17.3.2008 | 00:12
ESB
Heitasta málið í dag virðist vera ESB, ja svona fyrir utan Vaðlaheiðargöng, sundabrautina og upplausn á Landspítalanum. Það er svo sem af nógu að taka.
En varðandi ESB þá held ég að það sé kominn tími á að breyta aðeins nálguninni á umræðu um þau mál öll sömul. Þrátt fyrir að hafa alla tíð verið á móti aðild að Evrópusambandinu hef ég aldrei talið annað en í framtíðinni kæmi að því að taka ákvörðun um aðild. Það yrði þá gert á þeim grunni að viðræður væru búnar að eiga sér stað milli Íslands og Evrópusambandsins um fulla aðild Íslands að sambandinu og þá gæti maður tekið afstöðu á grundvelli staðreynda sem fyrir lægju úr þeim aðildarviðræðum.
Núna finnst mér þessi tími vera kominn. Núna á að setja fram samningsmarkmið Íslands í aðildarviðræðum við ESB og í framhaldi af því að fara í aðildarviðræður og sjá hvort samningsmarkmið okkar næðust fram í þeim viðræðum.
Síðan á að leggja það sem kemur út úr þeim viðræðum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefur almenningur staðreyndir úr aðildarviðræðunum til að byggja atkvæði sitt á en ekki fyrr.
Í dag grundvallast nefnilega umræðan á frösum, skotum, sleggjudómum og svo auðvitað engri umræðu. Það sem ég vildi sagt hafa er að það eru engin rök í gangi því ekkert er fast á borði og þá geta allir látið gamminn geysa eða þagað, allt eftir atvikum.
Ef íslenska flokkakerfið ræður ekki við þetta, þ.e.a.s. ef liðsmenn flokkanna ráða ekki við þetta verkefni vegna hræðslu um að flokkarnir klofni, þá verður að fá nýja hugsun í nálgunina.
Ég vil sem sagt fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli skilgreindra samningsmarkmiða út frá stöðu og hagsmunum Íslands. Síðan vil ég taka ákvörðun á þeim grundvelli, sem við þetta skapast.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Margt til í þessu hjá þér. Málið er ef til vill það sem vegur þyngst er auðlindir okkar svo sem eins og sjávarnytjar. Fáum við að halda yfirráðum okkar yfir auðlindinni þá til að vernda hana, eða verða öll ráð af okkur tekin. Um þetta höfum við fengið afar misvísandi svör. Og úr því fæst sennilega ekki skorið fyrr en hafnar eru aðildarviðræður. En ég treysti ekki núverandi stjórnvöldum til að halda málum okkar til streytu. Til dæmis er Samfylkingin afar klofin í afstöðu sinni til sjávarútvegs, Ingibjörg Sólrún gerir sér til dæmis enga grein fyrir mikilvægi hennar. Ég mun því ekki treysta henni til að hafa tök á þeim málum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.3.2008 kl. 09:39
Það er einmitt það sem ég er að meina, fá konkret hvað er í boði og hvað ekki. Þá fyrst er hægt að taka ákvörðun sem vit er í.
Ragnar Bjarnason, 18.3.2008 kl. 20:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.