6.2.2008 | 01:32
Fyrstu tölur í fyrri helmingnum
Þegar maður lítur yfir fyrstu tölur í fyrri helmingi þessa mikla prófkjörsdags sýnist manni Clinton hafa yfirhöndina í fleiri ríkjum en Obama, meðal annars í New Jersey, Missouri, Alabama og Massachusets auk Oklahoma þar sem búið er að lýsa hana sigurvegara. Obama er síðan aftur með yfirhöndina í Connecticut auk Illinois og Georgiu þar sem hann hefur verið lýstur sigurvegari.
Hjá Repúblikönum hefur McCain verið lýstur sigurvegari í New Jersey, Illinois og Connecticut en Romney í Massachusets. Síðan virðist Huckabee vera að ganga vel í Georgiu og Alabama sem og Missouri.
Meira síðar.
Uppfært: Obama er með gott forskot í Alabama sem er viðsnúningur frá fyrstu tölum þar og eins er hann með gott forskot í Kansas samkvæmt fyrstu tölum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2008 | 01:14
Eftir bókinni í Illinois
Það eru úrslit samkvæmt bókinni í Illinois þar sem Obama virðist ætla að vinna stórt í heimaríki sínu. Útgönguspár gera ráð fyrir að hann fái 67% og Clinton rúmlega 30%.
Ekkert sem kemur á óvart í því, síður en svo.
6.2.2008 | 01:05
Clinton vinnur í Oklahoma?
Nú eru ein níu ríki búin að loka kjörstöðum sínum og á grundvelli útgönguspár í Oklahoma hefur Clinton verið lýst sigurvegari þar.
Manni sýnist að það sé með 60%-40% eða eitthvað þar um bil.
Miðað við útgönguspána byggir þessi sigur hennar á aldri kjósenda en hlutfallslega margir eldri kjósendur komu á kjörstað og í þeim hópi var Clinton með yfirburðastöðu gagnvart Obama.
6.2.2008 | 00:06
Obama sigrar í Georgiu?
Um leið og kjörstaðir loka í Georgíu, sem er fyrsta ríkið sem gerir það í dag, þá hefur Obama verið lýstur sigurvegari af einhverjum fréttaveitum. Og ef maður skoðar og treystir eitthvað á útgönguspárnar þá er það stór sigur. Sýnist að það sé Obama 65% og Clinton 31% eða eitthvað í líkingu við það.
Búist var við sigri Obama í þessu ríki en ég hef ekki séð að það benti neitt til svona stórs sigurs.
Uppfæri tölur seinna í kvöld.
PS Georgía hefur 87 kjörmenn og 16 sjálfkjörna að auki
Samkvæmt útgönguspá hjá Repúblikönum virðist vera ákaflega mjótt á munum en svo virðist sem Huckabee sé skrefi á undan með 32-33%, Romney með 31% og McCain 29-30%. Semsagt of mjótt á milli til að geta sagt hvernig það fer á endanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2008 | 22:21
Væntingar talaðar niður
Svona meðan maður bíður eftir að fyrstu tölur líti dagsins ljós vestan hafs og maður geti skoðað útgönguspárnar þá hefur maður aðeins kíkt á hvað gerst hefur í dag í baráttunni.
Það eru komin ein úrslit, sigur fyrir Huckabee í Vestur-Virginíu. Talinn vera óvæntur sigur því reiknað var með sigri Romney þar og í kjölfarið fóru af stað ásakanir úr herbúðum hans um að McCain hefði séð til þess að hans fólk kysi Huckabee í seinni umferðinni (sjá fyrri færslu). Þetta er talið geta haft neikvæð áhrif á Romney í þeim ríkjum sem eftir eru, einnig vegna þess að hann ætlaði sér líklegast að nota sigur þarna sem stökkpall í lokabaráttuna í öðrum ríkjum dagsins.
Af þeim Clinton og Obama er það helst að segja að þau hafa helst talað niður væntingar sínar í dag, verið afar hógvær (eða þeirra starfsmenn) og talið sig ánægð með minni hluta kjörmanna og ríkjasigra en margir hafa talað um að sé ásættanlegt fyrir þau hingað til.
Það sem vekur mesta eftirtekt er að Clinton er búin að bóka sig í þrjár kappræður í febrúar (10.-27. og 28.) en það hefur hingað til verið talið merki þess sem hefur á brattann að sækja að tryggja sér kappræður fyrir ofur þriðjudaginn.
Held samt að ég breyti spá minni fyrir kvöldið og segi að Clinton brosti örlítið meira en Obama eftir daginn. Henni vöknaði nú líka aðeins um augu í gær, eitthvað sem hefur ekki gerst síðan í New-Hampsire, og það virkaði þar.
Og það var og.
5.2.2008 | 20:07
Fyrsta ríki dagsins með úrslit
Vestur Virginía er fyrsta ríki ofur þriðjudagsins til að birta úrslit sín. Hjá þeim er kerfið einfalt (eða kannski ekki), einna líkast því sem við myndum þekkja hér á landi. Lokaður fundur þar sem kosið er á milli manna í tveimur umferðum, fyrst á milli allra en síðan milli tveggja efstu þar sem sá sem sigrar fær alla kjörmennina.
Huckabee sigraði Romney í síðari umferð með 52% gegn 47% og fékk þar með alla 18 kjörmenn Vestur Virginíu sem í boði voru í dag en 9 til viðbótar er síðan úthlutað í prófkjöri 13. maí að því að mér skilst.
Ætli spá mín síðan fyrr í dag sé að rætast?
Það má bæta því við að Demókrata halda prófkjör sitt í Vestur Virginíu 13. maí.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2008 | 18:23
Tæknin notuð til hins ítrasta
Síðustu kippir kosningabaráttu Clintons og Obama fóru fram með aðstoð tækninnar í formi tölvupósta. Fyrir utan auðvitað þvæling og fundahöld þeirra sjálfra.
Hin ýmsu félagasamtök, sem eru hliðholl öðru hvoru þeirra hafa seinustu daga, en aðallega í gær, sent frá sér tölvupósta til að koma höggi á hinn aðilann en um leið að auka fylgi síns manns. Það stærsta í þessu virðist mér vera frá baráttusamtökum kvenna varðandi fóstureyðingar þar sem sótt er að Obama vegna afstöðu hans áður í þeim málum og því var svarað um hæl úr herbúðum hans.
Athyglisvert, netið spilar alltaf stærri og stærri þátt.
Annars spái ég McCain góðum sigri í kvöld, mun stærri en menn búast við þó svo að Romney hafi sótt að honum í Kaliforníu. Og þá held ég að Huckabee fái meira fylgi en gert er ráð fyrir.
Hjá Demókrötum held ég að Obama komi aðeins betur út en Clinton án þess þó að vera talinn stór sigurvegari dagsins.
Sjáum til.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2008 | 22:57
Kjörþokki
Niðurlag kosningabaráttu Hilary Clinton er hægt að draga saman í eitt orð samkvæmt Chris Cillizza sem bloggar hjá Washington Post og það er kjörþokki.
"Ég er líklegri til að vinna forsetakosningarnar í haust, þannig ef Demókratar vilja vinna þær þá er betra að kjósa mig" segir Clinton.
En er þetta að virka? Líklega ekki þar sem nákæmlega þetta atriði skiptir fáa kjósendur höfuðmáli og þeir kjósendur sem telja svo vera eru ekkert síður hrifnir af Obama.
Svo er það hitt að samkvæmt "head to head" könnunum þá myndi Obama líklega ekki ganga neitt síður í forsetakosningum í haust en Clinton.
Það held ég.
4.2.2008 | 21:32
Prófkjörssúpan á morgun
Á morgun eru prófkjör í 24 ríkjum Bandaríkjanna. Í einum 19 ríkjum hafa báðir flokkar prófkjör en síðan eru Demókratar með í þremur að auki og Repúblikanar tveimur öðrum. Sem sagt kosningar í 24 ríkjum í heildina.
Stutt og skýr greining á ástandinu: McCain kemur út sem sigurvegari hjá Repúblikönum en hjá Demókrötum stefnir allt í jafntefli.
Þetta er stutta útgáfan en eins og við allar stuttar útgáfur má spyrða við lengri gerð og hún fer hér á eftir hjá mér.
Wall Street Journal telur að þrátt fyrir jafnteflislíkur þá geti Clinton ennþá komið út úr slagnum á morgun sem sigurvegari:
by capturing majorities in California; Sen. Clinton's home state of New York and next-door New Jersey; former home state Arkansas; Tennessee, which has fewer black voters than other Southern states; and in at least one of a group of states where Sen. Obama is competitive -- Connecticut, Massachusetts, Arizona and Missouri.
Vandamálið er bara að Obama hefur verið að sækja í sig veðrið (og fylgið) hratt og örugglega undanfarna daga og það eru þónokkuð mörg ríki sem skoðanakannanir sýna of mjótt á munum til að segja fyrir um sigurvegara í þeim. Spurningin í gær var hvort ofur þriðjudagurinn kæmi of fljótt fyrir Obama en spurningin í dag er hvort ofur þriðjudagurinn komi of seint fyrir Clinton. Svona hefur þetta breyst á stuttum tíma.
Þrátt fyrir þann mikla fjölda ríkja sem kosið er í á morgun er mest horft til eins ríkis, Kaliforníu. Fjölmennasta ríkið og gefur þar af leiðandi flesta kjörmennina, heil 18% af þeim fjölda kjörmanna sem þarf til að hljóta útnefningu flokksins. Þar sýna kannanir að Obama sé kominn fram úr Clinton (síðan er hann að auki kominn með betra hlutfall í "intrade" þar sem veðjað er á sigurvegara, 42-40, og sumir vilja meina að það sé betri vísbending en kannanirnar).
Eitt er þó ljóst. Úrslitin ráðast ekki hjá Demókrötum á morgun en líklegast er að það verði klárt jafntefli þar sem kjörmönnum hjá Demókrötum er úthlutað hlutfallslega en ekki eins og hjá Repúblikönum þar sem sigurvegari ríkis fær alla kjörmenn þess. Þá er líklegt að Obama haldi áfram að sækja í sig veðrið og vinna á í þeim ríkjum sem kjósa síðar. Þá er einnig talið að hann sé að fá meiri hljómgrunn meðal sjálfkjörinna kjörmanna (superdelegates) og þeir skipta ekki svo litlu máli, eru um 800 talsins.
Meira fljótlega.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2008 | 20:23
Ökutímar
Það bar til tíðinda í gær að ég skellti mér í leikhús á Akureyri og sá hina umtöluðu sýningu, Ökutímar. Í stuttu máli sagt stórgóð sýning þó innihaldið væri í grunninn dimmt og kalt. Kristín Þóra lék lykilhlutverkið ákaflega vel en öll framsetning verksins var með ágætum.
Fyrir sýninguna var ég búinn að heyra að Lay Low, sem sér um tónlist verksins, "stæli" verkinu og því nyti það sín ekki til fulls. Því er ég algjörlega ósammála. Tónlistin, innsetning hennar og notkun í rennslu leikverksins unnu afar vel saman að mínu mati og því var heildarmyndin jafn góð og raun ber vitni.
Hitt er síðan að mér líkar tónlist Lay Low vel og er mjög hrifinn af textasmíð hennar. Ég er nú orðinn ævarandi aðdáandi tónlistar hennar og það er ekki auðvelt að komast á þann stall hjá mér.
Hefði ekki viljað missa af þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)