16.1.2009 | 10:19
Ný Framsókn
Í dag hefst flokksþing okkar Framóknarfólks. Flokksþing þar sem tekist verður á um framtíðina hjá flokknum og um leið trúi ég því að það hafi áhrif á framtíð stjórnmála á Íslandi og þar með Íslands. Ég lít ekki á uppgjör við fortíðina muni eiga sér stað, slíkt er annarra að sjá um.
Síðustu ár hafa erfið innanflokks, í raun samfelldur átakatími síðustu fjögur ár og það er algjörlega ljóst í mínum huga að slíkt gengur ekki. Ekki fyrir flokkinn og þaðan af síður fyrir umbjóðendur hans, fólkið í landinu sem treysti á hann sem afl til framfara samfélagsins. Flokkur eða samtök sem ekki ná að vinna sig fram úr þessum aðstæðum hafa ekkert fram að færa fyrir aðra, orkan sem til staðar er fer ekki í þá vinnu sem hún þarf að gera.
Ég horfi fram á það á þessum tímapunkti að þessu tímabili ljúki svo hægt verði að vera til gagns fyrir þjóðfélagið hér í frá.
En það er ekki bara átökin sem þarf að leggja til hliðar. Það þarf einnig að huga að fyrir hverja unnið er og ekki sé hvikað af þeirri leið að fólkið í landinu er það sem málið snýst um. Því miður hefur verið horfið of oft frá grunngildum flokksins undanfarin misseri og það hefur eðlilega komið niður á honum en það sem verra er, það hefur einnig bitnað á samfélaginu. Grunngildin eru samvinna og að standa vörð um félagslega þætti. Þegar vel virðist ganga er eins og þetta séu fyrstu þættirnir sem hverfa úr huganum en það er einmitt þá að mínu mati, sem þarf fyrst og fremst að hafa þá í huga.
Það þarf líka breyttar áherslur í íslenskum stjórnmálum. Það þarf meira lýðræði, það þarf meira gegnsæi, það þarf að sýna meiri ábyrgð og það þarf meiri samvinnu. Í þessum efnum getur og á Framsóknarflokkurinn að taka frumkvæði í á trúverðugan hátt. Það er fyrsta og eina tækifærið til þess nú um helgina og verði það ekki gert á flokkurinn ekkert erindi í stjórnmál framtíðarinnar.
Ég hef verið formaður framsóknarfélags síðustu árin og tekið á mig ýmislegt í þeim efnum. Oft hefur maður látið í sér heyra en kannski enn oftar ekki verið forystu flokksins nægilegt aðhald varðandi þá grundvallarsýn sem maður hefur í þjóðfélagsmálum og því sér maður eftir nú. Af þessu starfi hef ég látið nú og tekst á við að víkka sjóndeildarhringinn í öðru landi, sem ég reyndar tel bæði hollt og nauðsynlegt. Sama hundaþúfan er ekki það besta í þessum efnum.
Ég er því hættur stjórnmálaþátttöku að sinni en það er alveg öruggt að ég kem til baka. Ég hef of miklar skoðanir til að hætta alveg enda er ég líka á því að fólk eigi að taka þátt í samfélaginu.
Að lokum varðandi forystukosningar í flokknum þá hef ég ekki tekið afstöðu til frambjóðenda þó svo að vissulega hafi ég skoðun á því. Tel ekki endilega rétt miðað við framangreint að blanda mér eitthvað sérstaklega í það og treysti þar fyrir utan kjörnum fulltrúum á flokksþingi til að klára það mál með sóma.
Hins vega vil ég að ný forysta breyti hlutunum, bæði hjá flokknum og ekki síður í íslensku samfélagi í framhaldinu.
Lifið heil.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.