2.10.2007 | 20:27
Jahérna hér
Fyrir nokkrum vikum sótti ég um starf eitt eftir að hafa skoðað það og litist vel á. Starfið var staðsett á höfuðborgarsvæðinu og þegar frá leið og ég hafði ekkert heyrt neitt um það var ég búinn að afskrifa það. En svo einn daginn var hringt í mig og ég boðaður í starfsviðtal. Auðvitað var ég tilbúinn í það og spurði hvar og hvenær það væri. Á morgun klukkan fjórtán tuttugu var svarið. Einhverjar vöfflur komu á greinilega á mig þar sem fresturinn sem mér gafst var í styttri kantinum að því að mér fannst, eða innan við sólarhringur, þannig að í símanum var spurt hvernig mér litist á það. Er eitthvað annað í boði spurði ég bjartsýnn en svarið var sutt og laggott "nei". Ég mæti sagði ég þá snöggt og áleit að ég hefði bjargað mér úr stærri vítum en þessu um ævina.
Ég gat svo með miklum og góðum skilningi vinnuveitanda míns fengið frí daginn eftir til að sinna þessu en hitt fannst mér verra að með svo stuttum fyrirvara voru auðvitað öll ódýrari flugfargjöldin búin þannig að ferðin kostaði mig u.þ.b. 25 þúsund krónur. Ég ákvað að bíta á jaxlinn og bölva í hljóði og lét mig hafa það.
Þegar ég kom svo í viðtalið daginn eftir var vel á móti mér tekið af þeim tveimur einstaklingum sem tóku viðtalið. Mér var boðið sæti og svo glugguðu þessir tveir einstaklingar sem sátu á móti mér í skjölum sínum. "Þú kemur já alla leið frá Laugum, við hefðum nú getað gert þetta í gegnum síma". Mér var öllum lokið í smá stund. Já auðvitað hefði það verið hægt ef menn hefðu kannski áttað sig á því fyrr og undirbúið sig fyrir þetta. Fleiri setningar og spurningar út í gegnum þetta rúmlega hálftíma viðtal undirbjuggu mig undir það sem seinna kom svo í ljós að starfið fékk ég ekki.
Það held ég.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ótrúlegt viðtal. Ertu viss um að þú fáir ekki vinnuna?? takk fyrir kveðju í síðustu viku. :):)
Ásdís Sigurðardóttir, 2.10.2007 kl. 22:17
Rosalega er þetta smekklaust og hugsunarlaust. Það liggur við að ég óski þér til hamingju með að hafa ekki fengið starfið. Yfirmenn sem haga sér svona gagnvart fólki, eru ekki umhyggjusamir og góðir yfirmenn. Og ef maður er svona í einu, er hætt við að maður sé einmitt svona í öllu. Svo ef til vill slappstu bara fyrir horn í þetta sinn Ragnar minn. Þú færð örugglega annað starf sem hentar þér betur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.10.2007 kl. 12:40
"Loksins ég fann þig". Gaman að þú skulir hafa vinnuveitanda sem getur sýnt svona mikinn og góðan skilning. Vil bara koma á framfæri vegna hugsanlegra höfundarréttardeilna að þessi notkun á frasanum hljómþýða "jahérna hér" er þrælstolið en ég gæti hugsað mér að láta þetta mál niður falla gegn hæfilegum bótum og býð hér með upp á möguleikann á samningaviðræðum um hugsanlega gjaldtöku fyrir notkun á þess sem slíkum. En varðandi suðurferðina hjá þér, að hugsa sér að fara alla þessa leið með ómældri fyrirhöfn og fá bara vöfflur. Jahérnahér..
Knemil (IP-tala skráð) 12.10.2007 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.