Hverjir eru þessir þeir?

Í framhaldi af færslunni minni um meirihlutaskipti í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar ætlaði ég að fjalla aðeins um þennan undirskriftarlista sem ekið er með um Þingeyjarsveit þessa dagana.

Í sjálfu sér er ekkert nema gott um það að segja að fólk hafi áhuga á málefnum líðandi stundar í samfélagi sínu og komi skoðunum sínum á framfæri. Ein leið til þess er að safna undirskriftum með málstað sínum og verður sú aðferð sífellt vinsælli. Það er svona mánaðarlegur viðburður að Reykvíkingar afhendi borgarstjóra sínum undirskriftarlista um eitt og annað, hitt og þetta.

En hér í Þingeyjarsveit er þessi undirskriftarsöfnun svolítið á fölskum forsendum. Höfuðið er að það sé verið að skrifa undir að fram fari kosning í sveitarfélaginu um sameiningu þess við Aðaldælahrepp. En í rauninni er verið að safna undirskriftum gegn þessari sameiningu því þeir sem standa á bakvið þetta eru þeir sem ekki vilja þá sameiningu og urðu undir í sameiningarkosningum í nóvember. Nú á hins vegar að safna verulega liði á móti þessu og fella tillöguna.

Sá tími er bara liðinn. Það var kosið í nóvember og þá var tækifærið en í aðdraganda þeirrar kosningar kom skýrt fram á fundum að þetta væri möguleiki í stöðunni. Því tel ég að þá hafi verið kosið um sameiningu, ekki endilega þeirra þriggja sveitarfélaga heldur einfaldlega sameiningu þeirra sem vildu sameina.

Þessi undirskriftarsöfnun hér er ákaflega vel skipulögð, eiginlega með betri skipulagningu sem ég hef séð hér um slóðir. Það er keyrt um og valið fólk sent á ákveðna bæi þar sem horft er í áralöng vináttubönd, ættartengsl, vinnutengsl eða annað sem hentar. En þegar sendiboðar eru spurðir út í hlutina er fátt eða ekkert um svör og farið undan í flæmingi. Jafnvel fæst ekki upp hverjir standa að baki söfnuninni, "þetta er bara áhugahópur fólks" er svarið. Svo hart er gengið fram að fólk fær jafnvel tæplega frið í heimahjúkrun sem verið er að sinna.

Ég fékk heimsókn í gær eins og ég átti von á en að gömlum og góðum sveitasið ætlaði ég að bjóða til stofu og eiga spjall við viðkomandi. En því miður stóð illa á, góður en því miður sjaldséður gestur var í heimsókn hjá mér og því gat ég ekki sinnt hinu eins og ég vildi gert hafa. Því miður. Hins vegar var mér sagt í dag að það hefði sjálfsagt ekki skipt máli því sendiboðar höfðu stífa tímaáætlun og vildu hvergi kaffi þiggja, hvað þá meira.

En í lokin er vert að geta þess að sá aðili sem söðlaði um samstarfsfélaga hefur alltaf komið hreint fram í þessum sameingingarmálum. Hann gaf út það sem hann vildi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og öllum átti að vera ljóst hvar hann stæði í þessu máli og hvað hann myndi að hafast í því. Þetta áttu bæði kjósendur og samstarfsaðilar á framboðslista að vita en kannski hafa menn haldið að hann myndi hreinlega lúffa með sitt.

PS Og eitt var rangt hjá Hildi Jönu í kvöldfréttatíma sjónvarpsins. Ásvaldur, fráfarandi oddviti, er Þormóðsson en ekki Þorvaldsson. Að auki set ég spurningamerki við val hennar á síðasta viðmælanda hennar í fréttinni.

Svei mér þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Sæll frændi, fínt að fá pistla um þetta, langar að fylgjast með en takmarkað af fréttum sem maður finnur. Þetta er allavega ekki jafn mikið í fréttum og slitin í Rvík.

En talandi um villur, einhver vefmiðillinn var með frétt um þetta og þar voru það B og J listi sem slitu samstarfi og svo var Halli Bó orðinn Borgarsson.

Rúnar Birgir Gíslason, 2.3.2008 kl. 07:23

2 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Sæll.

Já eitthvað skrifar maður um þetta enda nærtækt. Allt of margar villur leynast í fréttaflutningi þar sem manni virðist hraðinn hafa algjöra yfirhönd yfir öllu sem heitir siðferði eða vönduð vinnubrögð.

Ragnar Bjarnason, 2.3.2008 kl. 14:39

3 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Gleymdi líka að nefna það, sammála um valið á síðasta ræðumanni í fréttinni. Það á að hleypa báðum sjónarmiðum að.

Rúnar Birgir Gíslason, 2.3.2008 kl. 14:54

4 identicon

Sæll Raggi (og aðrir lesendur).
  Nú get ég ekki lengur setið á mér og verð að setja inn hérna nokkrar línur. Ég finn hvergi annars staðar í bloggheimum skrif um þessi mál. Ekkert blogg er tengt fréttinni sem kom á mbl.is og hefði verið forvitnilegt að sjá hvað hefði gerst ef þú hefðir verið með blog þar og gert svo. Mig sætir furðu að þú skulir ekki fá nein skrif hérna inn hjá þér en fyrir því geta náttúrulega legið margar ástæður.

1. Þú ert yfirlýstur framsóknarmaður og enginn þorir að skrifa inn hérna af ótta við að fá slíkan stimpil (þeir verða alltaf færri sem viðurkenna)
2. Það eru bara allir sammála þessu sem þú skrifar og sjá enga ástæðu til þess að bæta nokkru við.
3. Það eru einhverjir aðrir en íbúar í Þingeyjarsveit sem lesa bloggið þitt (1000 á viku).
4. Þú ert rökfastur maður og þeir sem eru þér ósammála þora ekki að skrifa inn á bloggið þitt af ótta við að þú hakkir þá í spað.
5. Þeir sem eru þér ósammála eru svo uppteknir við að ganga í hús með undirskriftarlista að þeir hafa ekki mátt vera að því að liggja á blogginu.

Hvað varðar skrif þín um þetta mál þá tek ég undir það hjá þér að fréttaflutningur var óvandaður. Vinnubrögð þeirra sem safna undirskriftum eru hins vegar vel skipulögð og markviss. Ég vona það að þegar allt er yfirstaðið þá geti íbúar nýs sveitarfélags (Suðurþing?) tekið höndum saman og laggst allir á eitt með það að efla og styrkja það af heilindum með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi. Við eigum í því að horfa bjartsýn til framtíðar og þora að taka djarfar ákvarðanir með hag barna okkar að leiðarljósi en ekki að horfa bara um öxl (eða loka augunum fyrir því hver staðan er í dag) og halda í eitthvað sem var og kannski ekki einu sinni er lengur.

Aðalsteinn Már (IP-tala skráð) 3.3.2008 kl. 23:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband