Gott ...

... fyrir einhvern, en ekki mig.
mbl.is Tveir með allar tölur réttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldei þessu vant

Aldrei þessu vant er ég í grunninn sammála staksteinum Moggans í dag, merkilegt nokk. Þar er fjallað um ræðu Guðna Ágústssonar á Alþingi nýlega þar sem hann fór orðum um DV útgáfuna frægu fyrir kosningarnar í vor.

Það sem ég er sammála í þessu er það að það hreinlega þýðir ekkert að vera með eitthvað vol og væl yfir þessu og segja alla tíð hvað aðrir hafa verið vondir við mann. Of mikið hefur verið gert af því undanfarna mánuði. Sé svo, þá verður bara að hafa það. Nóg er til af málsháttum okkar og orðtökum í þá átt að halda áfram í stað þess að kveinka sér ótæpilega yfir lífsins óréttlæti. Og eins og segir í niðurlagi staksteinanna

Hinn þjóðrækni leiðtogi Framsóknarflokksins á að leita skýringa á ósigri flokksins annars staðar.

Það er þörf á annari hugsun, öðru æði og öðrum orðum en þessum á endurnýjunardögum flokksins þegar finna þarf vopnin að nokkrum hluta á nýjan leik og skapa grundvöll til frekari sóknar fram veginn.


Fótboltinn og lífið

Ég hef undanfarið verið, eins og all margir aðrir Íslendingar, að velta fyrir mér frammistöðu og gengi karlalandsliðsins okkar í fótbolta. Það er öllum ljóst að gengi þess hefur verið slakt og það sem verra er þá hefur frammistaðan einnig verið í slakari kantinum. Gengið er óumdeilanlegt en frammistaðan er háð persónubundnara mati.

Við þessar aðstæður veltir maður fyrir sér (eins og reyndar alltaf, hvort sem gengur vel eða illa) hver ástæða hlutanna sé. Hún er auðvitað margþætt eins og lífið sjálft er en það sem ég ætla að halda á lofti er pínu sálfræði- og persónuleikalegs eðlis. Ég ætla að láta vera að minnast á fjölda okkar og hve mikla eða litla möguleika við höfum til að "framleiða" nógu og marga mjög góða knattspyrnumenn á hverjum tíma.

Ég hef lesið hjá mörgum mjög harða gagnrýni í garð þjálfarans en hafa þá leikmennirnir sjálfir fengið minni gagnrýni. Þetta á rétt á sér upp að vissu marki því þjálfarinn ber jú ábyrgð á heildarframsetningu og undirbúningi liðsins og þar með að nokkru leyti frammistöðu leikmannanna. Þrátt fyrir það geta þeir ekki skorðast undan eigin ábyrgð og ég tel þetta verka mjög náið saman.

Hafrún Kristjánsdóttir skrifar mjög góða grein um Svía leikinn, á sálfræðilegum nótum og er ég henni mjög sammála í því sem hún segir þar. Ég las fyrir nokkrum árum að íþróttamenn teldu sálfræðilega þætti ráða hátt í 50% af frammistöðu sinni en samt sem áður notuðu þeir innan við 10% æfingatíma síns í hugarþjálfun eða sálfræðilega þáttinn.

Ég tel einmitt að sálfræðilegir þættir hafi mjög mikið með gengið að gera undanfarið en kannski á annan hátt en margir aðrir. Ég tel þónokkuð af þessu snúast um virðingu leikmanna, bæði virðingu fyrir þeim sem valdið hefur, þ.e.a.s. landsliðsþjálfaranum og síðan virðingu fyrir íslenskri knattspyrnu. Þetta hefur áhrif á þann hátt að ef leikmaður ber ekki þessa virðingu fyrir þeim sem leggur línurnar þá fer hann auðvitað síður eftir því sem honum er lagt fyrir að framkvæma hvað svo sem það er og leggja jafnvel minna í sölurnar ef þannig mætti að orði komast.

En af hverju lítil virðing? Jú hvað þjálfarann varðar þá tekur mikinn tíma að vinna sér inn virðingu hvar sem er en jafnvel ennþá meiri tíma og afrek á þeim grundvelli sem knattspyrnuheimurinn er. Slíkt er ekki byggt upp á einni nóttu heldur vinnst smá saman upp í þeim störfum sem menn sinna. Yfirleitt eru þjálfarar valdir til starfa hjá landsliði eftir því hvernig þeim hefur tekist upp með félagslið og þar hafa menn þá haft tækifæri til að ávinna sér virðingu. Hins vegar er stundum eins farið að eins og í tilfelli Eyjólfs, að ráða mjög þekktan og farsælan leikmann til starfans og þá þarf virðingin að hafa komið á annan hátt. Ég held að Eyjólfur hafi ekki þann part með sér í landsliðsþjálfarastarfið og hafði einungis þjálfað U-21 árs landslið okkar áður en hann tók við A-landsliðinu. Virðingu sem hann hafði í 21-árs landsliðinu vegna leikmannsferils síns hefur hann ekki í starfinu í dag. Leikmennirnir þar eru orðnir "stærri kallar" sem hefur verið stjórnað af enn "stærri köllum" en Eyjólfi og þeir hafa líka spilað hjá betri liðum en íslenska landsliðinu.

Þegar upp er staðið hefur Eyjólfur því ekki möguleika á að ná liðinu upp í betri frammistöðu eða árangur vegna þessa held ég. Hann hefur aldrei haft þennan sálfræðilega þátt sem til þarf frá leikmönnunum sjálfum, er búinn að tapa búningsklefanum eins og þeir segja í Englandi (eða hefur aldrei haft það). Ef að hann nær ekki að ávinna sér virðingu leikmannana á næstu mánuðum þá er komið að enda vegarins fyrir hann í þessu starfi.

Þetta eru svona smá hugrenningar um þessa hluti og líklega eru fáir sammála mér í þessu en það verður bara að hafa það þá. Ég hef aldrei lofað að vera sammála ykkur.


Viðtal dagsins

Viðtal dagsins, sem ég var að lesa í kvöld er úr Feyki þann 31.maí síðastliðinn. Viðtalið er við Einar K. Guðfinnsson, nýjan landbúnaðarráðherra og áframhaldandi sjávarútvegsráðherra. Þetta er hin ágætasta lesning, spurningar með ágætum og svör ráðherrans í stíl við það. Áhugaverð er frásögn Einars af dvöl sinni á Skörðugili á unglingsárum en þá dvöl segir hann sér vera ómetanlega. Einar hefur alltaf haft nokkrar taugar til Skagafjarðar, sjálfsagt bæði vegna þessarar dvalar sem og skyldleika sinn við Harald Júl. kaupmann á Sauðárkróki (og þá auðvitað Bjarna Har. sem rekið hefur búð föður síns í áratugi).

Það er farið vítt yfir sviðið og meðal annars segir Einar að hann ætli ekki að taka þátt í því að landbúnaðinum sé kálað. Gott að vita af því að landbúnaðarráðherrann sjálfur ætlar sér ekki í sláturhlutverk landbúnaðarins.

Um samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir Einar

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa verið höfuðpólar á mörgum svæðum , almennt á landsbyggðinni raunar. Við glímdum oft við Framsókn um forystuhlutverkið í landsbyggðarkjördæmunum mörgum hverjum. Stuðningsmenn okkar og Framsóknarflokksins litu þannig á að þar kristallaðist hinn pólitíski ágreiningur. Þetta kom hins vegar ekki í veg fyrir að við áttum langt og gríðarlega árangursríkt samstarf. Við einhentum okkur hins vegar í verkin og sýndum hvorum öðrum traust.

Og ennfremur hefur hann eftir vini sínum um núverandi samstarf

Það sagði við mig vinur minn að hann æfi sig nú hvern dag á því að tala vel um Samfylkinguna. Það hefði reynst sér dálítið erfitt fyrst, en nú væri það allt að koma!

En gott viðtal og ég hvet menn til að lesa það komist menn yfir eintak af Feyki.


Mesti umhverfisvandi Íslands

Ég las í blaðagrein eftir Þorvald Gylfason fyrir nokkru (annað hvort í Fréttablaðinu eða Blaðinu) að mesti umhverfisvandi Íslands væri lausaganga búfjár.

Ég staldraði lengi við þessi orð hans og hugsaði svo með sjálfum mér að þá höfum við nú aldeilis verið að horfa í vitlausa átt undanfarin ár í þessum málum en svo leist mér betur á þá niðurstöðu mína að það væri nú aldeilis gott að Þorvaldur væri nú ekki umhverfisfræðingur.


Rétt

Kristján Möller, okkar nýi samgönguráðherra keyrði mjög á þessu máli fyrir kosningarnar í vor og þá ekki minnst hér í Þingeyjarsýslum. Var reyndar ákaflega harður á þessu og sagði ekki annað koma til greina en gera gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax.

Ég veit um nokkra sem kusu Sf. eingöngu vegna þessara orða hans og þeir sömu eru ekki par hrifnir af hans fyrstu orðum og skrefum í málinu eftir embættistöku sína. Það sem er síðan alvarlegra fyrir hann og hans flokk er síðan hversu æfir margir harðir Samfylkingarmenn sem ég hef heyrt í eru með einmitt hans yfirlýsingar í málinu eftir að hin nýja ríkisstjórn tók við og hann fékk það embætti sem áhrifavaldið í þessum efnum hefur.

Byrjar ekki gæfulega finnst manni.


mbl.is Segir kosningaloforð um Vaðlaheiðargöng svikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orð í tíma töluð

Því er nú þannig farið með öll kerfi að þau hafa bæði kosti og galla en þegar núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp á sínum tíma var það nauðsynleg aðgerð á allan hátt. Nú er hins vegar þannig komið að ákveðnir gallar kerfisins eru farnir að slaga hátt upp í það sem jákvætt er í því og þá er ekki seinna vænna að lagfæra úr sér gengið kerfi að breyta til batnaðar.

Ég held að þessi leið, sem Björn Ingi talar hér fyrir um sé góður grundvöllur til þeirrar leiðréttingar sem til þarf og geti verið bæði fær og til hagsbóta fyrir langflesta aðila.

Þessi ræða Björns Inga var mér sérstaklega vel að skapi.

Til hamingju með daginn sjómenn.


mbl.is Björn Ingi: Viðbót í aflaheimildum síðar fari til svæða en ekki kvótaeigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætt

Þá getur maður farið að rýna reglulega í Egils silfrið en maður hefur nú ekki nennt að horfa mikið á það á vefnum í takmörkuðum gæðum.

Annars er það bara hið besta mál að þáttur sem þessi fái meiri útbreiðslu og vonandi verður lagt almennilega í umgjörðina en samt þannig að aðalatriðið, það er umræðurnar og rýni Egils verði ekki útundan fyrir bragðið.

Athyglisvert samt að Stöð tvö er ekkert á því að sleppa Agli með góðu þrátt fyrir að hann sé laus mála sinna hjá þeim.


mbl.is Egill sagður á leið til Sjónvarpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auglýsing dagsins

Þar sem ég reikna með að einhverjir íbúar Þingeyjarsveitar lesi hérna hjá mér þá er ekki úr vegi að nota vettvanginn til virkjunar íbúalýðræðis.

Hafi einhver áhuga á að kynna sér drög að aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2008-2020 þá getur hinn sami sett sig í samband við mig eða skrifstofu Þingeyjarsveitar til að fá drögin send til sín. Athugið að um er að ræða drög að greinargerð sem eiga eftir að fá frekari vinnslu hjá íbúum sveitarfélagsins en þeir eru sérstaklega hvattir til að kynna sér þessi drög og koma fram með ábendingar og hugmyndir er þau varða.


Fréttir dagsins

Þær eru eiginlega engar fréttir dagsins hjá manni í dag. Utan það reyndar að ég fór í kvöld og sótti hestana okkar tvo og klippti hófa á þeim yngri. Gekk allt ágætlega en reiðhestarnir eru að fara í hestaferðir frá Saltvík í sumar. Þá verða þeir í góðu formi í haust þegar við förum að hafa almennilegan tíma í reiðtúra.

Þannig að þetta var bara ágætt kvöld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband