25.1.2008 | 18:14
Staðan daginn fyrir forval í Suður-Karólínu
Ég heyrði í hádegisfréttum hjá RÚV í dag niðurstöður í skoðanakönnun í Suður-Karólínu um fylgi framjóðenda í forvali Demókrataflokksins. Niðurstöðurnar komu mér svo sem ekkert á óvart þar sem ég hef fylgst dulítið með þeim könnunum sem gerðar hafa verið undanfarið. Það kom mér hins vegar á óvart hvernig hægt var að halda því fram í sömu frétt að fylgi Obama hefði minnkað um 5% síðustu þrjá daga.
Safnkönnun fimm kannana gerðum á bilinu 15.-24. janúar sýna sömu eða svipaðar niðurstöður og sagt var frá hjá RÚV eða Obama 38,2%, Clinton 26,4% og Edwards 19,2%. Munurinn er að RÚV segir fylgi Edwards sé 21% og Clinton 25%.
Ég sé hins vegar ekki að hægt sé að segja það sem sagt var um fylgi Obama í fréttinni nema þá að velja sérstakar kannanir til viðmiðunar sem segja það sem þú vilt segja. Staðreyndin er sú að mikil sveifla hefur verið í könnunum í fylkinu allan janúarmánuð þar sem Obama hefur haft á bilinu 6-20% forskot á Clinton. Sjá hér. (Efst á síðunni eru safnkannanirnar en neðar er hellingur af könnunum síðan í desember 2006).
Minn gamli franski stærðfræðikennari sagði að það væru til þrenns konar lygar. Lygar, helvítis lygar og tölfræði. (Þetta er auðvitað ættað annars staðar frá en frá henni, man bara ekki í svipinn hvaðan, gott ef þetta er ekki í formála tölfræðikennslubókar í menntó). Ég held að þetta eigi við gæti menn ekki hvernig þeir setja hlutina fram.
En það sem kannanir gefa vísbendingu um er að Obama muni sigra prófkjörið í Suður-Karólínu, Clinton dalar heldur og Edwards sækir nokkuð í sig veðrið. Hann stóð sig enda mjög vel í kappræðum þeirra á milli á þriðjudaginn var þó svo að hann ætti erfitt með að ná þeirri athygli sem hann hefði mátt fá.
Það held ég.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.