13.9.2007 | 20:49
Eitt af betri eintökum Moggans
Eitt af betri eintökum Moggans í langan tíma leit dagsins ljós síðastliðinn sunnudag. Þar var stutt grein um löggæsluátak í miðborginni. Merkilegt annars að fólk er búið að tala úr sér raddböndin um hið skelfilega ástand í Reykjavík um helgarnætur og svo þegar loksins er farið af stað með verkefni til að taka almennilega og öðruvísi á því, að þá verður allt vitlaust. Eitthvað svo verulega íslensk viðbrögð, fyrirsjáanleg og leiðinleg.
Síðan það sem hæst bar í blaðinu. Loksins almennileg og að því að virtist ákaflega fagleg umfjöllun um Grímseyjarferjumálið vel þæfða. Miklu plássi eytt í þessa umfjöllun, málið skoðað frá öllum hliðum og tímalína lögð í gegnum allt ferlið. Vel unnin og lýsandi fréttamennska sem því miður ekki er á hverju strái þessa dagana hér á klakanum. Svo bíður maður bara eftir því að heyra afsökunarbeiðni samgönguráðherrans til handa ráðgjafanum. Annars finnst mér öðru aðalatriði málsins ekki vera haldið á lofti í þessu en það er auðvitað að Grímseyingar eigi að hafa alvöru samgönguþjónustu.
"Staða ljóðsins" var áhugaverð umræða Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og féll vel að manni og svo sökk ég auðvitað niður í "erfðalykla tungumálsins", viðtal við enska málvísindamannin David Lightwood sem endaði á smá skoti um að enskunnar yrði kannski fullhefnt með íhlutun hennar í mál okkar nú líkt og hann telur hafa gerst með öfugum formerkjum fyrr á öldum. Að maður tali nú svo ekki um viðtal við höfunda bókarinnar um Maó formann. Ég hef meira að segja lesið stutta kafla úr þeirri bók, pantaði hana næstum því snemmsumars en ákvað að spara það við mig. Hefði sko alveg viljað heyra frásögn Chang á morgun á bókmenntahátíð.
Auðvitað voru smá stjórnmál með í för eins og vera ber. Hugsað upphátt um vegferð lýðræðis af Guðna Ágústs. og "svo fúll á móti, ég veit allt" grein frá Róbert Marshall.
Svo les ég bæði atvinnuauglýsingar og dánar-/jarðarfarafréttir sem og stöku minningargrein en þar á eftir fékk maður smá sýn á Jethro Tull forsprakkann Ian Anderson.
Síðan sá ég smá umfjöllun um kvikmynd sem á að gera um sögu úr seinni heimsstyrjöldinni um Bielski bræðurna er forðuðu fjölda gyðinga frá dauða í skógum Hvíta Rússlands. Ég sá einmitt heimildarmynd um þá í sumar og þótti áhugaverð þannig að líklega kemur maður til með að reyna að sjá þessa þegar hún kemur út.
"Vel flutt leiðindi" var síðan dómurinn um hinn nýja disk Magna "Rockstar". Tek undir það að mestu, fannst ekki alltaf vel flutt hjá honum. Hallast frekar að magnaðri textagerð Villa Naglbíts og góðum flutningi hans.
Löng færsla orðin, í stíl við sunnudagsmoggann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Morgunblaðið er í raun eina alvöru dagblaðið á markaðinum. Blaðið og Fréttablaðiði eru bara einnota sem maður hendir strax eftir lestur. D.V. hendir maður strax. Það er hinsvegar einn stór galli á Mogganum. Hann er sá að það er alltof mikið af nafnlausum skrifum, t.d. ritstjórnarpistillinn, staksteinar og Reykjavíkurbréfin. Það er stórfurðulegt að þetta skuli hafa viðgengist, því ekki dettur mér annað í hug en að Mogginn birti innsendar greinar nema undir nafni þess sem skrifar.
Bjarni Harðar var flottur á lopapeysunni í Kastljósinu í gær. Ætli þurfi ekki að endurvekja Marshall-aðstoðina ?
Hermann Aðalsteinsson (IP-tala skráð) 15.9.2007 kl. 21:08
Sunnudagsmoggin var fínn. Þú tipplar á ýmsu úr sunnudags mogganum, og þá bara tekur sitt pláss, eins og sunnudagar gera
Kveðja:
Sigfús Sigurþórsson., 16.9.2007 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.