7.2.2009 | 19:04
Maður dagsins er Ingimundur
Ég átti aldrei von á öðru en að Ingimundur Friðriksson myndi verða við bón forsætisráðherrans og hverfa frá starfi sínu sem einn þriggja seðlabankastjóra. Þar fer vandaður embættismaður, sem skynjar að sátt og traust er það sem máli skiptir. Hann er ekki þátttakandi í því að búa til pólitískt moldviðri, veit vel að slíkt gagnast ekki þjóð á heljarþröm.
Eina sem ég get sett út á er að hann skildi ekki bregðast við um leið og bréfið barst en skiljanlega hefur hann viljað ræða málin við formann bankastjórnarinnar. Gæti jafnvel hugsað mér að hann hafi talað því máli að vinnufélagar hans tveir gerðu slíkt hið sama og hann.
En það varð auðvitað ekki og kemur mér heldur ekki á óvart. Nú verður staðið í hatrammri pólitík tengdri við stjórnmálaflokka þegar það er nákvæmlega ekki það sem meirihluti þjóðarinnar vill. Þetta heitir að taka flokkshagsmuni fram yfir þjóðarhagsmuni. Um leið er þetta alvarlegur mislestur á ástandið og þjóðarsálina og alvarlegur gjörningur til eyðileggingar almannahagsmuna.
En var ekki annars fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins búinn að viðurkenna að brotthvarf bankastjórnar SÍ væri nauðsynleg með því að biðja þá um að víkja. Varla hefði hann gert það nema hafa sannfæringu fyrir því. Og ef ekki var sannfæring fyrir því þá var einungis um leikfléttu að ræða til að hanga lengur á völdunum. Veit hreint ekki hvort er verra.
Eftir sitja hinir tveir og vígbúast til pólitísks stormviðris. Það er ekki nema von að menn klóri sér í höfðinu hér úti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.