Hvers getur maður vænst af ólaunuðum starfsmanni?

Ég ætlaði að kjósa í dag, utankjörfundar hér í Horsens eins og fleiri. Ég komst reyndar ekki að til þess frekar en einhverjir aðrir, sem ég hef ekki tölu á.

Í mínum huga hefði verið einfalt að komast hjá þessari uppákomu sem var í dag.

Málið er að hér á svæðinu búa tiltölulega margir Íslendingar, talið í hundruðum. Það gaf alveg augaleið fyrirfram að hálfur annar tími dugði engan veginn til að sinna þeim fjölda sem myndi kjósa. Það versta í því er reyndar að við hjón vorum búin að reyna að ná af ræðismanninum til að kjósa fyrr og komast þannig hjá svona löguðu. Þeim tölvupóstum svaraði hann ekki.

Tímasetningin var síðan annar höfuðverkur. Það er eiginlega lágmark að hafa hluta þess tíma sem boðið er uppá kosningu hjá ræðismanni utan hefðbundins vinnu-/skólatíma.

Ég veit vel að ræðismannsstarfið er ólaunað en þjónusta af þessu tagi verður að vera útfærð betur á álagsstöðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Svo er annað varðandi þessar utankjörfundarkosningar. Þeir kjörseðlar sem manni er boðið upp á eru greinilega bara ætlaðir þeim sem kjósa utankjörfundar á Íslandi.

Sem dæmi þarf maður að skrifa lögheimili, mitt lögheimili er í dag hér í Danmörku, ég á tæknilegt lögheimili á Íslandi hjá pabba og mömmu í Varmahlíð en ég veit að ég er á kjörskrá í SV kjördæmi þar sem síðasta lögheimili mitt á Íslandi var í Mosfellsbæ.

Hvaða lögheimili á ég að setja þarna?

Annað, umslagið sem maður fær til að setja allt í er með þremur reitum, einum fyrir nafn sýslumannsumdæmisins, einum fyrir póstnúmer og einum fyrir póstumdæmi.

Hvergi stendur að þetta eigi að fara til Íslands og ekki gert ráð fyrir að maður skrifi það. 

Eg held að dómsmálaráðuneytið verði að búa til utankjörfundarseðla sem gera ráð fyrir að fólk kjósi/eigi lögheimili utan Íslands

Rúnar Birgir Gíslason, 21.4.2009 kl. 09:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband