19.2.2008 | 20:44
Húsnæðissparnaðarkerfi - vaxtabætur
Ég er ákaflega skeptískur á boðað húsnæðissparnaðarkerfi félagsmálaráðherra. Fór ekki illa fyrir síðasta þess lags kerfi, sparimerkjum eða einhverju álíku? Ég sé ekki að þetta leysi einhvern vanda ungs fólks við sín fyrstu húsnæðiskaup.
Það getur verið að grunnhugmyndin sé í lagi (veit það samt ekki alveg), viðbótarlífeyrissparnaðarkerfið er til dæmis mjög gott en þetta getur ekki fallið alveg eins og það.
Hins vegar finnst mér mun meiru skipta að skoða frekar vaxtabætur, bæði hámarksfjárhæð þeirra sem og skerðingarmörk vegna eignamyndunar.
Ríkisstjórn ræður ekki vaxtaákvörðunum, það gerir markaðurinn. Ríkisstjórn ræður ekki húsnæðisverði, það gerir markaðurinn einnig. En það sem ríkisstjórn getur gert er að létta undir með þeim sem borga vextina.
Það á að gera með því að hækka hámarksfjárhæð vaxtabótanna og draga úr skerðingu þeirra vegna eignamyndunar. Vextir eru til dæmis hærri í dag en fyrir fjórum árum og koma þar af leiðandi harðar niður á fólki í dag. Fólk þarf einnig að taka hærri lán í dag vegna hærra húsnæðisverðs. Þess vegna eiga vaxtabæturnar að vera hærri. Síðan vita auðvitað allir að fasteignamatið hefur hækkað umtalsvert, svo ekki sé minna sagt, seinustu ár og það rennir stoðum undir hærri vaxtabætur einnig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.