Nýjasta bókin í safnið

Ég keypti mér bók í fyrradag. Stóðst ekki mátið eins og svo oft áður og féll fyrir auglýsingu fyrir utan auðvitað óstöðvandi áhuga á viðkomandi efni.

"Decision training for athletes" heitir gripurinn og er eftir Joan Vickers. Áhugaverð út frá sjónarhóli íþróttasálfræðinnar auðvitað en kannski einnig út frá þeirri staðreynd að ákvarðanataka er partur af daglegu lífi manns. Mér leist alla vega vel á umsögnina um hana og bíð því spenntur eftir að hún skili sér í hús til manns.

Er svo ennþá að velta fyrir mér einni stórri, búinn að vera að því reyndar í ein tvö ár. Fín bók um mannslíkamann, stórar og góðar myndir en kostar líka sitt. Sjáum hvað setur.


Merkasti Íslendingurinn

Einhverra hluta vegna var ég að velta því fyrir mér í svefnleysi einnar næturinnar hver hefði eiginlega verið merkasti Íslendingurinn sem lifað hefði um dagana.

Í raun og veru flugu mér ekki mörg nöfn í hug og þótt tiltölulega langur tími færi í að reyna að útkljá þetta hugðarefni þá var einn sem stóð nokkuð vel umfram aðra.

Merkasti Íslendingurinn fram til dagsins í dag hefur mér fundist vera Þorgeir Ljósvetningagoði hvað svo sem öðrum finnst um það.

Einn nær nútímanum komst næst honum en ég var ekki að leita að þeim sem vermdi annað sætið svo ég læt hans ógetið.


Haustið komið

Ég held hreinlega að það sé komið haust, reyndar fyrir einhverjum dögum síðan. Haustvindar fara um og haustrigningar láta á sér kræla.

Mér finnst það reyndar ágætt því haustið er skemmtilegasti og fallegasti tími ársins. Um að gera að njóta hans.


Smá hugleiðing um íslenska boltann

Nú er orðið víst um fjögur lið af fimm sem fara upp úr þriðju deildinni í sumar en aukakepnni um það fimmta verður spiluð næstu tvær vikurnar eða svo.

Þau lið sem færast upp í aðra deild næsta sumar eru Hamar, Grótta, Hvöt og Víðir en um síðasta sætið leika BÍ/Bolungarvík, Huginn, Tindastóll og Leiknir F.

Ef við gefum okkur að það fækki um fjögur lið í þriðju deildinni að ári þar sem fimm lið fara upp en einungis eitt kemur niður úr annarri deildinni þá finnst mér vera deginum ljósara að það þurfi að endurskoða fyrirkomulag fyrir næsta sumar. Svo getur það auðvitað alltaf gerst að einhver lið sem voru með í sumar verði ekki með næsta sumar og einhver ný stigi skrefið úr utandeildinni og komi inn í þriðju deildina.

Fyrst af öllu vil ég segja það að fjölgun liða í efstu þremur deildum Íslandsmótsins er nauðsynleg ætlum við að ná lengra á knattspyrnusviðinu (ætti kannski frekar að vera fjölgun leikja í hverri deild, spila þrefalda umferð í stað tvöfaldrar). En þegar því fjölgunarmarki er náð má ekki gleyma neðstu deildinni og að henni sé staðið með viðunandi hætti.

Ég hefði lagt til að annað hvort yrði þriðju deildinni skipt í tvo eða þrjá riðla, eins landshlutaskipt og hægt er en þeim liðum sem mest þurfa að leggja út í ferðakostnað verði veittur styrkur á móti. Þar getur maður séð fyrir sér að sé um að ræða lið eins og BÍ/Bolungarvík (fari það lið ekki upp), Leiknir F (sem gæti orðið eina liðið á austurlandi í þriðju deild næsta sumar) og svo KFS í Vestmannaeyjum. Með tveggja riðla fyrirkomulagi erum við að tala um 10-12 lið í riðli og með þriggja riðla fyrirkomulagi erum við að tala um 7-8 lið í riðli (sem er nánast eins og var í sumar). Ég er hrifnari af fyrri hugmyndinni og legg það til í leiðinni að tilfærsla á milli annarrar og þriðju deildar verði þrjú lið í framhaldinu í stað tveggja eins og vaninn er í dag.

Til frekari fróðleiks má benda á að þrjú lið eru í fallhættu í annarri deildinni en það eru Magni, Sindri og ÍH.

PS Þetta hefur auðvitað ótal marga fleti og sjónarhorn sem full langt er að fara í hér og nú en kannski seinna og þá frekar ef einhverjir tjá sig um þetta.


Heimildarmynd dagsins

Ég hef alltaf verið mikið fyrir sögu og söguskoðun hvers konar. Þar að auki hef ég gluggað heilmikið í sögu heimsstyrjaldanna enda svolítill grúskari í mér.

Það vakti því áhuga minn titill stuttrar heimildamyndar sem BBC bæði gerði og sýndi en þessi mynd bar heitið "Weekend Nazis" og fjallar í grunninn um sögusýningar sem settar eru upp á Bretlandseyjum um seinni heimsstyrjöldina og tengingar þaðan í hópa sem þar koma fram sem nasistar undir yfirskyni söguskoðunar og síðan áfram á milli tímans í dag og þá.

Áhugaverð mynd fannst mér og hvet þá sem hafa svipað áhugasvið að kynna sér þessa mynd. Það var meira að segja smá innslag um/með hinum víðfræga David Irwin rithöfundi. Pínu sjokkerandi en áhugaverð samt engu að síður.


Það sem ég hef alltaf vitað ... en samt..

Það rann mér ljóslifandi fyrir sjónir í dag, sem ég hef í raun alltaf vitað en kannski ekki birst manni svo sterkt áður í einni hendingu. Maður þarf að lifa með og eiga við sína samvisku alltaf, hvern dag og hverja stund, og hún leiðbeinir manni um lífsins ólgu sjó ef maður leyfir henni það. En hins vegar þá getur maður á engan hátt stjórnað og hvað þá borið ábyrgð á annarra manna samvisku, sérstaklega ekki ef hún stangast á við þína eigin.

Merkilegt hvað litlir hlutir geta sagt manni mikið alltaf.


Aðeins um enska boltann

Þar sem ég hef haldið með Liverpool í enska boltanum frá því að ég man fyrst eftir mér, og jafnvel lengur en það, þá hefur mér aldrei verið sérstaklega vel við nágrannafélagið Everton. Þó hefur þettat ekki rist neitt sérstaklega djúpt hjá mér þannig séð. En nú held ég að það sé að breitast til verri vegar eftir gærdaginn.

Ég stólaði nefnilega á Everton, aldrei þessu vant, á getraunaseðli gærdagsins og var með Everton - Blackburn sem öruggan leik með heimasigri. Og haldið þið ekki að þessir bölvaðir bavíanar hafi gert jafntefli og þar með var ég bara með tólf rétta í stað allra þrettán leikjanna. Aðeins pirraður verð ég að segja en þegar upp er staðið er sjálfsagt skemmtilegra að vinna almennilega fyrir peningunum í stað þess að láta þá bara detta inn á reikninginn sinn.

Vann að vísu rúmlega fjögurþúsund kall á lengjunni í gær svo þetta er allt saman í lagi.


Enn um tónlist

Ef þið viljið sjá eitthvað svalt síðan í gamla daga þá skulið þið skoða hljómsveitina Boston, aðallega trommuleikarann. Sést þokkalega í laginu "More than a feeling" frá ´76. Einn af þeim flottari fyrir utan að Boston er þokkalega áhugaverð á sinn hátt, bæði textalega og melódískt séð.

Ein af góðu og skemmtilegu fréttunum

Þetta er algjör snilld en samt ekki, þannig séð. Gott að geta haldið áfram námi þegar að öðrum verkefnum líkur sem trufluðu skólasóknina.

Gleymdi að taka fram í tónlistarpistlinum mínum í fyrrradag og Queen er auðvitað í algjöru uppáhaldi hjá mér.


mbl.is Brian May orðinn doktor í stjörnufræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málarinn Salbjörg

Seinustu tvö kvöld höfum við Salbjörg verið upptekin við að smíða dótakassa fyrir útileikfönginS3500441 hennar og Eyhildar. Ákaflega spennandi verkefni fannst þeirri stuttu og ekki fannst henni það amalegt að fá svo að mála kassann í lok verks. Hún fékk auðvitað að velja nokkra liti sjálf og síðan hvaða hlið kassans fengi hvaða lit. Málningarvinnan var eingöngu á hennar herðum og útkoman svona nokkuð skrautleg svo ekki sé meira sagt.

S3500440Hún var ekkert smá ánægð með afraksturinn og var með það alveg á hreinu að nú ætlaði hún sko að taka til dótið sitt sem væri úti. Það væri ekki hægt að hafa það úti um allt þegar svona góður kassi væri fyrir hendi til að geyma það í.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband