23.7.2008 | 21:37
(Fjölskyldu)Fréttir liðinna vikna
Lítið hefur maður sett fram í fréttum af okkur hér síðan við fluttum enda hefur verið í nógu að snúast. Maður var varla búinn að raða í íbúðina inn úr gámnum en sumarnámskeiðið mitt byrjaði. Það hljómaði einhvernveginn svo rómantískt að taka námskeið sem hét "turbo fysik" svona í fjarlægð á Íslandi. Þegar maður kom aftur á móti á staðinn fann maður fljótt að turbo nafnið var þarna annarra hluta vegna en hennar. Það var nefnilega svo að 6-9 einingar í eðlisfræði á þremur vikum, með tilraunum á laugardögum og munnlegu prófi í lokin, gerði það að verkum að annað varð að bíða á meðan. En björtu hliðarnar voru auðvitað þær að ég hafði þó þrjár vikur til að slípa dönskuna mína til fyrir prófið.
Eftir þetta og reyndar aðeins á meðan, höfum við þó haft tíma til að koma okkur betur fyrir og fara aðeins um svæðið og landið auk þess að ganga frá flestum praktískum hlutum. Dýragarðsferðir hafa verið ákaflega vinsælar hjá stelpunum auk strandferða og það var nú engin smá upplifun Þegar þær fengu að handfjatla nashyrningshorn í einni slíkri heimsókn. Ég held bara að nashyrningarnir séu uppáhaldsdýr Eyhildar, a.m.k. þessa dagana.
Við höfum einnig farið í tvær ferðir til Sjálands (en við erum auðvitað stödd á Jótlandi) og í annarri þeirra stoppuðum við nærri heilan dag hjá vinafólki okkar er reka hestabúgarð (íslenski hesturinn auðvitað). Mjög ánægjuleg heimsókn þar sem ég fékk enn betri og meiri þjálfun í dönskunni. Þar fyrir utan var ákaflega tilkomumikið að sjá og fara yfir brýrnar á leiðinni. Fyrst Litlabeltisbrúna og síðan Stórabeltisbrúna. Mikil smíð báðar tvær og nú þarf maður bara að fara yfir til Svíþjóðar einn daginn til að fullkomna brúarþrenninguna (eða fernuna því þær eru tvær yfir Stórabeltið).
Svo þarf maður smá saman að komast inn í kúltúrinn hérna. Ég er búinn að sjá nokkrar þjóðaríþróttir þeirra Dana. Ein er að eiga hund, það er enginn maður með mönnum nema hann eigi hund. Því minni því betra. Kerfið er greinilega að eignast hund þegar fólk tekur saman og eiga hann í þónokkuð mörg ár áður en börnin koma í spilið. Næsta þjóðaríþrótt, a.m.k. hér á Jótlandi er að fara í verslunarferðir til þýskalands og þá helst með kerrur til að koma nógu og miklu magni af bjór og gosi með til baka. Þýsku kaupmennirnir eru meira að segja farnir að auglýsa að þeir selji fleiri vörur en gos, bjór og nammi. Þriðja íþróttin er síðan að taka sumarfríið sitt alveg háalvarlega. Það eru mikil brögð af því að loka í sumarfríinu eða þá fara í frí án þess að nokkur leysi þig af. Enda ganga hlutirnir ekki alveg jafn brjálæðislega hratt hér og á Íslandi.
En taki menn sumarfríið sitt alvarlega þá er hlutunum sko algjörlega öfugt farið með umferðarreglurnar og þá aðallega hámarkshraðann. Á hraðbrautunum er ekki nema lágt hlutfall sem er innan hámarkshraðareglunnar enda hafa orðið mörg og alvarleg slys í sumar. Þar fyrir utan sér með hin furðulegustu farartæki á hraðbrautunum. Ég held ég hafi séð Wolksvagnen sem smíðaður var fyrir stríð (já hann var smíðaður ekki framleiddur), heimatilbúna bíla og einn daginn keyrði ég meira að segja fram úr kornskurðarvél. Ofan á þetta er síðan ákaflega mikil kerrumenning hérna sýnist mér og hellingur af hjólhýsum að auki núna í sumar. En það er annar ákaflega auðvelt að aka hér um, allt merkt mjög vel og vel hannað.
Annar vil ég benda á þessa síðu þar sem ég held líklega áfram að hafa svona færslur í lágmarki en vera með svipaða ritstjórn og fram að þessu. Er reyndar að vinna tölfræðilega umfjöllun um hvert ríki fyrir forsetakosningarnar í USA í haust en það miðast hægt ennþá.
Nýr sími hjá okkur er 4960794 en sömu netföngin auðvitað.
Það held ég.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Facebook
Athugasemdir
Smá leiðrétting frændi, það er bara ein brú á Stórabelti, en tvær á Litlabelti. Reyndar fer lestin í göngum undir Stórabelti en hún fer yfir gömlu brúnna á Litlabelti.
En þetta með að allt gangi hægt, man eftir því þegar ég flutti út, en svo venst maður þessu.
Rúnar Birgir Gíslason, 25.7.2008 kl. 21:37
Fattaði allt í einu hvað þú ert að meina með tveimur brúm yfir Stórabelti, vissulega eru þær tvær, maður man bara aldrei eftir þessari lægri sem liggur frá Fjóni yfir á litlu eyjuna.
Rúnar Birgir Gíslason, 25.7.2008 kl. 22:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.