14.3.2008 | 20:43
Gettu betur úrslitin
Svo er málum farið að ég held með MR í kvöld og reyndar oftast í Gettu betur hversu ótrúlegt sem það kann nú að teljast.
Og af hverju skildi það nú vera? Þetta á sér auðvitað sögu eins og svo margt annað en hún er frásegjanleg í stuttu máli.
Fyrir mörgum árum var ég nefnilega keppandi í Gettu betur, var reyndar í keppnisliði míns skóla í 3 vetur, 1992-1994. Fyrsta árið var ekkert sérstakt, fengum eina keppni og töpuðum fyrir sterku liði VMA í það skiptið.
Næsta vetur gekk okkur betur, unnum okkur inn í 8-liða úrslit og mættum þar MR og fór sú keppni fram í ráðhúsinu í Reykjavík. Man ekki við hverja við kepptum í fyrstu keppni vetrarins en næsta keppni, sem var um það að komast í 8-liða úrslitin var á móti ME. Æsispennandi keppni með mikilli dramatík þar sem bráðabani skar úr um úrslit eftir sambandsleysi milli spyrils/dómara við báða keppnisstaði og í besta falli næstum því svindls hjá andstæðingunum. Það væri gaman að heyra þessa keppni aftur.
Keppnin við MR var þvílík upplifun, ákaflega gott heimatilbúið skemmtiatriði af okkar hálfu og vel þjálfað lið sem mætti á staðinn. Við göntuðumst með að liðið sem ynni þessa viðureign yrði meistari þess árs og sú varð síðan auðvitað raunin.
En það sem uppúr stóð voru almennilegheit, virðing og móttökur andstæðinga okkar, þ.e.a.s. þeirra þriggja sem kepptu fyrir MR og þá sérstaklega Ólafs Jóhannesarsonar. Við áttum ágæta stund fyrir keppni meðan verið var að gera allt klárt í upptöku og síðan einnig eftir keppni. Þetta hefur mér alla tíð síðan verið ógleymanlegt sem og auðvitað góð vinabönd okkar þriggja sem kepptum saman þennan veturinn þó einn okkar sé genginn sinn veg.
Við féllum fyrir MR þennan dag en einhverra hluta vegna hef ég alltaf taugar til þess skóla í Gettu betur síðan. Auðvitað töpuðum við bara á óheppni. Í þá daga voru hraðaspurningarnar nefnilega þannig að það voru tvö sett af þeim. Við lentum í því að fá seinna settið og sátum undir fyrra settinu og svöruðum í hljóði engu færri spurningum en MR en síðara settið var okkur mun erfiðara. Því fór sem fór en gaman var þetta.
Næsta vetur á eftir komumst við aftur í 8-liða úrslitin en töpuðum þar fyrir ML sem var frekar sárt man ég, mun sárara en árið á undan. En svo lauk afskiptum mínum af Gettu betur þegar ég þjálfaði lið einn vetur (95-96 minnir mig) og það var einmitt lið ML. Það fór í 8-liða úrslitin en tapaði þar á ævintýralegan hátt í blálokin.
8-liða úrslit eru mín óheppni greinilega.
Athugasemdir
Smá ruglingur hérna Raggi, það var síðasta árið sem þú kepptir sem þessi ME keppni var, ég var með þér það ár. Það voru þú Bjössi og Tryggvi sem kepptuð við MR.
Ég man enn eftir því hvernig mér leið í stúdíóinu á Akureyri eftir sambandsleysið í keppninni við ME, fyrst fór maður langt niður og svo mjög langt upp.
Rúnar Birgir Gíslason, 14.3.2008 kl. 22:01
Miðað við aðstæðurnar er ég ekki hissa að maður sé smá ruglaður 14 árum síðar.
Ragnar Bjarnason, 14.3.2008 kl. 23:03
Sæll Ragnar
Ég var liðsstjóri MR-inga þetta ár og man vel eftir keppninni í Ráðhúsinu. Ólafur er reyndar Jóhannes Einarsson - það má ekki rugla honum saman við afa sinn í móðurætt, Óla Jó.
Minnisstæðast við þessa keppni voru æðisgengnar armbeygjur miðjumannsins ykkar milli liða í keppninni.
Við þökkuðum ykkur reyndar sigurinn í keppninni þetta árið - svona óbeint. Málið er að við í þjálfunar/liðstjórnarteyminu höfðum lengi skammast í strákunum fyrir að vera of seinir á bjölluna. Í keppninni gegn Laugum fengu þeir hins vegar að upplifa það trekk í trekk að missa bjölluna yfir til andstæðingsins eftir að hafa beðið of lengi. Í kjölfarið mættu þeir allt öðruvísi stemmdir í næstu viðureignir.
Jamm - minningar...
Kv,
Stefán Pálsson
SP (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 00:35
Sæll Stefán
Takk fyrir þetta innlegg, met það mikils. Minn ruglingur með nafn Jóhannesar, vissi um Fljótatengslin hjá honum og minnti endilega að hann hefði borið nafn afa síns (reyndi að sjá þetta á vef RÚV því ég hélt að þar væri algjör upplýsingavefur um Gettu betur, þyrfti samt að koma svoleiðis upp finnst mér) en svona getur minnið stundum svikið mann.
Annars var það þannig að við ákáðum þá taktík fyrir fram að vera snöggir á bjölluna, æfðum það sérstaklega. En svo voru armbeygjurnar mínar ekki svo æðisgengnar var það nokkuð? (og reyndar ekki miðjumanns, ég var vinstra megin.)
Ragnar Bjarnason, 15.3.2008 kl. 12:57
Raggi mér sýnist að wikipedia sé með ágætar upplýsingar um keppnina, allavega viðbót við RÚV
http://is.wikipedia.org/wiki/Gettu_betur
Rúnar Birgir Gíslason, 15.3.2008 kl. 15:50
Öllu heldur - kappinn heitir Ólafur Jóhannes Einarsson - og hefur vissulega alltaf verið kallaður Óli Jó.
SP (IP-tala skráð) 16.3.2008 kl. 20:42
Þannig var það. Ekki algjörlega úr lausu lofti hjá mér þá.
Ragnar Bjarnason, 16.3.2008 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.