22.8.2007 | 23:17
Ekki beint áhugamál
Tónlist er ekki beint áhugamál hjá mér en samt hef ég nokkuð gaman af tónlist. Reyndar rýni ég mikið í texta og spái nokkuð í þá út frá ótrúlegustu sjónarhornum. Góð melódía með góðum texta er ákaflega áhugaverð samsetning, málið er bara að "góður" texti nær yfir svo fjölbreytt svið hjá mér að ég gæti aldrei útskýrt það til fulls sjálfsagt. Textarnir spanna tímabil allt frá Kolbeini Tumasyni til Megasar svo eitthvað sé sagt til útskýringar. Hitti Megas reyndar einu sinni og spjallaði aðeins við hann. Það er eitt það skrýtnasta en um leið með áhugaverðari samtölum sem ég hef átt um ævina. Það sama hef ég að segja af Páli Óskari, hitti hann einu sinni og get sagt það sama um samtal okkar þó á annan hátt væri. Ef ég mætti velja hvaða erlendu tónlistarmenn ég gæti hitt myndi ég velja hljómsveitina "the Corrs" held ég.
Plötu/diskasafnið mitt er þónokkuð fjölbreytt þó ekki sé stórt í sniðum. Þar er að finna allt frá karlakórum til hörðustu rokkbanda og allt þar á milli. Held reyndar mismikið uppá diskana eins og gengur og gerist sjálfsagt. Hef spilað suma það mikið að ég er á þriðja eintaki þeirra eins og er. Sumum hef ég týnt og einstaka hefur verið nappað af mér. Engum þeirra sé ég jafn mikið eftir og "Þessu stóra svarta" með Sniglabandinu. Ég gæfi mikið fyrir að eignast hann aftur.
Framtak Rásar 2, að vera með plötu vikunnar, bæði innlenda og erlenda, finnst mér lofsvert framtak og áhugavert í alla staði. Eins sú stefna hjá Óla Palla að spila allt sem hann fær sent a.m.k. einu sinni, mjög lofsvert. Reyndar finnst mér að sæma eigi hann Fálkaorðunni fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar (sem og Andreu reyndar líka). En þrátt fyrir þónokkra grósku í íslenskum tónlistargeira í dag er fátt sem heillar mig þar akkúrat núna. Helst er það B.Sig og Sprengjuhöllin og svo er Megas svo sem ágætur. Verst með hann að hann er svo agalega mikið í tísku þessa dagana. Jú og svo finnst mér ferskur blær á Jónasi Sigurðssyni, fyrrverandi Sólstrandagæja.
Það sama á við um erlenda tónlistarflóru í dag, þar er fátt sem vekur sérstakan áhuga minn af því sem er að gerjast í dag. Eiginlega bara ekki neitt þegar ég renni yfir sviðið þar. Allt eins, matreitt sérstaklega í neytendapakkningar með síðasta söludag og neysluleiðbeiningar meðferðis. Ekki spennandi.
Nóg um tónlist að sinni.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.8.2007 | 23:00
Úr takt við tímann
Það er svo merkilegt með það að þrátt fyrir að vera ákaflega tæknilega sinnaður og jafnvel nýungagjarn á köflum þá vill svo til að ég á ekki DVD spilara eins og kannski flestir aðrir Íslendingar. Einhverra hluta vegna hefur þetta æxlast svo að ég hef aldrei séð ástæðu til að fjárfesta í slíku tæki nema þá þegar við gáfum mömmu og pabba svona lagað í jólagjöf fyrir næstum tveimur árum.
Reyndar held ég að það sé DVD drif í tölvunni minni en ég tel það nú ekki með þar sem það er ekki notað í þeim tilgangi að horfa á myndir þar í gegn.
Þetta voru tilgangslausu upplýsingar dagsins, sem tengjast klukkinu eins og ég var búinn að lofa.
16.8.2007 | 22:32
Loksins, loksins
Ég fór hreinlega alveg í kerfi við þetta klukk verð ég að játa. Þakka ykkur kærlega fyrir það en á endanum mun ég uppfylla það sem klukkið útheimtir þó þetta sé eitt af því fáa sem ég þoli ekki held ég.
Annars er það nýyrði dagsins sem er "barlómskráka". Skýringar á orðinu óskast í athugasemdakerfi takk fyrir.
Gott orð annars finnst mér. Meira frá mér á næstunni annars.
19.7.2007 | 23:10
Úff
Ég er lentur í þessu klukki. Meira að segja búið að klukka mig tvisvar, svei mér þá. Bjartsýnt fólk með afbrygðum.
Á morgun segir sá lati. Ég fylgi því og geri eitthvað í þessu þá.
19.7.2007 | 09:19
Eðlið er svona
Ég held að Íslendingar þurfi aðeins að hugsa sig um í þeim efnum hvernig þeir umgangast bætt kjör miðað við fyrri ár. Það á ekkert alltaf við að spenna bogann sem hæst og treysta á lukkuna bregði eitthvað útaf.
Við teygjum okkur alltaf eins nálægt greiðslugetu okkar og mögulegt er en hugsum frekar lítið um komandi tíma og hvað þeir bera í skauti sér. Ef hver og einn liti aðeins á neyslu sína og kældi sig kannski aðeins væri kannski minna um sveiflur varðandi þessi mál.
En það er auðvitað þetta hjarðeðli okkar sem alltaf ræður úrslitum.
![]() |
Kaupþing: gífurleg óvissa í íslensku efnahagslífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.7.2007 | 23:44
Verkefni morgundagsins
Ég var að spá í að fara í samúðargöngu vegna köngulóarinnar sem Salbjörg drap frekar snaggaralega í kvöld. Ákvað svo rétt áðan að það væri líklega ekki rétt þar sem hún gæti fundist lifandi seinna meir.
Ætli ég fái ekki líkamsmeiðingahótanir í kjölfarið.
Hugsa annars að ég eyði tímanum í eitthvað sem skiptir máli annars.
15.7.2007 | 20:26
Enn ein áminningin
Menn þurfa að fara að hugsa all verulega vel um bæði öflugri forvarnir gegn brunum sem þessum sem og að hugsa upp á nýtt viðbragðsáætlanir vegna þeirra. Þetta er vá sem verður raunverulegri með hverju misserinu sem líður og verður að bregðast við á ígrundaðan hátt.
Þetta er eitthvað sem hefur ekki verið almennilega inni í myndinni nema að litlu leyti fram að þessu en nú verður að bæta úr því svo vel sé.
![]() |
Halda eldinum í skefjum við Grundartanga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2007 | 17:39
Góðar fréttir
![]() |
Landmælingar Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg í samstarf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.7.2007 | 20:08
Mér finnast...
.... þessar auglýsingar frá Umferðarstofu ágætar á sinn hátt en þar er fylgt fordæmi erlendis frá. Reynt er að fanga þann óhugnað sem hlotist getur af glæfraakstri hvers konar og vekja þannig fólk til umhugsunar um afleiðingar gjörða sinna.
Spurning svo hvort þær gera eitthvað gagn eða nái yfirleitt ekki til þeirra sem þarf að ná til.
Hins vegar hefði ég viljað vera laus við að sitja í sófanum með þriggja ára dóttur minni eftir kvöldfréttirnar áðan og reyna eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að hún sæi auglýsinguna. Þá hefði ég verið laus við að hún væri hrædd um að dreyma illa vegna innihalds hennar.
Ég vil sem sagt að svona auglýsingar séu seinna á ferðinni í dagskránni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2007 | 20:46
Ég er stundum þreyttur
Ákaflega get ég orðið þreyttur stundum á fólki sem er engan veginn í stakk búið til að sinna starfi sínu svo vel sé. Ég er reyndar kominn á þá skoðun nú að slíkt hafi aukist all verulega á Íslandi undanfarin ár.
Það er alveg merkilegt hvað fólk getur komist upp með bara á þann hátt að hafa nægilegt sjálfstraust og jafnvel siðblindu með, hent með því brosi og óskammfeilni og komist upp með að vera í starfi sem það getur eða vill ekki leysa af hendi svo vel sé.
Þá er oft eina ráðið að trúa að karmað og "what comes around, goes around".