Vandræðin í klósettpappírssölunni

Nú er sölu- og söfnunartíminn genginn í garð og þá geta söluaðilar lent í ýmsum vandræðum, sérstaklega þegar þeir lenda á stjórnmálaáhugafólki.

Sjálfstæðismaðurinn kaupir ekki neitt nema að minnsta kosti fimm söluaðilar mæti á staðinn svo samkepnin sé örugglega í fyrirrúmi. Þá verður hann líka að vera öruggur um að hagnaðurinn renni til heils hóps fólks heldur verður hann að renna heill og óskiptur til þess einstaklings sem keypt er af honum til fullra hagsbóta.

Samfylkingarmaðurinn spáir verulega vel í málin og ákveður síðan að gera skoðanakönnun um hvort pappírinn sem boðinn er sé ekki örugglega vinsæll áður en af kaupum verður. Svo skemmir auðvitað alls ekki fyrir að geta gert upp í evrum og auðvitað verður framleiðslan að vera frá Evrópusambandinu.

Sá Vinstri-Græni kaupir ekkert því þetta er ekkert annað en kapitalisminn í sinni verstu mynd með arðráni þeirra sem framleiddu vöruna. Þar að auki er hann á móti klósettpappír og notar gras í staðinn (fjallagrös til hátíðabrigða þó það sé auðvitað alveg ómögulegt).

Framsóknarmaðurinn kaupir ekki nema söluaðilinn sé utan af landi og því lengra utan af landi því meira er keypt (ef það eru göng þangað er keypt tvöfalt). Þá er það næstum því nauðsynlegt að annað hvort mynd af sauðkindinni eða Guðna sé utan á umbúðunum sem auðvitað eru úr áli.

Sá Frjálslyndi fullvissar sig fyrst og fremst um að engir útlendingar hafi komið að hvorki framleiðslu- né söluferlinu. Svo er auðvitað algjörlega nauðsynlegt fyrir söluaðilann að geta fullvissað hann um að kvóti í nokkurri mynd sé algjörlega fyrir utan söluherferðina, hvorki hafi verið skipt niður á hverfi eða nokkrar hömlur settar á hvaða fjölda af pakkningum hver selur.

Sé söluaðilinn hins vegar á ferð í Þingeyjarsveit vandast málin auðvitað verulega ofan á það sem hér að undan er talið. Þá er auðvitað ekkert keypt á heimilinu nema að undangengnum fullum umræðum fjölskyldunnar, með skiptingu í meirihluta og minnnihluta sem, takið eftir, springur að minnsta kosti þrisvar í umræðunni. Þá verður auðvitað líka að safna undirskriftum í sveitarfélaginu um það hvort ekki verði að fara fram kosning um hvaða gerð eigi að kaupa.

Þetta ber aðallega að skoðast í ljósi glettninnar í tilefni dagsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Tær snilld

Guðmundur Ragnar Björnsson, 11.3.2008 kl. 14:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband