Gott framtak

Lofsvert framtak þetta hjá hjúkrunarfræðingum því það virðist greinilega ekki veita af því að vekja fólk til umhugsunar um alvarlegar afleiðingar sem bílslys geta haft.

Hugarfarsbreytingu er þörf til bætingar í þessum efnum en því miður virðist vera alltof oft ríkjandi þessi tama íslenska hugsun, "það kemur ekkert fyrir mig".

Ég held það ætti að taka það til umhugsunar að ökufantar samfélagsþjónustu þar sem þeir af eigin raun geti kynnst afleiðingum þeim sem gjörðir þeirra geta haft.

En vonandi hafa viðburðir eins og þessi ganga í dag einhver áhrif í baráttunni við hættulegan akstur á vegum landsins og afleiðingar hans.


mbl.is Mikil þátttaka í göngu gegn umferðarslysum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að komast hjá því að taka ákvörðun

Þegar að kjörnir fulltrúar vilja komast hjá því að taka ákvörðun mæta þeir hreinlega ekki í stað þess að fylgja því sem mönnum finnst réttara.

Eins og í öðrum sveitarstjórnum landsins var kosið um oddvitastöðu í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar fyrir stuttu. Eins manns meirihluti er þar líkt og víðar en þó kastaðist í kekki innan hans í vetur en var það vegna viðræðna um sameiningarviðræður sveitarfélaga hér á svæðinu. Einn fulltrúinn skar sig frá meirihlutanum, sitjandi þó í umboði sama framboðslista og aðrir þar, og veitti sameiningarviðræðum brautargengi með aðstoð minnihlutans. Virtist líf og starf meirihluta hanga á bláþræði í framhaldi þess en hefur þó á einhvern hátt þraukað fram á þennan dag.

Þegar síðan kosið er um oddvitastöðuna á seinasta fundi mætir hann ekki heldur lætur kalla til varamann í sinn stað. Ég sé ekki annað en það sé til að þurfa ekki að taka ákvörðun hvoru megin atkvæði hans félli í oddvitakjörinu.

Menn eru kosnir til að taka ákvarðanir en ekki til að forðast þær, jafnvel þó þær séu erfiðar.

Ég hef gert það að minni skoðun og lífssýn það sem ég heyrði haft eftir tveimur mönnum fyrir nokkrum árum en í samtali þeirra segir annar að það sé geti verið svo erfitt stundum að fara eftir sannfæringu sinni. Svarið sem hann fékk frá hinum var stutt og laggott á þann veg að það vissi hann þó að hitt væri ómögulegt.

Það er kjarni málsins.


Sýnir í hnotskurn

Þetta sýnir í hnotskurn að Evrópusambandið verður aldrei samband Evrópu, til þess þarf annan vettvang. Stóru ríkin, sem hafa hingað til haft tögl og haldir í málefnum sambandsins eru ekki spennt fyrir því að fá stór ríki þar inn og missa einhver völd í framhaldi þess. Menn reyna að láta það líta út fyrir að snúast um annað en það er hreint og klárt yfirvarp.

Synd að svo sé því grunnhugmynd evrópusambandsins og þar af leiðandi evrópusamvinnunar er svo hrein og tær.


mbl.is Frakkar reyna að koma í veg fyrir inngöngu Tyrkja í EB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins

Félagaskipti Henry til Barcelona eiga eftir að verða Arsenal til góða og lyfta þeim til betri árangurs á næstu misserum. Of mikill tími hefur farið í vangaveltur í kringum hann og hafa þær, ásamt öðru orðið til þess að hann hefur heft framþróun liðsins í heild sinni.


mbl.is Arsenal og Henry staðfesta félagaskiptin til Barcelona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fastheldinn Skagafjörður

Ég hef oft velt því fyrir mér hvað það er sem gerir Skagafjörðinn svona fastheldinn á sitt fólk eins og mér sýnist hann hafa verið og vera enn í dag. Fólk sem er þar fætt og uppalið á ákaflega erfitt með að færa sig um set en þegar það gerist eru tengslin til baka sterkari en naflastrengur.

Ætt mín þar er tiltölulega stór. Faðir minn er einn ellefu systkina er á legg komust á Frostastöðum í Blönduhlíð á síðustu öld. Eitt þessara ellefu systkina flutti úr héraðinu, elsti bróðirinn, og hann flutti aftur heim á efri árum. Móðir mín er úr hópi sjö barna en í þeim hópi fluttust tvö í burtu en tengslin hjá þeim heim er eins farið og ég lýsti áður.

Það sem meira er hlýt ég að telja að sé, nú á tímum heims án landamæra er að tiltölulega mörg systkinabörnin eru einnig búsett í Skagafirði.

Eina aðalskýringuna á þessu held ég að móðir mín hafi komið með síðast þegar við keyrðum niður af Vatnsskarðinu og sáum yfir héraðið. "Mikið ákaflega er þetta fallegt hérað" sagði hún og átti þá við það í sínum víðasta skilningi. Það er nefnilega aðeins öðruvísi að koma í Skagafjörð af Vatnsskarðinu heldur en annars staðar á landinu. Þú hefur sýn á nær allt héraðið og útverði þess, Glóðafeyki, Tindastól, Mælifellshnjúk, Drangey og þar fram eftir götunum. Þú fyllist einhverju óútskýrðu og samsvarar þig jörðinni, moldinni, loftinu og ekki síst vatninu í héraðinu. Ég er nefnilega alinn upp í vatni að því að mér finnst, í miðju héraðinu í Héraðsvötnunum, milli vatna og allar gjörðir dags daglega fólu í sér náin kynni af þessu mikla vatnsfalli.

Kannski skýrir þetta að einhverjum hluta velgengni KS, hver veit.

Meira síðar.


Algjörlega nauðsynlegt er það ekki?

Nei það held ég ekki annars. Ég læt mér nú nægja bara svona þetta venjulega þó í nýju húsi búi. Kannski er það barasta alls ekki nútímaheimili þegar upp er staðið, það vantar alla vega allar svona stýringar og stafrænan stíl í það.

Samt sem áður virkar það nokkuð vel.


mbl.is Verslun fyrir stafræn heimili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æfingin skapar meistarann

Gærkvöldinu eyddi ég í ákaflega góða slökkviliðsæfingu en hingað komu menn frá Eldstoðum til úttektar á slökkviliði Þingeyjarsveitar. Fengum smá umfjöllun um eldvarnir og eldvarnareftirlit ásamt því að fara í "gámana". Annar þessara gáma er reykgámur þar sem leitað er en hinn er skriðgámur þar sem smágert völundarhús er fyrir mann til að fara í gegnum, í myrkri auðvitað og í fullum reykköfunarskrúða.

Það borgar sig að fara reglulega yfir þessa hluti en samt sem áður er maður að æfa fyrir það sem maður vill eiginlega aldrei standa í. En það er samt alltaf eitthvað um útköll því miður. Nóg um það, æfingarnar eru skemmtilegar.


Spennandi

Það ætlar að verða spennandi mótið í Landsbankadeildinni í sumar fyrir auðvitað utan FH á toppnum. Allir geta unnið alla eins og sagt er stundum og það virðist hreinlega eiga við núna í sumar.

Gott mál.


mbl.is ÍA vann Val eftir að hafa lent undir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta verðið þið að sjá

Mér hefur borist ákaflega athyglisvert myndband tengt kvennalandsliðinu í knattspyrnu. Það er samanklippt syrpa sem stelpurnar horfðu á fyrir landsleikinn á móti Frökkum á laugardaginn var og fylgir myndbandinu ósk um stuðning á móti Serbum á fimmtudaginn.

Þetta er sálfræðileg nálgun í undirbúningi fyrir erfiðan leik sem virðist hafa gert sitt gagn í leiknum sjálfum. Endilega gefið ykkur tíma til að horfa á þetta og farið svo og styðjið landsliðið á fimmtudaginn, ég kemst nefnilega ekki en vildi samt glaður fara á völlinn.


Góður sigur

Mjög góður sigur í markaleik þar sem spilamennskan bauð uppá lítið annað en að vera sáttur með úrslitin. Markafjöldi segir auðvitað nokkuð um varnarleik og svokallaða tæknifeila í sókn en það sem máli skiptir er náttúrulega úrslitin þegar upp er staðið. Til hamingju með það.

Þá hefur þjóðin eina sex mánuði til að byggja upp óraunhæfar væntingar enn einu sinni fyrir þátttöku í stórmóti.

En samt gaman að þessu öllu saman.


mbl.is Ísland sigraði Serbíu 42:40 og er komið á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband