24.4.2009 | 17:15
Skoðanakannanir og væntanleg kosningaúrslit
Það er engin breyting á vanhæfni fréttamanna til að búa til fyrirsagnir um skoðanakannanirnar undanfarnar vikur. Hinir og þessir flokkar stærstir hér og þar og miklar breytingar út og suður þrátt fyrir að oft sé hreyfing og mismunur innan vikmarka. En nóg um það.
Þrátt fyrir að undanfarin ár hafi kannanir farið að liggja nær kosningaúrslitum þá ætla ég að spá því að þessar kosningar verði undantekning þar frá. Ég held að kosningaúrslit bregði verulega frá könnunum síðustu daga en það eru þær kannanir sem ættu að vera marktækastar.
Óvissuþátturinn er auðvitað óvenjulegar aðstæður miðað við undanfarnar kosningar sem mér virðist hafa gefið lægra svarhlutfall sem og mun hærra hlutfall svarenda sem segjast ætla að skila auðu. Þá tel ég einnig fyrirfram að kosningaþátttaka verði lægri en verið hefur. Þessi atriði veikja nokkuð forspárgildi kannananna.
Eftir að hafa grúskað nokkuð í þessum könnunum sem og könnunum og kosningaúrslitum frá fyrri kosningum ætla ég að spá því að úrslit morgundagsins verði töluvert frá könnunum, a.m.k. hjá einhverjum flokkanna.
Ég spái eftirfarandi þingsætafjölda á hvern flokk:
Borgarahreyfing verður ótvíræður sigurvegari kosninga með 7-9 þingmenn.
Sjálfstæðisflokkur bíður algjört afhroð, mun verra en kannanir segja til um, sem var nú samt nokkuð og fær 12-14 þingmenn.
Samfylking kemur betur út en kannanir segja og fær 21-24 þingmenn.
Framsókn verður á svipuðu róli og kannanir segja með 6-8 þingmenn.
VG fer síðan nokkuð niðurfyrir fylgi kannana undanfarna daga og kemur út með 10-15 þingmenn.
Ég er með líkleg nöfn miðað við þetta í reiknilíkaninu mínu en læt vera að flagga því eitthvað. Í lokin spái ég síðan þriggja flokka stjórn í framhaldi kosninga.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.