Alllir veikir nema einn

Það koma flestir aðilar veikir út úr þessu máli nema Dagur B., misjafnlega veikir reyndar. Dagur er sterkur í málinu, Sjálfstæðisflokkurinn afar veikur og oddviti hans ekki boðlegur í umræðuna hvað þá áframhaldandi veru í starfi. Hvernig ætli Kjartan borgarfulltrúi sjálfstæðismanna komi út úr þessu eftir að hafa ætlað sér að lífga upp á eigin frama með því að bjóða mönnum uppá Vilhjálm aftur sem borgarstjóra?

Þetta er kannski ekki þetta stórmál sem allir vilja vera láta nema Vilhjálmur Þ.?


mbl.is „REI - ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að axla ábyrgð?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álver og skipulag

Álversframkvæmdir hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarið þó sú umræða hafi horfið svolítið í skuggann vegna dómaraskipunar Árna Matt. og REI máls. Eitthvað hefur verið skrafað um Helguvík og svo auðvitað um Bakkaálver hér fyrir norðan.

Iðnaðar- og byggðamálaráðherra leit meira að segja við á Húsavík um daginn og hélt fund þar sem þetta mál var efst á baugi. Þá var að skilja að unnið yrði áfram að því máli af hans hálfu þó að ummæli hans í þeim efnum hafi verið loðin og teygjanleg eins og hans er von og vísa. (Koma í sokka færslan mín um Össur bíður birtingar).

Eftir fundinn var helst talað um að umhverfisráðherra væri einhver steytingarsteinn varðandi framkvæmdina. Þó er það svo samkvæmt mínum heimildum að umhverfisráðherra skrifaði undir svæðisskipulag háhitasvæða í Þingeyjarsýslum þann 16. janúar en það er auðvitað grunnur fyrir framkvæmdum á svæðinu til orkuöflunar fyrir álver á Bakka.

Þetta hefur farið frekar hljótt sem og mestöll umræða um vinnu við þetta skipulag.


Staðan í forkosningunum

Hvers lags orðskrípi er annars "forkosningar"? Betra að hafa annað hugtak yfir þetta held ég.

Mér sýnist annars að mjög margir stjórnmálaskýrendur vestan hafs telji stöðu Obama betri en Clinton þessa stundina einhverra hluta vegna. Þessu er ég ósammála. Clinton tel ég vera betur setta en Obama. Hún varðist mjög sterka ásókn Obama í aðdraganda ofur þriðjudagsins, kom sem sagt betur út þar heldur en von var jafnvel á. Að auki virtist hægja svolítið á fylgisaukningu Obama og útgangskannanir virtust sýna að þeir sem ákváðu sig seinustu þrjá dagana fyrir kosningu kusu frekar Clinton.

Þá er Clinton mun sterkari en Obama meðal þess stóra hóps sem sjálfkjörnu fulltrúarnir eru en ég átti von á því að í kjölfar stuðningsyfirlýsingar Teddy Kennedy myndu mun fleiri slíkir fylkja sér að baki Obama. Það hefur ekki gerst ennþá svo neinu nemi.

Það er því mikilvæg kosning í fjórum ríkjum hjá Demókrötum um helgina. Ef Obama ætlar að ná forskoti verður honum að vegna ákaflega vel um helgina annars styrkist Clinton verulega.

Ég held því að helgin og reyndar næsti þriðjudagur komi til með að skýra málið nokkuð vel þó svo að það sé algjörlega ljóst að baráttan heldur áfram næstu vikurnar að minnsta kosti.

Annars er staðan í kjörmönnum talið (mínus sjálfkjörnir) samkvæmt RCP: Clinton 866 og Obama 877.

Annars lýsti ríkisstjóri Washington (Christine Gregoire) yfir stuðningi við Obama í dag og tekur þátt í kosningabaráttu hans í ríkinu í dag.


Kosningasjóðir Clintons að tæmast?

Það hefði þótt fráleitt fyrir nokkrum vikum að láta sér detta það í hug að kosningasjóðir Hilary Clinton yrðu í einhverskonar fjárhagsvandræðum. Menn hafa frekar verið að velta sér upp úr fjárhagsvandræðum Repúblikana hingað til í kosningabaráttunni (þau vandræði ná reyndar út fyrir prófkjörsslaginn sem nú stendur yfir eða heilt yfir flokkinn)

Það virðist þó vera svo komið í dag en Clinton greindi frá því (viðurkenndi) á blaðamannafundi í gærkvöldi að hún hefði lánað kosningabaráttu sinni 5 milljónir dollara úr eigin persónulegum sjóðum síðla janúar mánaðar. Þar að auki biðlaði hún til stuðningsmanna sinna um að gefa baráttu sinni 3 milljónir dollara næstu þrjá daga.

Þetta er á sama tíma og Obama safnaði í janúar ríflega 30 milljónum dollara (ca. 2 milljarðar) sem er líklega mesta fjárhæð sem safnast hefur í kosningasjóði í einum mánuði og til að toppa það þá mun Obama hafa safnað 3 milljónum dollara bara í gær.

Annars eru næstu prófkjör um helgina og síðan næsta þriðjudag. Þau ríki hugsa sér gott til glóðarinnar athyglislega séð þar sem niðurstaða ofur þriðjudagsins var langt í frá afgerandi hjá Demókrötum og baráttan er svo sem enn lifandi hjá Repúblikönum.

Reyndar var byrjað að ræða í gær að Huckabee yrði varaforsetaefni Repúblikana við vægast sagt fálegar undirtektir hörðustu hægri manna í flokknum sem segja að þá verði hópur fólks sem sitji heima í forsetakosningunum í haust.


Hugleiðing um skuldir og kvóta og fleira

Það var frétt í Morgunblaðinu fyrir tveimur dögum um skuldir meðalbóndans (kúabóndans minnir mig) og voru þær sagðar um 40 milljónir. Ég spurði sérfróðann mann hvort þetta væri tilkomið vegna uppbyggingar eða kaupa á framleiðslurétti.

Bæði var svarið. Ef þú byggir fjós í dag þá kostar það þig meira að kaupa framleiðsluréttinn fyrir hvert pláss (bás eða lausagöngupláss á hvern grip) heldur en byggja plássið. Þetta gengur ekki að mínu viti. Greinin er að blæða út þessum peningum og geldur fyrir það með ákaflega skertum hagræðingarmöguleikum og þar með hærra verðlagi.

Framleiðsluréttur í mjólk í dag er um 36 milljarða virði miðað við gangverð og ársvextir af því eru 3-4 milljarðar sem slagar hátt upp í beingreiðslur á ársgrundvelli (um 4 milljarðar).

Gott tel ég vera að skoða verulega vel fiskveiðistjórnunarlög en kvótasetning í landbúnaði er af sama meiði og þarfnast gagngerrar skoðunar við líkt og Haraldur formaður Bændasamtakanna sagði í Morgunblaðinu í gær. Þar lýsti hann þeirri skoðun sinni að færa sig frá kvótasegningunni og ég held að það sé eina leiðin til að greinin geti þróast eðlilega.

Það var byrjað að ræða að fara þessa leið fyrir einum fimm árum held ég en grundvöllur þeirrrar umræðu var ekki fyrir hendi þá. Ætli menn sjái ekki hlutina öðruvísi í dag?

Fleira hangir svo sem á spítunni.


Ástæðan fyrir mikilli kosningaþáttöku í prófkjörum vestan hafs

Hún er einföld vildi einn meina og er eftirfarandi:

Verkfall handritshöfunda í Hollywood gerir það að verkum að fólk þarf að drífa sig frá sjónvarpinu og fara að hugsa sjálfstætt og gera eitthvað skapandi. Eins og til dæmis að taka þátt í lýðræðinu. Það eru líka svo margar stjörnur sem eru í kringum kosningarnar að þetta er næstum því eins og þáttur.

Ég er ekki frá því.


Samantekt prófkjöra gærdagsins

Repúblikanar fyrst. McCain náði ekki því takmarki sínu að hrista hina frambjóðendurna af sér og í raun stóðu þeir sig allir þrír (Romney, Huckabee, Paul) betur en við var búist. Reyndar hafði maður á tilfinningunni að Huckabee gæti náð því sem hann gerði. McCain vinnur þó nokkur stór ríki og er vel á undan í kjörmannatölu og líklega fer þetta að verða öruggt hjá honum

Þá að Demókrötum. Clinton má vel við una og bara vera nokkuð ánægð. Miðað við kannanir þá kemur hún vel út og vinnur stóru ríkin vel. Það skilar sér í fjölda kjörmanna. Einnig er athyglisvert að hún hafði oft yfirhöndina meðal þeirra kjósenda sem ákváðu sig síðustu þrjá dagana fyrir kjördag. Það var mikilvægt. Obama nær þó þeim árangri að vinna ein 13-14 ríki og fá þónokkuð af kjörmönnum, alveg nóg til að það sé spenna áfram þó að úr þessu verði Clinton að teljast þónokkuð sigurstranglegri. Það er samt aldrei að vita núna í framhaldinu þegar Obama hefur tíma til að koma sér á framfæri í hverju ríki fyrir sig, það virðist henta honum.

Mestu vonbrigði Obama og þá um leið ánægjulegasti sigurinn hjá Clinton hlýtur að teljast vera í Kaliforníu. Bæði vegna skoðanakannana sem bentu síðustu dagana til mikillar fylgisaukningar Obama og síðan ekki síður vegna mikils stuðnings sem hann hafði á meðal "stjarnanna" í ríkinu. Aftur á móti held ég að sigur Clinton í Massachusets skipti litlu máli varðandi áframhaldið eins og eitthvað hefur verið gert með í morgun, sá sigur var alltaf öruggur að mínu mati.

Í kjörmönnum talið (samkvæmt RCP) hefur Obama smá forskot ef undan eru teknir sjálfkjörnir kjörmenn sem hafa gefið upp stuðning sinn. Obama er með 694 kjörna kjörmenn og Clinton 686 slíka. Það er því í raun ekki hnífurinn á milli þeirra.

Og svo er bara að sjá framhaldið.


Samantekt forvals - I

Demókratar:

Hilary Clinton vinnur Oklahoma, Arkansas, Tennessee, New York, New Jersey og Massachusets. Einnig Kaliforníu og Arizona.

Barack Obama vinnur Georgia, Illinois, Alabama, Delaware, Norður-Dakóta, Kansas, Idaho, Konnecticut, Kólóradó, Utah og Minnesota. Einnig Alaska og Missouri.

Óljóst er með New Mexico (gæti tafist um einhverja daga að telja þar).

Repúblikanar:

McCain vinnur Illinois, Konnecticut, New Jersey, New York, Delaware, Oklahoma og Arizona. Einnig Missouri og Kaliforníu.

Huckabee vinnur Arkansas, Georgia, Tennessee, Vestur-Virginíu og Alabama.

Romney vinnur Utah, Massachusets, Norður-Dakóta, Kólóradó og Minnesota. Að auki sýnist mér hann vinna Montana. Einnig Alaska.

 

Uppfært síðar


Fyrstu tölur í seinni hálfleik

Nú er hægt að segja að maður sé kominn í seinni hálfleikinn en hátt í tíu ríki lokuðu kjörstöðum núna klukkan tvö og birtu fyrstu tölur sínar í framhaldi af því.

Strax við lokun kjörstaða var Clinton lýst sigurvegari í Tennessee og New York. Obama er aftur á móti með yfirhöndina í Minnesota og Norður-Dakóta sem og Idaho (sem gefur fáa kjörmenn reyndar).

McCain leiðir eins og er í New York með nokkrum mun og eins í Tennessee og Huckabee er ágætlega staddur í nokkrum ríkjum. En það er lítið komið fram í þessum ríkjum eins og er en skýrist væntanlega mikið næstu klukkustundina.

Uppfært: McCain hefur verið lýstur sigurvegari í New York og fær þar með 101 kjörmann á flokksþingið í haust.

Uppfært: Obama hefur unnið Delaware 53% gegn Clinton 42%. Þá hefur McCain unnið hjá Repúblikönum í Delaware 45%, Romney 33%, Huckabee 15% og Paul 4%.

18 kjörmenn voru í boði í Delaware.

Uppfært: Nú hefur Clinton verið lýstur sigurvegari í New Jersey og Masachusets, tveimur stórum ríkjum með fjölda kjörmanna. Mikilvægt fyrir hana og sýnist mér hlutirnir sveiflast til hennar frekar en hitt. Þá hefur Obama verið lýstur sigurvegari í Norður-Dakóta, Kansas, Konnecticut og Minnesota.

Um leið og Utah lokaði kjörstöðum sínum var Romney lýstur sigurvegari þar hjá Repúblikönum sem kemur auðvitað ekkert á óvart í því mormónaríki. Þá var Huckabee nú rétt í þessu lýstur sigurvegari í Alabama. McCain hefur síðan unnið Oklahoma og Arizona.


Clinton vinnur í Arkansas

Það var held ég öllum ljóst að Clinton myndi vinna í Arkansas og útgönguspár staðfesta það. Svo virðist sem sigurinn verði stór eða 67%-31% Clinton í vil yfir Obama.

Þetta kemur ekkert á óvart frekar en að Obama vinni Illinois og svipaðar tölur koma líklega til með að sjást Clinton í vil í New York þar sem hún situr nú sem öldungadeildarþingmaður líkt og Obama í Illinois.

Uppfært : Huckabee hefur verið lýstur sigurvegari hjá Repúblikönum. Hann virðist ætla að standa fyrir sínu í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband