Forval í Flórida á morgun

Það er forvalsdagur í Flórida á morgun. Aðal athyglin er á forval Repúblikana því hjá Demókrötum verða engir kjörmenn úr ríkinu á flokksþinginu í sumar. Þeir kjósa samt því flokkurinn í ríkinu stendur að því en yfirstjórn flokksins setti refsingu vegna þess að forvalið er haldið of snemma eða fyrir 5. febrúar. Það er í raun fyrsti opinberi prófkjörsdagurinn.

Í kapphlaupi Repúblikana virðist vera almennt orðið viðurkennt að um sé að ræða baráttu tveggja manna, John McCain og Mitt Romney. Mike Huckabee er orðinn fjarlægur þeim þó svo að hann eigi vinningsmöguleika í einhverjum ríkjum 5. febrúar þá er ekki talið að það sé honum nóg til að koma til greina sem forsetaefni Repúblikana. Rudolph Giuliani ákvað að setja öll eggin í sömu körfuna og sleppa baráttunni í þeim prófkjörum, sem lokið er og stóla á sigur í Flórida. Það plan virðist vera að springa í höndunum á honum og því horfir svo að hann sé að sigla hægt og rólega í land í þessari baráttu. Ron Paul er svo líklega neðstur af þeim fimm þó svo að vísu að hann hafi náð öðru sæti í Nevada þá hefur hann verið í harðri baráttu við Giuliani um neðsta sætið.

En hvað segja kannanir fyrir morgundaginn? Við skulum líta á það.

 

Mitt Romney

31%

John McCain

31%

Rudy Giuliani

16%

Mike Huckabee

11%

Ron Paul

4%

Some Other Candidate

4%

Svona er staðan fyrir morgundaginn en ef maður skoðar aðrar kannanir sýnist manni McCain hafa örlítið forskot. Romney og McCain hnífjafnir og Giuliani langt á eftir. Ef McCain vinnur á morgun er staða hans orðin mjög góð en ef Romney vinnur þá er allt opið ennþá þegar siglt er inn í kosningar ofur þriðjudagsins. Þess má geta að slagurinn á milli þeirra tveggja á toppnum er orðinn nokkuð harður og föst skot hafa gengið á milli þeirra í vikunni, enda mikið undir. Svínatilvitnunni í fyrri færslu var til dæmis höfð eftir McCain um Romney. Ég efast ekki um að þetta verður spennandi en spái McCain sigri með 3% mun. Síðan komi Romney og fast á hæla hans Giuliani sem fái betri kosningu en nú bendir til í könnunum.

Staða frambjóðenda Demókrata í Flórida er snúin eins og ég hef minnst á áður. Kjörmennirnir telja ekki og þeir skuldbundu sig til að vera ekki í baráttu þar. Samt vofir spennan yfir, sérstaklega eftir úrslitin á laugardaginn og eftirhreytur þeirra sem og stuðningsyfirlýsingu Kennedy ættarveldisins í gær og dag (ekki alls en þeirra mikilvægustu). Hilary er með mjög gott forskot sem hún mun líklega nota sér, verði það úrslitin, til að fara inn í ofur þriðjudaginn í uppsveiflu.

Reyndar hefur hún opnað á það að kjörmönnum Flórida og Michigan verði leyfð þátttaka á flokksþinginu, væntanlega til að auka vægi forvalsins á morgun.

Annars held ég að stuðningur Kennedys við Obama skipti verulegu máli í kosningum 5. febrúar og ekki minna máli varðandi stuðningsyfirlýsingar sjálfkjörinna fulltrúa (super delegates) á flokksþingið. Eins og staðan er í dag hefur Obama tryggt sér fleri kjörna fulltrúa en mun fleiri sjálfkjörnir hafa gefið sig út fyrir að styðja Clinton. Þess vegna er hún talin vera um 80 kjörmenn í forskot. Menn telja að nú þegar Kennedy hefur sagst styðja Barack þá fylki mun fleiri sjálfkjörnir fulltrúar sér í raðir Obama.

Það held ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband