Af hverju?

Af hverju eru frystikistur alltaf mældar í lítrum? Við Knútur komumst að því í vinnunni í gær að það væri mun praktískara að mæla þær í til dæmis skrokkum svona í tilefni haustsins. Ég setti einn skrokk í mína frystikistu um síðustu helgi og held alveg örugglega að ég komi eins og fimm stykkjum enn í hana.

Spáið í það.


Kaldhæðni örlaganna

Það er svolítil kaldhæðni af hálfu örlaganornanna að eitt af síðustu opinberu störfum Vilhjálms fráfarandi borgarstjóra skyldi vera við afhjúpun friðarsúlu Yoko Ono. Manni sýnist nú ekki að hann hafi setið í algjöru friðarliði í eigin flokki síðustu dagana og all verulega lítur nú út fyrir að hann hafi fegnið að kenna á breiðu spjótum þeirra þegar tækifæri gafst til.

Annars hefur manni fundist það vera að gerast síðustu vikurnar að Vilhjálmur væri að missa stuðning innan eigin flokks hægt og sígandi en vera jafnvel á uppleið í áliti utan hans. Þeir sem með honum sitja í Sjálfstæðisflokknum skynjuðu minnkandi fylgi hans innan flokksins og fundu að nú var lag að velta bátnum aðeins og athuga hvort karlinn í brúnni myndi ekki blotna aðeins. Ég tel það hafa tekist all hressilega og líklega það vel að Vilhjálmur kallinn fer líklegast fljótlega af bátnum til að fara í þurr föt og ætli verði þá ekki ráðið í plássið hans á meðan.


mbl.is Vilhjálmur verður borgarstjóri fram á þriðjudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt mál eða?

Í sjálfu sér finnst mér þetta vera einfalt mál þó svo að flækst hafi ótrúlega á stuttum tíma.

Mér finnst það ekki vera einhver lausn að selja hlut Reykjavíkur í hinu nýja fyrirtæki, hreint ekki. Ég tel að svo eigi ekki að gera heldur halda áfram í þessu verkefni með þátttöku borgarinnar sem hefur margt fram að færa í þessum efnum með þekkingu í þeirri, sem býr í starfsfólki hennar í þessum geira.

Það á hreinlega ekki að fara að heimfæra kaupréttarsamninga á þetta svið, það finnst mér einnig vera algjörlega kristaltært.

Samruni þessara tveggja orkufyrirtækja hefði átt að vera betur ræddur áður en hann helltist yfir fólk þar sem orsakir og afleiðingar hefðu verið algjörlega uppi á borðinu og til umræðu fyrir opnum tjöldum eins og hægt væri.

Og í síðasta lagi þá sé ég ekki alveg tenginguna frá þessu máli yfir í einhvern formannsslag í Framsóknarflokknum eins og einhverir hafa verið að láta í veðri vaka. En að því sögðu að ef menn vilja fara í þá umræðu þá á að gera það hreint og beint og ég veigra mér síður en svo við að taka þátt í henni.


mbl.is Sátt meðal sjálfstæðismanna þrátt fyrir trúnaðarbrest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg makalaust

Alveg er það merkilegt hvernig fjölmiðlakálfarnir í samfélaginu hérna hjá okkur sprengja allt upp í hæstu hæðir þegar eitthvað rétt svo lafir út úr gúrkutíðinni. Síðan er allt saman gleymt og grafið tveimur dögum eftir að óveðrinu hefur verið hleypt upp í kringum þá.

Veit einhver hvað var verið að fjalla um í fjölmiðlum fyrir viku síðan og hverjir voru í sviðsljósinu þá?

Hvað varð um almennilegar fréttaskýringar og leitina að sannleikanum?

Ég krefst meiri fagmennsku og yfirvegunar af þeim aðilum sem telja sig vera best fallna til að að fara með hið svokallaða fjórða vald samfélagsins. Völdum fylgir ábyrgð.


Jahérna hér

Fyrir nokkrum vikum sótti ég um starf eitt eftir að hafa skoðað það og litist vel á. Starfið var staðsett á höfuðborgarsvæðinu og þegar frá leið og ég hafði ekkert heyrt neitt um það var ég búinn að afskrifa það. En svo einn daginn var hringt í mig og ég boðaður í starfsviðtal. Auðvitað var ég tilbúinn í það og spurði hvar og hvenær það væri. Á morgun klukkan fjórtán tuttugu var svarið. Einhverjar vöfflur komu á greinilega á mig þar sem fresturinn sem mér gafst var í styttri kantinum að því að mér fannst, eða innan við sólarhringur, þannig að í símanum var spurt hvernig mér litist á það. Er eitthvað annað í boði spurði ég bjartsýnn en svarið var sutt og laggott "nei". Ég mæti sagði ég þá snöggt og áleit að ég hefði bjargað mér úr stærri vítum en þessu um ævina.

Ég gat svo með miklum og góðum skilningi vinnuveitanda míns fengið frí daginn eftir til að sinna þessu en hitt fannst mér verra að með svo stuttum fyrirvara voru auðvitað öll ódýrari flugfargjöldin búin þannig að ferðin kostaði mig u.þ.b. 25 þúsund krónur. Ég ákvað að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði og lét mig hafa það.

Þegar ég kom svo í viðtalið daginn eftir var vel á móti mér tekið af þeim tveimur einstaklingum sem tóku viðtalið. Mér var boðið sæti og svo glugguðu þessir tveir einstaklingar sem sátu á móti mér í skjölum sínum. "Þú kemur já alla leið frá Laugum, við hefðum nú getað gert þetta í gegnum síma". Mér var öllum lokið í smá stund. Já auðvitað hefði það verið hægt ef menn hefðu kannski áttað sig á því fyrr og undirbúið sig fyrir þetta. Fleiri setningar og spurningar út í gegnum þetta rúmlega hálftíma viðtal undirbjuggu mig undir það sem seinna kom svo í ljós að starfið fékk ég ekki.

Það held ég.


Athyglisvert

Verulega athyglisverð vegferð REI finnst mér eins og hún hefur verið frá stofnun fyrirtækisins. Ég held reyndar að starfsvettvangur REI sé sérstaklega hentugur íslenskum hugsana- og framkvæmdagangi.
mbl.is REI hyggst verja níu milljörðum til jarðvarmaverkefna í Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta

Skemmtileg frétt af íslenska karlalandsliðinu í fótbolta á vef alþjóðaknattspyrnusambandsins, www.fifa.com og um leið stutt viðtal við Eyjólf landsliðsþjálfara.

Annars er það að frétta úr heimi FIFA að á þeim bænum á í fyrsta sinn að nota heimslistann þegar ákveðið verður í hvaða styrkleikaflokki þjóðir Evrópu verða í þegar dregið verður í undankeppni heimsmeistarakeppninnar árið 2010. Stökk Íslands á síðasta lista og ágætir leikir framundan ættu þá að geta gefið okkur jafnvel sæti í fjórða styrkleikaflokki (ef maður er bjartsýnn) annars á ég eftir að skoða það nánar. Skotarnir eru alla vega glaðir yfir þessu enda hefur gengið ákaflega vel hjá þeim undanfarið og standa þeir vel á listanum eins og er.


Hin mannlega grimmd

Sagt hefur verið að sagan endurtaki sig og gangi í hringi og ég held hreinlega að það sé rétt. Hin mannlega grimmd sem brýst út í stórum stíl í niðurlægingu og útrýmingu annarra manneskna við ákveðnar aðstæður hafa birst okkur í gegnum tíðina allt fram á þennan dag en samt er reynt að láta fólk ekki gleyma.

Skoðið þessa grein á vef BBC og síðan myndaalbúmið sem fjallað er um í henni. (Annað tengt albúm)

Hvernig væri nú einu sinni að láta sér að kenningu verða?


Smá innlegg í lyfjaverðsumræðuna

Þónokkur umræða hefur átt sér stað undanfarið varðandi lyfjaverð á Íslandi og reynt hefur verið af veikum mætti að útskýra verð lyfja hér á landi samanborið við nágrannalönd okkar. Ég ætla að koma hérna með eitt dæmi um lyfjaverð þar sem um er að ræða sama lyf og sama magn þess, keypt hjá sama apóteki með rúmlega mánaðar millibili.

 

Heildarverð lyfs - 8498 í fyrra skiptið en 77396 í seinna skiptið

Hluti tryggina - 3548 í fyrra skiptið en 67496 í seinna skiptið

Hluti sjúklings - 4950 í fyrra skiptið en 9900 í seinna skiptið

Hluti sjúklings - 3856 í fyrra skiptið (eftir 22,1% afslátt) en 2761 í seinna skiptið (eftir 72,1% afslátt)

 

Ég get í þessu dæmi alls ekki séð að íslenskar leiðbeiningar um notkun lyfsins og aukaverkanir þess hafi nokkur áhrif á verð lyfsins. Hreint og beint alls ekki. Þaðan af síður get ég séð að smæð markaðarins hafi nokkuð með verðframsetningu eða samsetningu verðsins. Hreint og beint alls ekki.

Það sem ég sé í þessu dæmi er sjálftaka lyfsöluaðila á fjármagni skattborgaranna í gegnum tryggingakerfið þar sem gríðarleg hækkun grunnverðs á sér stað á stuttum tíma og lítið sem ekkert eftirlit er á því. Tryggingar greiða nefnilega hlutfall grunnverðs eins og það er í upphafi og takið eftir því að sjúklingur greiðir minna í seinna skiptið því þá er búið að mjólka svo mikið úr tryggingum að ekki þarf eins að þjarma að honum.

Ég sé siðleysi og ruddakap í þessu dæmi og ætla að leggja það fram sem skýringu á háu lyfjaverði á Íslandi í dag (sem og undanfarin ár).

Það held ég.


Eitt stykki leikskóla takk

Svo lengi lærir sem lifir. Ég vissi ekki að það væri hægt að kaupa leikskóla en það er kannski málið í dag. Næg eftirspurn virðist vera.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband