18.1.2009 | 18:53
Niðurstaða fengin
Þá er komin mynd á nýja forystu Framsóknarflokksins, einungis ritarakjör eftir. Reikna fastlega með því að Sæunn haldi því embætti reyndar.
Ég vil byrja á því að óska nýkjörnum formanni, Sigmundi Davíð, til hamingju með kjörið. Ég studdi reyndar Höskuld á móti honum og í raun finnst mér Höskuldur hafa verið sterkur í gegnum flokksþingið. En þetta er lýðræðisleg niðurstaða grasrótarinnar.
Því er ekki að neita að margir þungavigtarmenn flokksins hafa undanfarið stutt Pál Magnússon og þannig auðvitað reynt að leggja línurnar fyrir almenna flokksmenn.
En grasrótarframsóknarmenn láta ekki segja sér fyrir verkum heldur taka sínar ákvarðanir sjálfstætt og hafa í dag sýnt styrk sinn mjög sterklega á þeim nótum. Af því er ég hrifinn þó úrslitin hafi ekki verið mér fullkomlega að skapi.
Í varaformannskjörinu sá ég aldrei neitt annað í spilunum og þau úrslit koma mér ekki á óvart.
En það er ærið verk fyrir höndum fyrir nýja forystu. Það þarf að breyta til og mynda traust en traust fer fljótt og er seinunnið til baka. Þetta er fyrsta skrefið í þá átt en ákaflega mörg eru eftir og forystan þarf að sýna fljótt og örugglega hvernig þau skref verða tekin.
Séu áherlsurnar réttar fylgi ég heilshugar með, en séu þær það ekki liggur farvegurinn annars staðar.
Það þarf að sýna skýra ábyrgð, heiðarleika, gegnsæi og takast á við aðsteðjandi vanda á félagslegum samvinnugrundvelli.
Ég sé tækifæri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.