hún mér það að nú væri hún að fara að taka til í herberginu sínu og vildi að ég færi eitthvað annað. Ég var ákaflega sáttur með þetta rúmlega þriggja ára "kríli" og settist niður við lestur. Hún setti spólu með Dýrunum í Hálsaskógi í segulbandstækið og byrjaði að taka til. Fljótlega veitti ég því eftirtekt að hún hafði hækkað svolítið í tækinu en um leið heyrðist ekkert frá henni. Ég var að spá í að gera athugasemd við tónhæðina hjá henni en þá var hún svo almennileg að loka hurðinni inn til sín og ég spáði ekkert meira í það. Hélt bara áfram að lesa. Leið nú og beið og sú yngri vaknaði þannig að ég tók hana inn og í framhaldi þess ákvað ég að athuga hvort sú eldri vildi nú ekki leika aðeins við hana.

Ég hélt því innreið mína inn í herbergið en þegar inn kom sá ég Salbjörgu hvergi. Hmm, en þegar ég litaðist betur um sá ég hvar fæturnir á henni lágu út undan kojunni hennar. Hvað ertu að gera spurði ég. EKKERT var svarið. Allt í lagi, sagði ég. Viltu ekki koma og leika aðeins við Eyhildi? Jú, veii. Undan kojunni kom hún en um leið kippti hún annarri hendinni aftur fyrir bak á sér. Hvað ertu með, spurði ég. EKKERT, kom aftur. Má ég sjá, spurði ég enn. AAAAA var svarað og snúið upp á sig. En það varði ekki lengi. Þá kom í ljós að mín hafði fundið "sleikjóhreiðrið" sem geymt var til laugardags og farið svona ákaflega skemmtilega í kringum hlutina til að næla sér í einn. Það var sem sagt ekki nóg að láta mig ekki sjá til sín heldur þurfti að loka hurðinni, hækka í segulbandstækinu og skríða undir koju til að komast upp með litla "ránið".

Það sem sagt heyrðist ekkert í henni og hún var að gera eitthvað af sér, bæði að mínu viti og sínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Sagðirðu ekki 3ja ára hehehe hún verður góð, þegar hún verður eldri.  En þetta er skemmtileg saga af stubbunni þinni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2007 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband